Nýtt hjúkrunarheimili verður opnað við Nauthólsveg
Nauthólsvegur 50 fær nýtt hlutverk sem 87 rýma hjúkrunarheimili

„Verulega tímabært var að hefja fyrir alvöru uppbyggingu hjúkrunarheimila á Íslandi og nú er verkið hafið. Málefni eldra fólks eru mér hjartans mál og hafa verið það lengi og nú er verkstjórn tekin við sem gengur í málið. Ég er afar stolt í dag,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Nýja hjúkrunarheimilið verður ríflega 6.500 fermetrar og öll herbergin einbýli með baðherbergjum. Reitir eiga fasteignina en ríkið leigir húsið með leigusamningi til 20 ára.
„Umbreyting Nauthólsvegar 50 í hjúkrunarheimili er liður í stefnu Reita um uppbyggingu mikilvægra innviða fyrir samfélagið. Breytt aldurssamsetning og öldrun þjóðar kallar á verulega aukningu hjúkrunarrýma og með þessu verkefni svörum við kallinu um innviði sem skipta sköpum fyrir velferð og heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, mundaði sleggjuna og reif niður vegg í húsinu til þess að marka áfangann að leigusamningur hafi verið undirritaður og framkvæmdir hefjist í kjölfarið.
Arkís arkitektar sjá um hönnun hússins og verður meðal annars lögð áhersla á þarfir og velferð íbúa og starfsfólks, aðgengi fyrir alla og góða innivist. Þá verður útigarður hannaður þannig að í honum myndist skjólgott og sólríkt útivistar- og dvalarsvæði.
Staðsetningin hentar einstaklega vel fyrir starfsemi hjúkrunarheimilis, í nánd við Landspítalann, miðbæ Reykjavíkur og útivistarsvæði á borð við Öskjuhlíð og Nauthólsvík.
Uppbygging sem gagnast samfélaginu
Reitir hafa sett sér markmið um að auka umsvif í þróunarverkefnum og fjölga eignum í nýjum flokkum, og þá sérstaklega eignum sem gagnast samfélaginu. Umbreyting Nauthólsvegs 50 í hjúkrunarheimili er liður í þeirri stefnu og samfélagslegri ábyrgð félagsins.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.