Til baka

Deiliskipulag fyrir Kringlureit samþykkt af borgarráði

7 nóvember 2025

Borgarráð samþykkti þann 6. nóvember deiliskipulag fyrir nýtt og margbreytilegt borgarhverfi á Kringlureit. Tillaga Reita fasteignafélags um að byggja þar 420 íbúðir í mannvænu og lifandi umhverfi getur því orðið að veruleika.

Engin tvö hús verða eins á Kringlureit en auk íbúðanna munu menningarhús, græn svæði, sólríkt torg, blönduð þjónusta og verslun, og ný hjóla- og gönguleið prýða hverfið sem liggur milli Kringlunnar, Listabrautar og Húss verslunarinnar. Með skipulaginu er brotið blað í uppbyggingu borgarinnar þar sem nýjar íbúðir rísa sem hluti af heildrænni, hlýlegri og vistvænni hönnun á svæðinu öllu.

Heimsþekkta arkitektastofan Henning Larsen og THG arkitektar eru höfundar skipulagsins en hönnuðirnir leituðu í íslenska byggingarlist og sögu miðborgarinnar til innblásturs.

"„Hjarta Reykjavíkur stækkar með þessu skipulagi sem samþykkt var í gær, bæði hvað varðar fermetra og fagurfræði. Við sjáum anda gömlu Reykjavíkur lifna við og mæta ströngum gæða- og umhverfiskröfum nútímans með hætti sem hefur ekki sést áður hér á landi. Þetta er ný nálgun í íbúðaruppbyggingu á Íslandi,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita."

Til marks um gæðin er hverfið í heild sinni mótað samkvæmt ströngum kröfum BREEAM-staðalsins um vistvænar byggingar og skipulag.

Nýja menningarhúsið verður til húsa þar sem áður var prentsmiðja Morgunblaðsins en þannig verður saga hússins hluti af framtíð hverfisins. Ný atvinnurými undir skrifstofur og verslun munu rísa sem framlenging af menningarhúsinu og glæða hverfið mannlífi.

Íbúðirnar verða ólíkar að stærð og lögun. Flest íbúðahúsin verða á þremur til sex hæðum, þau hæstu yst til að skapa skjól fyrir hverfið. Undir húsunum verður bílastæðakjallari en í gegnum hverfið liggur vistgata þar sem umferð hjólandi og gangandi er gert hátt undir höfði. Stefnt er að því að afhenda fyrstu íbúðirnar eftir um það bil þrjú ár.

Fleiri fréttir

Uppbygging við Nauthólsveg, í Spönginni og á Metróreit

Reitir fasteignafélag hafa gert uppbyggingarsamkomulag við Reykjavíkurborg um þróun og uppbyggingu á fjölbreyttu íbúðar- og atvinnuhúsnæði við Nauthólsveg, í Spönginni og á Metróreit.

Reitir eru framúrskarandi og til fyrirmyndar

Reitir eru í 3. sæti meðal 1.720 fyrirtækja sem eru til fyrirmyndar samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins og Keldunnar.

Torgið hugmyndasamkeppni haldin í fyrsta skipti

Fjórtán lið skipuð nemendum úr Háskólanum í Reykjavík, tóku þátt í Torginu, hugmyndasamkeppni Reita og HR, sem haldin var í fyrsta skipti dagana 8.-11. október.