
Eignasafn Reita samanstendur af verslunarhúsnæði, skrifstofuhúsnæði og öðru atvinnuhúsnæði.
Björn Jónsson, ritstjóri og síðar ráðherra, reisti húsið sem nú stendur við Aðalstræti 12, árið 1886 á lóð nr. 8 við Austurstræti. Hann gaf út vikublaðið Ísafold frá 1874 og við það voru prentsmiðjan og húsið kennt. Íbúð hans var á efri hæð hússins en á neðri hæð var prentsmiðjan, þar sem Morgunblaðið var prentað frá stofnun þess 1913 til 1956. Húsið var tekið niður og flutt á nýjan kjallara í Aðalstræti árið 1999 og endurnýjað af Minjavernd.
Húsið við Aðalstræti 2, ásamt bakhúsum sem vísa að Vesturgötu, kallast einu nafni Ingólfsnaust því að á þessum stað herma sagnir að Ingólfur Arnarson, fyrsti landnámsmaður Íslands, hafi dregið skip sín í naust og voru tóttir naustsins enn sýnilegar á 18. öld. Eftir að kaupstaður myndaðist inni í sjálfri Reykjavík um 1780 reisti fyrsti kaupmaðurinn hús sín einmitt á þessari lóð. Sá var danskur og hét Sünckenberg. Áður voru verslunarhús á eyjum úti fyrir ströndinni (Hólmskaupstaður). Núverandi framhús, sem snýr að Aðalstræti, er reist árið 1855, en bakhúsin sem voru pakkhús kaupmannsins eru að mestum hluta reist árið 1905. Þá voru húsin í eigu fyrirtækisins H. P. Duus sem rak mikla verslun og skútuútgerð í Reykjavík. Öll húsin voru gerð upp í samræmi við upphaflega gerð þeirra á árunum 1999 til 2003 og þau tengd með tengibyggingu úr gleri.
Austurstræti 12 er eitt þeirra húsa sem byggt var í kjölfar brunans mikla árið 1915. Jóhannes Kjarval listmálari var með vinnustofu á efstu hæð hússins við Austurstræti 12 í mörg ár. Hann vann ekki einungis þar heldur átti hann lögheimili þar alveg frá því efsta hæðin var byggð ofan á húsið árið 1929 og þar til hann lést árið 1972. Árið 1933 sýndi hann veggmyndir, Lífshlaupið, sem hann hafði málað á veggi hússins. Tæpum fjörtíu árum seinna, þegar listmálarinn lést, voru veggmyndirnar fjarlægðar og gert var við verkið.
Margrét Zoëga reisti húsið árið 1922 eftir teikningum Jens Eyjólfssonar, byggingameistara, í stað Hótels Reykjavíkur sem varð eldi að bráð í Reykjavíkurbrunanum svokallaða árið 1915. Húsið var tvílyft fram til ársins 1970 er það var hækkað um þrjár hæðir. Húsið var upphaflega teiknað og byggt í júgendstíl.
Frá aldamótunum 1900 og fram til um 1970 var Austurstræti talin helsta gata Reykjavíkur. Strætið var miðpunktur félags- og skemmtanalífs, verslunar og þjónustu í höfuðstaðnum. Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, sem mikill ljómi leikur yfir í hugum Íslendinga, keypti lóðina Austurstræti 14 árið 1906 og þá var hún talin dýrasti blettur á Íslandi. Núverandi hús, sem er fjórlyft með klassískum blæ, er reist árið 1928 af Jóni Þorlákssyni forsætisráðherra Íslands og borgarstjóra Reykjavíkur um skeið.
Arkitekt hússins er Einar Erlendsson. Á gafli þess sem snýr að Pósthússtræti er lágmynd eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal sem sýnir landnám Ingólfs Arnarsonar.
Lengst af voru verslanir á neðstu hæðinni, svo sem Soffíubúð, Herradeild P&Ó, dömudeild London, og tóbaksverslunin London. Eitt þekktasta kaffihús Reykjavíkur, Café Paris, þakti alla neðstu hæð hússins á árunum 1992 til 2020.
Byggingin við Austurstræti 8-10 var fullgerð árið 2000 eftir teikningum arkitektanna Gunnars Bergmann Stefánssonar og Hlédísar Sveinsdóttur. Stigahús turnar setja svip á bygginguna og er mikið í hana lagt.
Barónsfjósið var reist árið 1899 en það var fyrsta steinsteypta húsið sem reist var í Reykjavík. Það var Charles Gauldrée Boilleau, franskur barón sem sest hafði að hérlendis, sem lét reisa það fyrir 50 kýr og 4000 hestburði af heyi. Rekstur fjóssins varð þó ekki arðbær og baróninn varð gjaldþrota. Húsið var lengi notað sem áhaldahús Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Barónsstígur dregur nafn sitt af baróninum.
Stórstúka Íslands reisti húsið á árunum 1964-1968 eftir teikningum Harðar Bjarnasonar arkitekts sem þá var húsameistari ríkisins. Húsið var kallað Templarahöllin og þar voru vinsæl böll og bingó. Árið 1999 var húsinu breytt og það stækkað samkvæmt teikningum arkitektanna Björns Skaptasonar og Hildar Bjarnadóttur. Húsið hefur verið í útleigu til Landspítala Íslands til fjölda ára.
Reitir keyptu Fiskislóð 10 árið 2014. Húsið hýsti áður Exton og var kennt við það fyrirtæki.
Saga lóðarinnar við Grjótagötu 4 er sú að á tímum Innréttinganna og fram til 1811 stóð þar „Skálinn“, torfhús sem var svefnskáli Innréttinganna. Húsið sem nú stendur við Grjótagötu 4 var byggt af Einari Pálssyni snikkara árið 1896 eftir að Gröndalshús, sem staðið hafði frá 1811 til 1896, var rifið. Einar var kunnur trésmiður í bænum og byggði m.a. Iðnó 1897. Árin 1900 til 1920 var Stefán Eiríksson „hinn oddhagi“ með teikniskóla og verkstæði í kjallaranum. Margir smiðir og listamenn, s.s. Ríkharður Jónsson, Gunnlaugur Blöndal og Guðmundur Einarsson frá Miðdal, lærðu hjá honum í húsinu. Á síðari hluta kreppuáranna áttu Gunnlaugur Scheving listmálari og Grete Linck Grönbeck eiginkona hans heima í kjallara hússins.
Húsið er járnvarið timburhús, tvær hæðir kjallari og lágt ris. Það sem er merkilegt við bygginguna er að allar hliðar hennar eru jafnar og gluggar og hurðir hafa haldist óbreytt. Húsið var nokkuð heillegt þegar hafist var handa við endurbyggingu þess, enda eignaðist Borgarsjóður það 1973, og var húsið gert upp þá. Við endurbyggingu hússins eftir aldamótin var það lagað að kröfum byggingareglugerðar og brunavarna. Minjavernd sá um um verkefnisstýringu og stjórnun allra framkvæmda. Sérstök áhersla var lögð á að varðveita byggingarsögu hússins. Við framkvæmdina var haldið til haga skrautlistum, rósettum og öðru sérstöku upprunalegu byggingarefni.
Reitir eru eigandi að verslunarrými að Hallveigarstíg 1 í Reykjavík.
Hótel Borg er glæsilegt hótel staðsett við Pósthússtræti í Reykjavík. Á hótelinu eru 99 herbergi, þar af eru 7 svítur og ein turnsvíta. Herbergin eru öll innréttuð í Art Deco stíl og endurspegla þannig ytra útlit og sögu hótelsins. Bygging var teiknuð árið 1917 af Guðjóni Samúelssyni, fyrrum húsameistara ríkisins. Nýrri hluti hótelsins, Pósthússtræti 9, var byggður árið 1959.
Hótelið var reist af Jóhannesi Jósefssyni árið 1930 . Jóhannes hafði getið sér góðs orðspors erlendis sem glímukappi og kom meðal annars fram með Barnum & Baileys sirkusnum og tók þátt í Ólympíuleikunum árið 1908. Hann snéri heim til Íslands efnaður maður og fyrir tilstuðlan Jónasar frá Hriflu ákvað hann að fjárfesta í byggingu lúxushótels, þess fyrsta á Íslandi. Hornsteinn hótelsins var lagður árið 1928. Aðeins 18 mánuðum síðar, eða í janúar 1930 opnaði Hótel Borg veitingastað sinn og fjórum mánuðum síðar opnaði hótelið sjálft. Eftir opnun hótelsins var Jóhannes yfirleitt kallaður Jóhannes á Borg.
Laugavegur 26 er vandað hús með gler framhlið og glæsilegum skrifstofum á efri hæðum.
Alda Hotel Reykjavik.
Húsið nr. 3 við Pósthússtræti er hlaðið úr tilhöggnu grjóti eins og Alþingishúsið enda er höfundur þess F. A. Bald sem var yfirsmiður við byggingu Alþingishússins árið 1881. Húsið var fyrsta meiri háttar mannvirkið sem bæjarstjórn Reykjavíkur stóð fyrir að reist yrði og hýsti það Barnaskóla Reykjavíkur á árunum 1883 til 1898. Frá 1898 til 1915 var rekið pósthús í húsinu en einnig voru þar höfuðstöðvar Landsíma Íslands frá 1906 til 1931. Eftir það var húsinu fengið hlutverk Lögreglustöðvar Reykjavíkur og þjónaði það því hlutverki þar til ný lögreglustöð við Hlemm var tekin í notkun um 1965. Á meðan húsið var aðallögreglustöð Reykjavíkur voru frægar fangageymslur í kjallaranum, aðallega til þess að hýsa menn sem voru teknir úr umferð vegna ölvunar á almannafæri. Eftir 1965 varð húsið aftur tekið í þágu Pósthússins í Reykjavík sem var rekið þar ásamt annarri starfssemi, lengi Hinu húsinu, sem rekið er á vegum Íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkur fyrir ungt fólk, fram til ársins 2018.
MYNDBAND UM SÖGU HÚSSINS
Húsið nr. 5 við Pósthússtræti er þriðja pósthúsið sem staðið hefur við Pósthússtræti og bar gatan því nafn með rentu enda pósthús við strætið allt til ársins 2018. Það var reist árið 1914 í klassískum stíl og er síðasta verk Rögnvalds Ólafssonar sem kallaður hefur verið fyrsti íslenski arkitektinn.
MYNDBAND UM SÖGU HÚSSINS
Húsið að Skólavörðustíg 11 var reist árið 1967 fyrir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis sem hafði starfsemi í húsinu til ársins 2009. Húsið var hannað af arkitektunum Guðmundi Kr. Kristinssyni og Gunnlaugi Halldórssyni. Á lóðinni stóð áður steinbærinn Tobbukot, sem kenndur var við Þorbjörgu Sveinsdóttur ljósmóður, og timburhús sem Þorbjörg byggði árið 1896.
Lárus E. Sveinbjörnsson dómstjóri reisti húsið árið 1875. Síðan tók dóttir hans og tengdasonur, Magnús Einarsson dýralæknir, við húsinu. Húsið er með hefðbundnu danskættuðu sniði. Árið 1995 var húsið fært til eldra horfs.
Húsið, sem er 668,5 fermetrar, var upphaflega byggt í tveim áföngum á lóðinni Hafnarstræti 21. Húsið er rúmlega 110 ára í heild sinni. Það var komið með núverandi mynd, stærð og form árið 1899. Eldri hluti hússins, sem er syðri helmingur þess, er töluvert eldri, líklega frá 1835. Jes Zimsen verslaði lengi í húsinu og er húsið enn kennt við hann. Einnig var leigubílastöð lengi með aðsetur í húsinu. Minjavernd sá um flutninga og endurgerð hússins á árunum 2006 til 2009. Við endurgerðina þótti rétt að draga fram helstu stíleinkenni þess frá fyrri tíð. Innra burðarvirki hafði verið mikið raskað í tímanns rás, en það var endurgert á nær upphaflegan hátt. Sökkull hússins var endurhlaðinn og var það gert úr sömu steinum og það stóð á við Hafnarstræti. Upphaflega stóð húsið á sjárvarkambi en smám saman réðust menn í að hlaða hafnarkanta norðan hússins og mátti við uppgröft sjá þróun þeirra frá frekar frumstæðri hleðslu yfir í vel formaða steina í múrlími. Þótti rétt að flytja hluta af þeirri sögu jafnframt með húsinu, gömlu hafnarkantarnir voru því grafnir upp og hver steinn merktur. Þeir voru síðan endurhlaðnir við sjávarfallaþró sem er nú austan hússins með brú yfir.
Nauthólsvegur 50 er áfast Icelandair Hótel Reykjavik Natura.
Húsnæði Hotel Reykjavik Natura. Árið 1962 var fyrsta skóflustungan tekin að stórbyggingu sem átti að hýsa skrifstofur Loftleiða og jafnframt hótel á Reykjavíkurflugvelli. Hótelbyggingin reis á árunum 1965-1966 og var stækkuð til muna árið 1970. Fjölmargt þekkt fólk hefur gist á hótelinu. Þegar heimsmeistaraeinvígið í skák milli Rússans Spasskýs og Bandaríkjamannsins Bobby Fischer fór fram árið 1972 bjó Fischer allan tímann á svítu á Hótel Loftleiðum og þótti nokkuð sérviskulegur í háttum. Hann vakti jafnan fram undir morgun og fór þá í langar gönguferðir um nágrennið en svaf svo fram eftir degi sem varð til þess að hann mætti oftast of seint til leiks í einvíginu og hafði þá stundum ekki fengið sér neitt að borða.
Hótelið var endurnýjað á glæsilegan hátt árið 2011 og fékk á sama tíma nafnið Hotel Reykjavik Natura. Á hótelinu eru 220 herbergi og byggir hvert þeirra á einu þema sem sótt er til íslenskrar náttúru; jarðhiti, norðurljós, eldvirkni og vatn. Rekstur hótelsins hefur fengið aþjóðlega vottun skv. ISO 14001 staðlinum sem umhverfisvænn rekstur.
Kringlan er stærsta verslunarmiðstöð Reykjavíkur, með yfir 180 fjölbreyttar verslanir, veitingastaði og þjónustuaðila.
Nánar
Kringlan 1 er oft kennd við Morgunblaðið en þar var prentsmiðja blaðsins lengi til húsa.
Leigutaki: Sjóvá-almennar tryggingar hf.
Kringlan 7 er í daglegu tali nefnd Hús verslunarinnar. Fyrsta skóflustunga að húsinu var tekin 1976 og fyrstu skrifstofurnar teknar í notkun sumarið 1982.
Glæsibær
Verslunarmiðstöðin við Holtagarða var opnuð eftir miklar endurbætur og stækkun vorið 2008. Holtagarðar eru nú um 37.000 fermetrar. THG arkitektar voru aðalhönnuðir breytinganna. Í verslunarmiðstöðinni er fjöldi verslana og ýmis þjónusta en í húsinu eru einnig skrifstofur. Í bakhluta hússins og kjallara eru stórar vörugeymslur. Í Holtagörðum er þægilegt að versla. Þar eru breiðir gangar, næg bílastæði og mikið vöruúrval.
Húsið var byggt árið 1975 og hýsti stórverslunina Miklagarð á árunum 1983 til 1993 en síðar verslun IKEA ásamt fleiri verslunum.
Húsnæðið að Holtavegi 8 er lagerhúsnæði.
Reitir keyptu húsnæðið að Klettagörðum 6 árið 2014.
Húsið hýsti fyrstu Bónusverslunina.
Guðrúnartún 10 hét áður Sætún 10. Nafnabreytingin var gerð árið 2012.
Verslunarhúsnæðið að Laugarlæk 2-8 var byggt í kringum 1960. Það var kallað Lækjarver í daglegu tali fyrstu árin. Lækjarver opnaði 20 nóvember 1959, með þremur verslunum; Matvörumiðstöðinni, er rekin var af Ragnari Ólafssyni sem áður var hjá Silla og Valda, Kjötmiðstöðinni, rekinni af Björgvin Hermannssyni sem áður var verslunarmaður að Laugavegi 32, og vefnaðarvöruverslun. Stuttu seinna opnaði mjólkurbúð. Tveimur árum seinna var húsið stækkað um einn "kubb" og þar opnuð ísbúð og hefur lengst af verið Ísbúð í húsinu. Kjötmiðstöðin og Matvörumiðstöðin voru starfræktar í húsinu til 1990.
Húsið við Laugaveg 176 er þekkt sem Gamla sjónvarpshúsið enda hýsti það höfuðstöðvar Ríkissjónvarpsins frá upphafi útsendinga árið 1966 þar til starfsemi þess var flutt í Útvarpshúsið við Efstaleiti árið 1997.
Húsið við Laugaveg 182 er í daglegu tali nefnt Kauphallarhúsið.
Syðra húsið sem snýr að Miklubraut er líklega þekktast fyrir starfsemi Tónabæjar sem var þar á árunum 1968 til 2000. En byggingin sem stendur norðar á lóðinni hýsti lengi skrifstofur IBM á Íslandi (síðar Origo). Bæði húsin hýstu starfsemi fjölmiðlaveldisins 365 til margra ára en árið 2019 fluttu skrifstofur Landspítala í húsin.
Hótel Ísland
Efstaland 26 stendur við Bústaðaveg en er í daglegu tali kallað Grímsbær. Framkvæmdir við verslanamiðstöðina hófust í maí árið 1971 en húsið var formlega tekið í notkun 19. júlí 1972. Það var Steingrímur Bjarnason, fisksali, sem byggði húsið og var lengi aðaleigandi Grímsbæjar. Steingrímur rak fiskbúð í Grímsbæ í fjölda ára.
Húsnæði Hotel Hilton Reykjavík Nordica.
Á árunum 1970 til 1971 var nýtt hótel tekið í notkun í Reykjavík með um 170 herbergjum. Það kallaðist Hótel Esja og var í eigu bílakóngsins Kristjáns Kristjánssonar frá Akureyri. Síðar komst það í eigu Flugleiða en 1999 keypti forveri Reita, Þyrping hf., hótelið. Á árunum 2001 til 2003 var hótelið stækkað um nær helming og húsinu öllu gjörbreytt. Eftir þær umbætur fékk það nafnið Nordica hotel og var þá stærsta hótel landsins með 284 herbergjum og hafði breyst úr dæmigerðu ferðamannahóteli í ráðstefnu- og viðskiptahótel með ellefu ráðstefnu- og veitingasölum auk sýningarsvæðis og líkamsræktarstöðvar. Á meðal nýjunga voru 23 svítur á 9. hæð hótelsins, þar af tvær glæsiíbúðir.
Suðurlandsbraut 34 er betur þekkt sem Orkuhúsið.
Skrifstofugarðarnir við Höfðabakka voru byggðir á árunum 1969 til 1980 eftir teikningum feðganna Halldórs Jónssonar og Garðars Halldórssonar. Bogabyggingin hýsti upphaflega verktakaskrifstofur og lágbyggingin ýmiskonar iðnað. Bogabyggingin var hönnuð í „síð-fúnksjónalískum“ stíl. Reitir hafa varðveitt einkenni byggingarinnar, veglegt anddyri með tvöfaldri lofthæð, íburðarmiklum hringstiga, upprunalegum marmara og svissnesku málmáferðar veggfóðri.
Skrifstofugarðarnir við Höfðabakka voru byggðir á árunum 1969 til 1980 eftir teikningum feðganna Halldórs Jónssonar og Garðars Halldórssonar. Bogabyggingin hýsti upphaflega verktakaskrifstofur og lágbyggingin ýmiskonar iðnað. Heildarstærð bygginganna tveggja á lóðinni er um 25.000 fm, en þar má finna til leigu skrifstofu- og þjónustuhúsnæði í 400 til 5.000 fm einingum.
Spöngin er hjarta Grafarvogsins, þar má finna allar helstu vörur og þjónustu daglegs lífs auk úrvals af sérvöru. Í Spönginni er fjöldi fjölbreyttra veitingahúsa sem þjóna hverfisbúum. Spöngin var byggð á árunum 1998 til 2001.
Háholt 13-15 í Mosfellsbæ bættist í eignasafn Reita þann 1. nóvember 2021.
Dalbraut 1 bættist í eignasafn Reita þann 1.11.2021.
Húsið var reist árið 1930 eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar fyrir Kaupfélag Eyfirðinga. KEA eins og kaupfélagið var kallað í daglegu tali, hafði höfuðstöðvar sínar í húsinu í 76 ár, eða til ársins 2006. Þegar húsið var byggt var það eitt stærsta og veglegasata hús bæjarins. Það er steinsteypt á þremur hæðum, auk riss. Grunnflöturinn er L-laga og á bakvið er mikið port. Húsið er búið miklu skrauti í kringum glugga og á þaki.
Á árum áður lagði oft ljúfan súkkulaðilm frá Hvannavöllum 14 á Akureyri. Hafist var handa við byggingu fullkominnar súkkulaðiverskmiðju á lóðinni árið 1959. Verksmiðjan, sem var á heimsmælikvarða, tók til starfa í september árið 1961, þar voru fljótlega framleiddar yfir 60 tegundir sælgætis, bæði fyrir innanlandsmarkað og til útflutnigns. Síðar voru í húsinu m.a. Tónlistarskólinn á Akureyri og blómaverslun, og nú árið 2019 m.a. bílaleiga og bakarí.
Húsið er í daglegu tali kallað Borgir. Húsið var byggt árið 2004 fyrir starfsemi Háskólans á Akureyri og opinberar rannsóknarstofnanir sem talið var að gætu notið góðs af nálægðinni við háskólann og aukið samstarf sitt á sviði kennslu og rannsókna og styrkt háskólasamfélagið á Akureyri. Húsnæðið er að hluta til hefðbundið skrifstofuhúsnæði en þar er einnig að finna mjög sérhæft rými undir rannsóknarstofur ásamt tilheyrandi búnaði.
Verslunarkjarninn að Hafnargötu 2 á Reyðarfirði er stundum kallaður Molinn. Hann bættist í eignasafn Reita þann 1.11.2021.
Eignasafn Reita er fjölbreytt hvort sem litið er til tegundar húsnæðis, staðsetningar eða tegundar leigutaka. Vegna fjölda og fjölbreytileika er áhætta tekjuflæðis eignasafnsins töluvert dreifð.
Skiptiborð Reita er opið milli 9:00 og 16:00. Í gegnum skiptiborð er hægt að fá samband við ÍAV þjónustu allan sólarhringinn, hún getur útvegað iðnaðarmenn til skyndilegra viðbragða við neyðartilfellum.
Reitir fasteignafélag hf.
Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík
Kt. 711208-0700
Sími +354 575 9000
Almennt: reitir(hjá)reitir.is
Reikningar: bokhald(hjá)reitir.is