Til baka

SögufrægirReitir

Með bætt umhverfi og auðgun mannlífs í Kvosinni að leiðarljósi leggja Reitir áherslu á vandað viðhald sögufrægra húsa og almenna fræðslu um sögu þeirra.

Aðalstræti 2 (Vesturgata 1)

Með bætt umhverfi og auðgun mannlífs í Kvosinni að leiðarljósi vilja Reitir auka almenna þekkingu á sögu svæðisins og virðingu fyrir menningarlegu og hagrænu gildi þess. Nokkur vandlega endurnýjuð söguleg hús voru keypt af Minjavernd árið 2007 og hafa Reitir lagt áherslu á vandað viðhald á þeim í samráði við Minjavernd. Á árinunum 2012 og 2017 voru settir sögu­skýringarplattar á 16 fasteignir í eigu Reita.

Aðalstræti 2, Reykjavík

Aðalstræti 2 - sögufrægt hús í eigu Reita fasteignafélags

Aðalstræti 2 í Reykjavík

Aðalstræti 2, ásamt bakhúsum sem vísa að Vesturgötu kallast einu nafni Ingólfsnaust því að á þessum stað herma sagnir að Ingólfur Arnarson, fyrsti landnámsmaður Íslands, hafi dregið skip sín í naust og voru tóttir naustsins enn sýnilegar á 18. öld. Eftir að kaupstaður myndaðist inni í sjálfri Reykjavík um 1780 reisti fyrsti kaupmaðurinn hús sín einmitt á þessari lóð. Sá var danskur og hét Sünckenberg. Áður voru verslunarhús á eyjum úti fyrir ströndinni (Hólmskaupstaður).

Núverandi framhús, sem snýr að Aðalstræti, er reist árið 1855, en bakhúsin sem voru pakkhús kaupmannsins eru að mestum hluta reist árið 1905. Þá voru húsin í eigu fyrirtækisins H. P. Duus sem rak mikla verslun og skútuútgerð í Reykjavík. Öll húsin voru gerð upp í samræmi við upphaflega gerð þeirra á árunum 1999 til 2003 og þau tengd með tengibyggingu úr gleri.

Aðalstræti 12, Reykjavík

Aðalstræti 12, sögufrægt hús í miðbæ Reykjavíkur í eigu Reita fasteignafélags

Aðalstræti 12, Ísafold, er sögufrægt hús reist 1886.

Björn Jónsson, ritstjóri og síðar ráðherra, reisti húsið sem nú stendur við Aðalstræti 12, árið 1886 á lóð nr. 8 við Austurstræti. Hann gaf út vikublaðið Ísafold frá 1874 og við það voru prentsmiðjan og húsið kennd. Íbúð hans var á efri hæð hússins en á neðri hæð var prentsmiðjan, þar sem Morgunblaðið var prentað frá stofnun þess 1913 til 1956. Húsið var tekið niður og flutt á nýjan kjallara í Aðalstræti árið 1999. Húsið hýsir nú meðal annars veitingahúsið Fiskmarkaðinn. Húsið var endurnýjað af Minjavernd.

Austurstræti 12 og 12a, Reykjavík

Austurstræti 12 og 12a eru sögufræg hús við Austurvöll í miðborg Reykjavíkur sem eru í eigu Reita fasteignafélags.

Húsin við Austurstræti 12 og 12a voru reist í kjölfar Reykjavíkurbrunans árið 1915.

Austurstræti 12 er eitt þeirra húsa sem byggt var í kjölfar brunans mikla árið 1915. Jóhannes Kjarval listmálari var með vinnustofu á efstu hæð hússins við Austurstræti 12 í mörg ár. Hann vann ekki einungis þar heldur átti hann lögheimili þar alveg frá því efsta hæðin var byggð ofan á húsið árið 1929 og þar til hann lést árið 1972. Árið 1933 sýndi hann veggmyndir, Lífshlaupið, sem hann hafði málað á veggi hússins. Tæpum fjörutíu árum seinna, þegar listmálarinn lést, voru veggmyndirnar fjarlægðar og gert var við verkið.

Margrét Zoëga reisti húsið við Austurstræti 12a árið 1922 eftir teikningum Jens Eyjólfssonar, byggingameistara, í stað Hótels Reykjavíkur sem varð eldi að bráð í Reykjavíkurbrunanum svokallaða árið 1915. Húsið var tvílyft fram til ársins 1970 er það var hækkað um þrjár hæðir. Húsið var upphaflega teiknað og byggt í s.k. júgendstíl.

Austurstræti 14, Reykjavík

Austurstræti 14 er sögufrægt hús við Austurvöll í miðborg Reykjavíkur. Húsið er í eigu Reita fasteignafélags.

Á gafli Austurstrætis 14 er falleg lágmynd eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal sem sýnir landnám Ingólfs Arnarsonar.

Frá aldamótunum 1900 og fram til um 1970 var Austurstræti talin helsta gata Reykjavíkur. Strætið var miðpunktur félags- og skemmtanalífs, verslunar og þjónustu í höfuðstaðnum. Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, sem mikill ljómi leikur yfir í hugum Íslendinga, keypti lóðina Austurstræti 14 árið 1906 og þá var hún talin dýrasti blettur á Íslandi. Núverandi hús, sem er fjórlyft með klassískum blæ, er reist árið 1928 af Jóni Þorlákssyni forsætisráðherra Íslands og borgarstjóra Reykjavíkur um skeið.

Arkitekt hússins er Einar Erlendsson. Á gafli þess sem snýr að Pósthússtræti er lágmynd eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal sem sýnir landnám Ingólfs Arnarsonar. Lengst af voru verslanir á neðstu hæðinni, svo sem Soffíubúð, Herradeild P&Ó, dömudeild London, og tóbaksverslunin London en frá 1992 til 2020 var þar rekið kaffihús kennt við París.

Pósthússtræti 3

Pósthússtræti 3 er sögufræg bygging í eigu Reita fasteignafélags í miðborg Reykjavíkur.

Pósthússtræti 3 var fyrsta meiri háttar mannvirkið sem bæjarstjórn Reykjavíkur stóð fyrir að reist yrði.

Húsið nr. 3 við Pósthússtræti er hlaðið úr tilhöggnu grjóti eins og Alþingishúsið enda er höfundur þess F. A. Bald sem var yfirsmiður við byggingu Alþingishússins árið 1881. Húsið var fyrsta meiri háttar mannvirkið sem bæjarstjórn Reykjavíkur stóð fyrir að reist yrði og hýsti það Barnaskóla Reykjavíkur á árunum 1883 til 1898. Frá 1898 til 1915 var rekið pósthús í húsinu en einnig voru þar höfuðstöðvar Landsíma Íslands frá 1906 til 1931. Eftir það var húsinu fengið hlutverk Lögreglustöðvar Reykjavíkur og þjónaði það því hlutverki þar til ný lögreglustöð við Hlemm var tekin í notkun um 1965. Á meðan húsið var aðallögreglustöð Reykjavíkur voru alræmdar fangageymslur í kjallaranum, aðallega til þess að hýsa menn sem voru teknir úr umferð vegna ölvunar á almannafæri. Eftir 1965 varð húsið aftur tekið í þágu Pósthússins í Reykjavík sem var þar ásamt öðrum, m. a. Hinu húsinu, til ársins 2018.

Hótel Borg við Pósthússtæti

Hótel Borg, Pósthússtræti 9-11 er sögufræg bygging við Austurvöll sem er í eigu Reita

Sirkús- og glímukappinn Jóhannes Jósefsson reisti Hótel Borg á árunum 1928 til 1930 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar.

Hótel Borg er glæsilegt hótel staðsett við Pósthússtræti 9-11 í Reykjavík. Herbergi hótelsins eru öll innréttuð í Art Deco stíl og endurspegla þannig ytra útlit og sögu hótelsins. Byggingin var teiknuð árið 1917 af Guðjóni Samúelssyni, fyrrum húsameistara ríkisins. Nýrri hluti hótelsins, Pósthússtræti 9, var byggður árið 1959.

Hótelið var byggt af Jóhannesi Jósefssyni árið 1930. Jóhannes hafði getið sér góðs orðspors erlendis sem glímukappi og kom meðal annars fram með Barnum & Baileys sirkusnum og tók þátt í Ólympíuleikunum árið 1908. Hann snéri heim til Íslands efnaður maður og fyrir tilstuðlan Jónasar frá Hriflu ákvað hann að fjárfesta í byggingu lúxushótels, þess fyrsta á Íslandi. Hornsteinn hótelsins var lagður árið 1928. Aðeins 18 mánuðum síðar, eða í janúar 1930, opnaði Hótel Borg veitingastað sinn og fjórum mánuðum síðar opnaði hótelið sjálft. Eftir opnun hótelsins var Jóhannes yfirleitt kallaður Jóhannes á Borg.

Hafnarstræti 91, Akureyri

Hafnarstræti 91 á Akureyri, oft kallað KEA húsið, er meðal sögufrægra fasteigna í eigu Reita fasteignafélags.

Hafnarstræti 91 á Akureyri er oft kallað KEA húsið.

Húsið var reist árið 1930 eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar fyrir Kaupfélag Eyfirðinga. KEA eins og kaupfélagið var kallað í daglegu tali, hafði höfuðstöðvar sínar í húsinu í 76 ár, eða til ársins 2006.

Þegar húsið var byggt var það eitt stærsta og veglegasta hús bæjarins. Það er steinsteypt á þremur hæðum, auk riss. Grunnflöturinn er L-laga og á bakvið er mikið port. Húsið er búið miklu skrauti í kringum glugga og á þaki. Lengst af var kaupfélagsverslun á jarðhæð hússins en árið 1996 var þar opnuð bókabúðin Bókval. Árið 2019 var þar enn rekin bókaverslun, undir nafninu Eymundsson. En á efri hæðum hússins eru enn skrifstofur.

Grjótagata 4, Reykjavík

Grjótagata 4 er meðal sögufrægra fasteigna Reita í miðborg Reykjavíkur

Húsið við Grjótagötu 4 var byggt 1896 af Einari Pálssyni snikkara sem einnig byggði Iðnó.

Saga lóðarinnar við Grjótagötu 4 er sú að á tímum Innréttinganna og fram til 1811 stóð þar Skálinn, torfhús sem var svefnskáli Innréttinganna. Húsið sem nú stendur við Grjótagötu 4 var byggt af Einari Pálssyni snikkara árið 1896 eftir að Gröndalshús, sem staðið hafði frá 1811 til 1896, var rifið. Einar var kunnur trésmiður í bænum og byggði m.a. Iðnaðarmannahúsið (Iðnó) 1897. Árin 1900 til 1920 var Stefán Eiríksson myndskeri með teikniskóla og verkstæði í kjallaranum. Margir smiðir og listamenn lærðu hjá Stefáni Eiríkssyni „hinum oddhaga“ í húsinu og á það sér því sess í sögu íslenskrar myndlistar.

Húsið er járnvarið timburhús, tvær hæðir kjallari og lágt ris. Í kjallaranum eru nú skrifstofur en á hæðunum eru gistirými. Það sem er merkilegt við bygginguna er að allar hliðar hennar eru jafnar og gluggar og hurðir hafa haldist óbreytt. Húsið var nokkuð heillegt þegar hafist var handa við endurbyggingu þess, enda eignaðist Borgarsjóður það 1973 og var húsið gert upp þá. Við endurbyggingu hússins var það lagað að kröfum byggingareglugerðar og brunavarna. Minjavernd sá um verkefnisstýringu og stjórnun allra framkvæmda. Sérstök áhersla var lögð á að varðveita byggingarsögu hússins. Við framkvæmdina var haldið til haga skrautlistum, rósettum og öðru sérstöku upprunalegu byggingarefni.

Zimsen húsið við Vesturgötu 2a, Reykjavík

Vesturgata 2a, Zimsen húsið, er meðalsö

Vesturgata 2a, Zimsen húsið, stóð áður við Hafnarstræti, það var flutt og endurnýjað á vandaðan hátt á árunum 2006 til 2009.

Zimsen húsið, sem er 668,5 fermetrar, var upphaflega byggt í tveim áföngum á lóðinni Hafnarstræti 21. Húsið er rúmlega 110 ára í heild sinni. Það var komið með núverandi mynd, stærð og form árið 1899. Eldri hluti hússins, sem er syðri helmingur þess, er töluvert eldri, líklega frá 1835.

Jes Zimsen verslaði lengi í húsinu og er húsið enn kennt við hann. Einnig var leigubílastöð lengi með aðsetur í húsinu.

Minjavernd sá um flutninga og endurgerð hússins á árunum 2006 til 2009. Við endurgerðina þótti rétt að draga fram helstu stíleinkenni þess frá fyrri tíð. Innra burðarvirki hafði verið mikið raskað í tímanns rás, en það var endurgert á nær upphaflegan hátt. Sökkull hússins var endurhlaðinn og var það gert úr sömu steinum og það stóð á við Hafnarstræti.

Upphaflega stóð húsið á sjárvarkambi en smám saman réðust menn í að hlaða hafnarkanta norðan hússins og mátti við uppgröft sjá þróun þeirra frá frekar frumstæðri hleðslu yfir í vel formaða steina í múrlími. Þótti rétt að flytja hluta af þeirri sögu jafnframt með húsinu, gömlu hafnarkantarnir voru því grafnir upp og hver steinn merktur. Þeir voru síðan endurhlaðnir við sjávarfallaþró sem er nú austan hússins með brú yfir.

Pósthússtræti 5

Pósthússtræti 5, gamla pósthúsið í miðbæ Reykjavíkur er meðal sögfrægra fasteigna í eigu Reita í miðborg Reykjavíkur.

Pósthússtræti 5 hýsti pósthús í áratugi. Húsið setur sterkan svip á miðborgina með einkennandi rauðum lit.

Pósthússtræti 5 er þriðja pósthúsið sem staðið hefur við Pósthússtræti og ber gatan því nafn með rentu. Það var reist árið 1914 í klassískum stíl og er síðasta verk Rögnvalds Ólafssonar sem kallaður hefur verið fyrsti íslenski arkitektinn.