Kringlan

Kringlan er stærsta verslunarmiðstöð Reykjavíkur, með yfir 180 fjölbreyttar verslanir, veitingastaði og þjónustuaðila.

Kringlan
Kringlan er verðmætasta eign Reita. Yfir 5 milljónir gesta heimsóttu hana árið 2015. Uppbygging á Kringlureitnum er eitt áhugaverðasta framtíðarverkefni Reita.  

Reitir ráðgera að þróa á Kringlureitnum nútímalega blandaða byggð þar sem grænum gildum er gert hátt undir höfði. Gert hefur verið ráð fyrir áformum Reita í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar en ekki hefur verið tekin ákvörðun um nákvæma útfærslu eða tímasetningu framkvæmda. Ljóst er að Kringlureiturinn er einn áhugaverðasti byggingarreiturinn í borginni.

Hönnunartillaga THG að stækkun Kringlunnar.

Stækkun Kringlunnar

Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að að heildarbyggingamagn á svæðinu verði aukið um allt að 100.000 fermetra. Þar af er ráðgerð um 20.000 fermetra stækkun á Kringlunni með viðbyggingu út frá gömlu Borgarkringlunni og yfir Kringluna, veginn milli Húss verslunarinnar og Kringlunnar, og yfir á svæðið þar sem nú er Kringlan 1 og 3, hús sem hýsa m.a. Vinnumálastofnun. Eftir stækkunina er gert ráð fyrir að verslunarmiðstöðin verði um 60.000 fermetrar.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur er aukinheldur gert ráð fyrir byggingu um 150 íbúða og hótels í turni sem rísa mun norðanmegin við Kringluna. Íbúðabyggð við Kringluna verður áhugaverður kostur fyrir aðila sem vilja búa miðsvæðis með aðgang að þeirri víðtæku þjónustu sem finna má á Kringlusvæðinu auk þess að njóta nálægðar við miðbæinn, stór atvinnusvæði og útivistarsvæðin í Fossvogi og Laugardal.

Stærsta einstaka eign Reita er u.þ.b. 80% hlutur í verslunarmiðstöðinni Kringlunni. Húsin við Kringluna 1 til 5, sem nú hýsa meðal annars Sjóvá og Vinnumálastofnun,  eru í eigu Reita auk hlutar í Kringlunni 7, Húsi verslunarinnar.

Kringlan fagnar 30 ára afmæli 2017

Pálmi Jónsson, kenndur við Hagkaup, var upphafsmaður Kringlunnar, þessarar fyrstu eiginlegu verslunarmiðstöðvar á Íslandi, sem er með innri göngugötu á tveimur hæðum. Pálmi fór ótroðnar leiðir í viðskiptum en hann stofnaði árið 1960 verslunina Hagkaup sem póstverslun og afsláttarbúð að bandarískri fyrirmynd þar sem vöruverð var afar lágt. Hugmyndir hans féllu ekki í kramið hjá ráðandi öflum en almenningur tók þeim vel og áður en varði var Hagkaup orðið stórveldi.

Þegar Kringlan var opnuð voru þar 76 verslanir og þjónustuaðilar á þremur hæðum. Við það jókst verslunarrými í Reykjavík um 9%. Mikið var borið í húsnæðið sjálft. Upphaflega húsið var teiknað var af arkitektunum Richard Abrams, Hrafnkeli Thorlacius og Hilmari Ólafssyni en í síðari áföngum komu arkitektarnir Halldór Guðmundsson og Kristinn Ragnarsson við sögu. Árið 1991 var Borgarkringlan opnuð, nokkurs konar „lítil Kringla“, sem stóð milli Kringlunnar og Borgarleikhússins og hýsti meðal annars Kringlubíó og Kringlukrána. Árið 1997 voru síðan Kringlan og Borgarkringlan tengdar saman í eina byggingu með um 4000 fermetra millibyggingu. Í verslunarmiðstöðinni Kringlunni voru á 25 ára afmæli hennar árið 2012 yfir 170 verslanir, veitingastaðir og þjónustuaðilar. 

>> Kringlan.is
>> Kringlan á Facebook
>> Kringlan á Instagram

Staðsetning eignar

Aðrar stærri eignir Reita