Til baka

HótelReitir

Hótelin í eignasafni Reita eru á meðal þeirra þekktustu og rótgrónustu í Reykjavík.

Hótel Borg

Hotel Borg , Pósthússtræti 9-11

Hótel Borg er glæsilegt hótel staðsett við Pósthússtræti 9-11 í Reykjavík. Herbergin eru öll innréttuð í Art Deco stíl og endurspegla þannig ytra útlit og sögu hótelsins. Byggingin var teiknuð árið 1917 af Guðjóni Samúelssyni, fyrrum húsameistara ríkisins. Nýrri hluti hótelsins, Pósthússtræti 9, var byggður árið 1959.

Hótelið var byggt af Jóhannesi Jósefssyni árið 1930. Jóhannes hafði getið sér góðs orðspors erlendis sem glímukappi og kom meðal annars fram með Barnum & Baileys sirkusnum og tók þátt í Ólympíuleikunum árið 1908. Hann snéri heim til Íslands efnaður maður og fyrir tilstuðlan Jónasar frá Hriflu ákvað hann að fjárfesta í byggingu lúxushótels, þess fyrsta á Íslandi. Hornsteinn hótelsins var lagður árið 1928. Aðeins 18 mánuðum síðar, eða í janúar 1930, opnaði Hótel Borg veitingastað sinn og fjórum mánuðum síðar opnaði hótelið sjálft. Eftir opnun hótelsins var Jóhannes yfirleitt kallaður Jóhannes á Borg.

Berjaya Reykjavik Natura Hotel að Nauthólsvegi 52

Hotel Berjaya Reykjavik Natura við Nauthólsveg 52 er rekið í húsnæði í eigu Reita fasteignafélags.

Hotel Berjaya Reykjavik Natura að Nauthólsvegi 52

Árið 1962 var fyrsta skóflustungan tekin að stórbyggingu sem átti að hýsa skrifstofur Loftleiða og jafnframt hótel á Reykjavíkurflugvelli. Hótelbyggingin reis á árunum 1965-1966 og var stækkuð til muna árið 1970. Fjölmargt þekkt fólk hefur gist á hótelinu. Þegar heimsmeistaraeinvígið í skák milli Rússans Spasskýs og Bandaríkjamannsins Bobby Fischer fór fram árið 1972 bjó Fischer allan tímann á svítu á Hótel Loftleiðum og þótti nokkuð sérviskulegur í háttum. Hann vakti jafnan fram undir morgun og fór þá í langar gönguferðir um nágrennið en svaf svo fram eftir degi sem varð til þess að hann mætti oftast of seint til leiks í einvíginu og hafði þá stundum ekki fengið sér neitt að borða.

Hótelið var endurnýjað á glæsilegan hátt árið 2011 og fékk á sama tíma nafnið Hotel Reykjavik Natura. Á hótelinu eru 220 herbergi og byggir hvert þeirra á einu þema sem sótt er til íslenskrar náttúru; jarðhita, norðurljósa, eldvirkni og vatns.

Hilton Reykjavik Nordica, Suðurlandsbraut 2

Hilton Reykjavik Nordica er rekið í húsnæði í eigu Reita að Suðurlandsbraut 2 í Reykjavík

Hilton Reykjavik Nordica, Suðurlandsbraut 2

Á árunum 1970 til 1971 var nýtt hótel tekið í notkun í Reykjavík með um 170 herbergjum. Það kallaðist Hótel Esja og var í eigu bílakóngsins Kristjáns Kristjánssonar frá Akureyri. Síðar komst það í eigu Flugleiða en 1999 keypti forveri Reita, Þyrping hf., hótelið. Fjölmargir heimsþekktir einstaklingar hafa gist á hótelinu. Sumarið 1990 hélt Bob Dylan hljómleika í Laugardalshöllinni. Hann gisti á Hótel Esju. Fjöldi blaðamanna og annarra aðdáanda sat fyrir Bob Dylan framan við Laugardalshöll er von var á honum til tónleikanna en hann hafði þá fengið lánað reiðhjól á hótelinu og fór allt aðra leið en búist hafði verið við og komst óséður bakdyramegin inn í höllina.

Á árunum 2001 til 2003 var hótelið stækkað um nær helming og húsinu öllu gjörbreytt. Eftir þær umbætur fékk það nafnið Nordica hotel og var þá orðið stærsta hótel Íslands með 284 herbergjum og hafði breyst úr dæmigerðu ferðamannahóteli í ráðstefnu- og viðskiptahótel með ellefu ráðstefnu- og veitingasölum auk sýningarsvæðis og líkamsræktarstöðvar. Á meðal nýjunga voru 23 svítur á 9. hæð hótelsins, þar af tvær glæsiíbúðir.

Alda Hotel Reykjavik, Laugavegi 66-70

Húsnæði Alda Hotel við Laugaveg er meðal bygginga í eignasafni Reita fasteignafélags.

Alda Hotel Reykjavik við Laugaveg 66-70.

Reitir keyptu húsnæði Alda Hotel Reykjavík í janúar 2017. Hótelið er staðsett að Laugavegi 66-70. Húsnæði hótelsins samanstendur af nokkrum sambyggðum byggingum sem samtals eru rúmlega 4.000 fermetrar. Húsnæðið hefur verið algjörlega endurnýjað að innan sem utan á vandaðan og skemmtilegan hátt.

Hótel Ísland, Ármúla 9

Hótel Ísland er rekið í húsnæði í eigu Reita við Ármúla 9 í Reykjavík.

Hótel Ísland við Ármúla 9 í Reykjavík.

Reitir festu kaup á félaginu Hótel Íslandi ehf. sem á fasteignina að Ármúla 9 í Reykjavík árið 2015. Húsið hýsir ferðamannahótel, sjúkrahótel og heilsutengda starfsemi. Hótel Ísland var endurnýjað á árinu 2015. Á árum áður var starfræktur á hótelinu vinsæll skemmtistaður sem hét Broadway.

Hótelið er hið glæsilegasta enda var það endurnýjað að stórum hluta á árinu 2015 í tengslum við breyttar áherslur í rekstri. Hluti herbergja var endurnýjaður, bæði á fyrstu hæð auk þess sem öll efsta hæðin var endurnýjuð, þar eru nú sex nýjar og glæsilegar hótelsvítur sem allar hafa rúmgóðan setkrók og víðfemt útsýni yfir borgina. Breytingar á hæðinni voru m.a. hannaðar af arkitektastofunni THG. Móttaka hótelsins, kaffihús og veitingasalir fengu einnig yfirhalningu. Gluggaskilrúm úr svörtu járni skilur á milli gestamóttöku og hlýlegs kaffihúss í stórborgarstíl með múrsteinsvegg og bar með opnum hillum. Kaffihúsið skapar mótvægi við nýtt, bjart og opið móttökurými sem tekur á móti skjólstæðingum lækningamiðstöðvarinnar og gesta sem hyggjast njóta heitu pottanna, hot jóga salarins eða annarrar þjónustu í heilsulindinni sem tilheyrir hótelinu.

Nýja móttökurýmið er staðsett í þeim hluta hússins sem áður hýsti Broadway. Rýmið er óþekkjanlegt frá því sem þá var, stór þakgluggi hleypir nú dagsbirtu inn þar sem sviðið var áður og ný viðarklæðning á veggjum dempar hljóð auk þess að gefa þessu bjarta rými hlýju. Skurðstofa með kennslustúku Lækningamiðstöðin Klíníkin er rekin í húsinu, þar eru fjórar skurðstofur með tækjum og búnaði af nýjustu gerð. Við eina skurðstofuna er sérhönnuð kennslustúka sem gerir nemum, sérfræðingum og öðrum kleift að fylgjast með aðgerðum í gegnum gler og ræða við lækna í sérstöku hljóðkerfi á meðan á aðgerð stendur. Þetta er í fyrsta sinn sem gert er ráð fyrir slíkri kennsluaðstöðu við skurðstofu hérlendis.