Reitir á meðal stofnaðila að Votlendissjóðnum

Votlendissjóðurinn var stofnaður með það að markmiði að stuðla að endurheimt votlendis og draga með því úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Reitir á meðal stofnaðila að Votlendissjóðnum

Sjóðurinn er stofnaður um  samfélagslegt verkefni sem hefur það að markmiði  að fá fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að fjármagna endurheimt hluta þess votlendis sem þegar hefur verið raskað hérlendis, áætlað hefur verið að heildarlengd framræsluskurða hér á landi sé um 34.000 km.

Víðtækt samstarf

Sjóðurinn starfar jafnframt með stofnunum sem vinna að því verkefni, svo sem Landgræðslunni, Landbúnaðarháskólanum, Háskóla Íslands, Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Suðurlandi, Vegagerðinni, Fuglavernd, Landvernd, Klöppum, Náttúrustofunum, Náttúrufræðistofnun Íslands, sveitarfélögunum, bændum og landeigendum.

Stofnaðilar Votlendissjóðsins eru: Landgræðsla ríkisins, Samskip, Skeljungur, Íslandsbanki, Verkfræðistofan Efla, Reitir fasteignafélag, Auðlind - minningarsjóður Guðmundar Páls Ólafssonar, Þekkingarmiðlun og Elding Hvalaskoðun Reykjavík. Búið er að ráða Ásbjörn Björgvinsson  framkvæmdastjóra verkefnisins en hann hefur komið að uppbyggingu fjölmargra stórra umhverfistengdra verkefna í ferðaþjónustunni undanfarna áratugi.

Gríðarleg losun

Talið er að allt að  70 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi komi frá framræstu og röskuðu votlendi og í raun ekki hægt að tala um loftlagsaðgerðir hér á landi fyrr en hafist er handa fyrir alvöru við endurheimt votlendis. Þær aðgerðir geta ekki verið á herðum landeigenda eða bænda heldur er ábyrgðin samfélagsins alls.

Sjóðurinn kemur til með að aðstoða landeigendur við að endurheimta votlendi sem ekki er nýtt  til landbúnaðar eða skógræktar. t.d. með því að fjármagna framkvæmdir og eftir aðstæðum leggja til kennslu, mannskap eða tæki.

Fræðilegur grunnur og staðreyndir um endurheimt votlendis

Votlendi þekur um 20% af grónu flatlendi Íslands. Stórum hluta votlendis á láglendi hefur verið raskað með framræslu. Mest af framræslunni fór fram um og eftir miðja síðustu öld þegar ríkið styrkti framkvæmdina. Grafnir hafa verið um 34.000 km af skurðum sem raskað hafa um 4.200 ferkílómetrum lands.  Áætlað er að nú sé innan við 15% eða 570 ferkílómetra lands nýtt til jarðræktar.

Jarðvegur mýrlendis er vatnsmettaður og súrefnissnauður. Aðstæður eru því ekki hliðhollar rotverum og sá lífræni massi sem fellur til ár hvert rotnar ekki niður nema að litlu leyti og safnast þess í stað upp.

Við framræslu lækkar vatnsyfirborð, jarðhiti hækkar og súrefni verður aðgengilegt. Þetta verður til þess að lífrænt efni sem hefur safnasat upp árhundruðum og þúsundum saman tekur að brotna niður með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda.

Þegar vatni er aftur hleypt á votlendi stöðvast niðurbrotið tiltölulega hratt því súrefni er ekki lengur til staðar fyrir niðurbrotsörverurnar. Þá fara af stað mun hægvirkari örverur sem geta starfað án súrefnis og losa metan sem er mjög virk gróðurhúsalofttegund. Það ferli er hins vegar um þúsund sinnum hægara og því mikill ávinningur af því frá loftlagssjónarmiði að halda mýrum blautum og hafa lífræna efnið áfram bundið í jörðu.

Samkvæmt stuðlum gefnum út af Vísindanefnd loftlagssamningsins (IPPC) er þessi losun 24,5 tonn koldíoxíðs-ígilda á hektara á ári, sem er í góðu samræmi við íslenskar rannsóknir sem sýna losun frá 14,6-30,3 tonnum á hektara á ári.

Með endurheimt votlendis er leitast við að stífla eða fylla upp í skurði og þannig færa stöðu grunnvatns sem næst því sem það var fyrir framræslu. Í kjölfarið má gera ráð fyrir að búskapur gróðurhúsalofttegunda og lífríki færist nær því sem fyrir var.

Losun frá framræstu eða röskuðu landi er langstærsti einstaki losunarþáttur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og er talinn vera um 70% af heildarlosun sem hægt er að stýra. Votlendissvæði eru einnig mikilvæg í öðru samhengi því þau eru búsvæði ýmissa lífvera (plantna, fugla, fiska og smádýra), gegna hlutverki við vatnsmiðlun, temprun flóða og bætingu vatnsgæða. Því felst margskonar ávinningur í að nýta þá áhrifaríku en jafnframt hagkvæmu loftlagsaðgerð sem endurheimt votlendis er. 


Fleiri sögur