Upplýsingastefna

1. Markmið upplýsingastefnu

Reitir fasteignafélag hf. (Reitir) sinnir upplýsingagjöf í samræmi við upplýsingastefnu félagsins. Upplýsingastefnan á að tryggja jafnan og skilvirkan aðgang hagsmunaaðila að réttum og áreiðanlegum upplýsingum um rekstur félagsins. Þannig má auka þekkingu þeirra og stuðla að því að starfsemi Reita njóti sannmælis.

2. Hagsmunaaðilar

Helstu hagsmuna- og samskiptaaðilar, sem upplýsingastefna Reita tekur til, eru hluthafar, fjárfestar, greiningaraðilar, matsfyrirtæki, kauphöll Nasdaq á Íslandi, fjölmiðlar, lánveitendur og viðskiptavinir.

3. Verklag upplýsingamiðlunar

Reitir fylgja í öllu þeim lögum og reglum er gilda um upplýsingaskyldu félaga sem skráð eru á Aðallista Kauphallar Nasdaq á Íslandi.

Reitum ber að birta opinberlega upplýsingar eins og mælt er fyrir um í lögum um verðbréfaviðskipti og reglugerðum sem sækja heimildir sínar þangað. Reglur Nasdaq á Íslandi fyrir útgefendur fjármálagerninga, eins og þær eru á hverjum tíma, mæla einnig fyrir um hvað félaginu ber að birta opinberlega.

a. Tilkynningar

Fréttatilkynningum félagsins, sem falla undir upplýsingaskyldu þess, er dreift í gegnum fréttaveitu Nasdaq á Íslandi (GlobeNewswire). Fréttir þessar munu birtast samtímis á vef Reita (www.reitir.is). Reitir munu í samræmi við upplýsingaskyldu félagsins birta fréttir og veita upplýsingar um öll mál sem teljast hafa umtalsverð áhrif á rekstur, stefnu og þróun félagsins.

Á vefsíðu Reita er að finna svæði sem ber heitið Fjárfestayfirlit. Þar má jafnframt nálgast þær upplýsingar sem félagið mun birta í samræmi við útgefendareglur Kauphallar og stjórnarhætti félagsins.

Reitir stefna að því að birta fréttir af starfsemi félagsins, sem falla ekki undir upplýsingaskyldu þess, á vef sínum og senda eftir atvikum fréttatilkynningar þess efnis til fjölmiðla.

b. Kynningar

Í kjölfar árshlutauppgjöra halda Reitir kynningarfundi fyrir hagsmunaaðila. Á kynningarfundum um ársuppgjör verður jafnframt farið yfir áætlanir félagsins og helstu verkefni.

c. Þagnartímabil

Tveimur vikum fyrir lok hvers uppgjörstímabils og fram að uppgjöri veita Reitir engar upplýsingar um málefni er hafa áhrif á rekstur, afkomu og efnahag félagsins.

d. Samskipti

Það er markmið Reita að eiga góð samskipti við alla hagsmunaaðila. Í þeim tilgangi er meðal annars leitast við að veita þeim aðstoð við umfjöllun um félagið, innan þess ramma sem lög og reglur heimila.

Hluthafar, sem vilja beina fyrirspurnum til stjórnar, eða gera grein fyrir viðhorfum sínum tengdum rekstri, geta sent tölvupóst á stjorn@reitir.is. Fyrirspurnum, sem varða rekstur, verður svarað.

Reitir munu að meginreglu ekki tjá sig um sveiflur í verði hluta og viðskiptamagni. Sama á við um orðróm og getgátur á markaði.

Forstjóri Reita er talsmaður félagsins í umboði stjórnar. Hann getur veitt öðrum starfsmönnum félagsins tímabundna heimild til þess að tjá sig um afmarkaða þætti starfseminnar.

Forstjóri félagsins er Guðjón Auðunsson
netfang: gudjon@reitir.is
sími: 575-9000/660-3320

4. Ábyrgð

Stefna þessi tekur þegar gildi og ber forstjóri ábyrgð á framfylgd hennar.

 

Þannig samþykkt í stjórn Reita fasteignafélags hf. 4. júní 2020.