Blóðbankinn opnar í Kringlunni
Blóðbankinn hefur nú opnað í Kringlunni, stærstu verslunarmiðstöð Íslands. Ný staðsetning eykur enn frekar aðgengi almennings að blóðgjöf sem er ómissandi liður í heilbrigðisþjónustu. Alma D. Möller heilbrigðisráðherra, María Heimisdóttir landlæknir, og Björn Rúnar Lúðvíksson, framkvæmdastjóri klínískrar rannsóknarþjónustu á Landspítala, voru viðstödd við opnun Blóðbankans 25. september 2025 ásamt fulltrúum Reita og Kringlunnar, heiðursblóðgjöfum, starfsfólki Blóðbankans og fleiri gestum.

“Nú hefur mikilvægum áfanga verið náð þar sem einn af hornsteinum íslenskrar heilbrigðisþjónustu, sem eru blóðgjafarnir okkar, fá bætt aðgengi og aðstöðu til blóðgjafa. Þar hefur okkur tekist að færa þessa kjarnastarfsemi að einum best þekkta og fjölsóttasta stað höfuðborgarsvæðisins. Erum við því full bjartsýni að með þessu móti muni okkur takast að fjölga nýskráðum blóðgjöfum og auka með því þann frábæra kjarnahóp blóðgjafa sem gefa líf með reglulegum hætti,” segir Björn Rúnar Lúðvíksson, framkvæmdastjóri klínískrar rannsóknarþjónustu á Landspítala.
Á besta stað á höfuðborgarsvæðinu
Nýja aðstaða Blóðbankans er staðsett í Stóra turninum í Kringlunni. Aðgangur að turninum er með lyftu á 2. hæð í Kringlunni sem er að finna milli verslana Lindex og Júník, og er Blóðbankinn á 5. hæð. Með þessari nýju staðsetningu getur lífsbjargandi blóðgjöf orðið hluti af daglegri leið margra sem sækja Kringluna til að nýta sér fjölbreytt úrval verslana, þjónustu, veitingastaða, og afþreyingar sem þegar er til staðar í Kringlunni.
„Kringlan býr yfir fjölda einstakra eiginleika. Gott aðgengi, fjöldi bílastæða og miðlæg staðsetning gera Kringluna tilvalna fyrir starfsemi Blóðbankans og við vonumst til að hentug staðsetning og glæsileg aðstaða verði til þess að það fjölgi í hópi blóðgjafa sem eru hversdagshetjur samfélagsins. Við bjóðum Blóðbankann og alla blóðgjafa velkomna af öllu hjarta í Kringluna,“ segir Inga Rut Jónsdóttir framkvæmdastjóri Kringlunnar.
Sérsniðið að þörfum blóðgjafa og starfsfólks
Reitir fasteignafélag, eigandi húsnæðisins í Kringlunni, sá um framkvæmdir og endurbætur sem tryggja að nýja rýmið uppfylli allar þarfir Blóðbankans. Í nánu samstarfi við Blóðbankann var rýmið innréttað til þess að skapa þægilega aðstöðu fyrir starfsfólk og blóðgjafa.
„Sérfræðingar okkar á sviði framkvæmda hafa lagt metnað og alúð í að hanna og útfæra rými sérsniðið að starfsemi Blóðbankans. Samstarfið undirstrikar einstakt tækifæri við að nýta Kringluna, sem er einn fjölsóttasti staðurinn á Íslandi, til að styðja við starfsemi sem er samfélaginu sannarlega ómissandi,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.