Samfélag á Kringlureitnum

Uppbygging Kringlunnar er langtímaverkefni um þróun samfélags, með blöndu af íbúðum, verslun og þjónustu, menningu og listastarfsemi. Svæðið er um 13 hektarar.  Gert er ráð fyrir 160 þús. nýjum fermetrum, fjöldi íbúða getur orðið 800 til 1.000 talsins.

Samfélag á Kringlureitnum

Kringlusvæðið hefur mikla sérstöðu vegna Kringlunnar sem er stærsta og öflugasta verslunarmiðstöð Reykjavíkur. Kringlan gerir svæðið að einu því allra mikilvægasta fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi borgarinnar, en fjöldi gesta í Kringluna er yfir 5 milljónir árlega.

Þróun Kringlusvæðisins snýst um að skapa gott samfélag sem samtvinnar nýja byggð og núverandi starfsemi.  Íbúðabyggð við Kringluna verður áhugaverður kostur fyrir þau sem vilja búa miðsvæðis með aðgang að þeirri víðtæku þjónustu og afþreyingu sem finna má á Kringlusvæðinu auk þess að njóta nálægðar við miðbæinn og stór atvinnusvæði.

Í rammaskipulagi svæðisins, sem samþykkt var af Borgarráði í lok júní 2018 birtist ný stefna og framtíðarsýn fyrir þennan mikilvæga 13 hektara borgarhluta á grunni Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.

Rammaskipulagið gerir ráð fyrir 160 þúsund fermetrum í nýju byggingarmagni ofanjarðar og að fjöldi íbúða geti orðið 800 til 1.000 þegar svæðið verður fullbyggt. Í kjölfar rammaskipulagsvinnunnar er stefnt að breytingu á aðalskipulagi og í framhaldinu er gert ráð fyrir að svæðið verði deiliskipulagt og byggt upp í áföngum.  

Forsaga rammaskipulagsins er að þann 17. janúar 2018 undirrituðu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Reita um skipulag og uppbyggingu svæðisins á grundvelli vinningstillögu Kanon arkitekta í hugmyndasamkeppni sem haldin var árið 2017.

 

Stærð svæðis: 13 hektarar
Nýtt byggingarmagn: 160 þús. m2
Staða: Aðal- og deiliskipulagsbreyting í vinnslu
   

 

Rammaskipulagið gerir ráð fyrir reitaskiptingu sem fellur vel að hefðbundnu byggðarmynstri borgarinnar og skapar sterka heild. Borgarlínustöðvar eru staðsettar við Kringlumýrarbraut og Miklubraut og geta þá bæði þjónað Kringlusvæðinu og nálægri byggð. Gatnakerfi er vel útfært og býður upp á hefðbundnar borgargötur með rólegri bílaumferð og lífvænlegri þjónustu á jarðhæðum. Gert er ráð fyrir verulegri fjölgun bílastæða, sem aðallega verða staðsett neðanjarðar. Húsareitir eru ferningslaga með rúmgóðum, opnum inngörðum. Gert er ráð fyrir almenningsrými á miðju svæðisins. Hamrahlíð er framlengd inn á svæðið og nýr inngangur í Kringluna hafður í öndvegi við enda götunnar. Hús Sjóvár og Hús verslunarinnar eru haganlega felld inn í nýja byggð. Eins konar fortorg sunnan við Borgarleikhúsið gæti lyft húsinu upp í umhverfinu og gert aðkomuna að því skemmtilegri.

Húshæðir í vinningstillögunni eru að jafnaði fimm til sjö, en hærri byggingar rísa upp úr randbyggðinni á nokkrum stöðum og kallast á við Hús verslunarinnar og önnur hærri hús sem eru fyrir á svæðinu. 

Í fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur verður fjallað um bæði Kringlureitinn og Miklubraut í stokk í tengslum við þéttingu byggðar meðfram Borgarlínu og forgangsröðun uppbyggingarsvæða. Ennfremur hefur færsla Miklubrautar í stokk fengið jákvæða umfjöllun í nýjum samgöngusáttmála Höfuðborgarsvæðisins. 

Þróun Kringlureitsins verður áfangaskipt en möguleikar á norðurenda reitsins haldast í hendur við færslu Miklubrautar í stokk.  Að frumkvæði Reita var unnin forhönnun á stokknum sem kynnt var fyrir Reykjavíkurborg og Vegagerðinni í ársbyrjun 2019. Talið er að samfélagslegur ávinningur af verkefninu skapist m.a. með bættu umferðaröryggi og umhverfisgæðum, tíma- og eldsneytissparnaði og bættu aðgengi gangandi fyrir alla ferðamáta um gatnamótin sem nú eru hin umferðarmestu á höfuðborgarsvæðinu.

Reitir vonast til að fyrsti skipu­lags­áfangi verði samþykktur í ársbyrjun 2021. Reiknað er með að uppbygging geti hafist tveimur árum seinna en að svæðið byggist upp á 10-15 árum.

 Horft af húsþaki í austurátt að torgi við Kringluna. Myndin sýnir hugmynd Kanon arkitekta að útliti en lokaútlit á eftir að móta. Mynd: Kanon arkitektar.

Horft af húsþaki í austurátt að torgi við Kringluna. Myndin sýnir hugmynd Kanon arkitekta að útliti en lokaútlit á eftir að móta. Mynd: Kanon arkitektar.

Rammaskipulag gerir ráð fyrir rólegum borgargötum með samsíða bílastæðum og upphækkuðum görðum við íbúðahús. Mynd: Kanon arkitektar.

Rammaskipulag gerir ráð fyrir rólegum borgargötum með samsíða bílastæðum og upphækkuðum görðum við íbúðahús. Mynd: Kanon arkitektar.

Gert er ráð fyrir allstóru torgi við Kringluna.

Í rammaskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir allstóru torgi við Kringluna. Mynd: Kanon arkitektar.

Gert er ráð fyrir að bílastæði verði neðanjarnar en að að birtu verði hleypt inn á nokkrum stöðum.

Gert er ráð fyrir að bílastæði verði neðanjarnar en að að birtu verði hleypt inn á nokkrum stöðum. Mynd: Kanon arkitektar. 

Gert er ráð fyrir að ný byggð falli vel að húsi Sjóvár og Húsi verslunarinnar. Mynd: Kanon arkitektar.

Gert er ráð fyrir að ný byggð falli vel að húsi Sjóvár og Húsi verslunarinnar. Mynd: Kanon arkitektar. 

Uppfært í febrúar 2020.

Nánar

Forhönnun Miklubrautar í stokk kynnt (tilkynning á vef Reita í mars 2019)

Rammaskipulag Kringlunnar samþykkt í Borgarráði (tilkynning á vef Reita í júní 2018)

Greinargerð með rammaskipulagi Kringlusvæðisins (á vef Reykjavíkurborgar)

Myndband um Kringlureitinn (á facebook síðu Kringlureitsins í mars 2018)

Reykjavíkurborg og Reitir undirrita viljayfirlýsingu um uppbyggingu á Kringlureit  (tilkynning á vef Reita í janúar 2018)

Niðurstaða hugmyndasamkeppni um skipulag Kringlusvæðis (tilkynning á vef Reita í nóvember 2017)

Kringlureitur á Facebook

Staðsetning eignar

Aðrir Þróunarreitir