Torgið hugmyndasamkeppni haldin í fyrsta skipti
Fjórtán lið skipuð nemendum úr Háskólanum í Reykjavík, tóku þátt í Torginu, hugmyndasamkeppni Reita og HR, sem haldin var í fyrsta skipti dagana 8.-11. október. Verkefni nemenda var að móta framtíð Kringlunnar, stærstu verslunarmiðstöð Íslands og verðmætustu fasteigna Reita, til næstu 20 ára. Verðlaunaafhending í keppninni fór fram í Sólinni í HR á laugardag og bar liðið Funi, skipað þeim Karitas Líf Ríkarðsdóttur og Emilíu Nótt Davíðsdóttur, sigur úr bítum.

Stærsta verslunarmiðstöð Íslands viðfangsefni nemenda
Verkefnið sem lagt var fyrir liðin þetta árið ber yfirskriftina Framtíð Kringlunnar: Flaggskip verslunar á Íslandi í breyttum smásöluheimi. Valdimar Sigurðsson, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild HR, skrifaði raunverkefnið í nánu samstarfi við Reita. Nemendur voru beðnir um að setja sig í spor stjórnenda Reita og Kringlunnar, kryfja áskoranir og tækifæri sem snúa að Kringlunni og smásölu á Íslandi, og móta hugmyndir að framtíð Kringlunnar til næstu 20 ára.
Vinningsliðið á leið til Kaupmannahafnar í vettvangsferð
Keppnin var sett 8. október með setningarathöfn sem fór fram í Kringlunni sem er stærsta og verðmætasta fasteign Reita. Þátttaka var þverfagleg og voru fulltrúar nær allra deilda háskólans meðal þeirra 52 nemenda sem tóku þátt.
Liðin höfðu öll skilafrest fram á laugardag síðastliðinn og kynntu þau í framhaldi lausnir sínar fyrir dómnefnd sama dag. Karitas og Emilía sem skipa vinningsliðið í ár eru báðar nemendur í heilbrigðisverkfræði í HR á fyrsta ári. Tillaga þeirra var þríþætt og byggði á vel útfærðum hugmyndum að framtíð Kringlunnar.
"„Það var algjör skyndiákvörðun hjá okkur að taka þátt í Torginu í ár. Við dýrkum að leysa flóknar áskoranir, þannig við létum bara vaða og það gekk svona ljómandi vel. Okkur fannst þetta fáránlega gaman, bæði að nýta okkar styrkleika á sviði sem er svona víðtækt, en einnig að fá reynsluna út úr þessu öllu. Þetta er gríðarlega stórt tækifæri og við erum mjög þakklátar,“ segir Karitas Líf."
Liðið LP Simplex sem skipað var Eini Sturla Arinbjarnarsyni, Arnari Frey Erlingssyni, Hauki Inga Sigrúnar Jónssyni, Birgi Braga Gunnþórssyni og Ísaki Erni Elvarssyni, nemendum í rekstrarverkfræði og fjármálaverkfræði hlaut viðurkenningu fyrir frumlegustu hugmyndina.
Liðið Die Intelekt skipað Aroni Kristjánssyni, og Tómasi Braga Þorvaldssyni hlaut viðurkenningu fyrir bestu kynninguna.
Dómnefndina í hugmyndasamkeppninni skipuðu þau Guðni Aðalsteinsson forstjóri Reita, Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá atNorth og stjórnarmeðlimur hjá Reitum, Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, forseti tæknisviðs HR og aðstoðarrektor, Valdimar Sigurðsson, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild HR og Inga Rut Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kringlunnar.
Vinningsliðið hlýtur í verðlaun ferð til Kaupmannahafnar þar sem farið verður m.a. í vettvangsskoðanir í fasteignaþróunarverkefni og heimsóknir til samstarfsaðila Reita.
Reitir og HR í samstarf til þriggja ára
Reitir og HR undirrituðu fyrr á árinu samstarfssamning til þriggja ára sem felur í sér árlega hugmyndasamkeppni fyrir nemendur HR þar sem þau fá tækifæri til að takast á við raunveruleg verkefni úr starfsemi Reita.
"„Dugnaður, sköpunargleði og útsjónarsemi sem nemendur sýndu er aðdáunarverð. Hugmyndasamkeppnin hefur strax sannað hversu dýrmætt er að efla tengsl atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Nemendur komu með frumlega sýn á verkefni sem er Reitum mikilvægt og opnuðu augu okkar fyrir nýjum vinklum og lausnum. Ég hlakka nú þegar til að halda Torgið að ári þar sem við munum taka fyrir nýtt og spennandi raunverkefni sem verður ekki síður þýðingarmikið fyrir Reiti,“ segir Guðni Aðalsteinsson forstjóri Reita."
Hugmyndasamkeppni sem þessi á sér fyrirmynd víða erlendis í sumum af framsæknustu háskólum heims og er oftast nær sérstaklega eftirsótt tækifæri fyrir nemendur. Samstarfið miðar að því að efla nýsköpun, styrkja tengsl háskólasamfélags og atvinnulífs og skapa tækifæri til þróunar fyrir báða aðila.
"„Við fögnum nýju samstarfi við Reiti fasteignafélag sem veitir nemendum okkar einstakt tækifæri til að takast á við úrlausn raunhæfs verkefnis. Um leið bætast Reitir í hóp framúrskarandi samstarfsfyrirtækja Háskólans í Reykjavík en við leggjum áherslu á mikið og gott samstarf við fyrirtækin í landinu. Slíkt samstarf er öllum til góða, nemendum, kennurum, rannsakendum og atvinnulífinu,” segir Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, sviðsforseti tæknisviðs Háskólans í Reykjavík og aðstoðarrektor."