Umfjöllun um Reiti í Viðskiptablaðinu

Umfjöllun um Reiti í Viðskiptablaðinu
Fjallað var um fyrirhugaða skráningu Reita í Kauphöll í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 17. janúar 2013.

Fjallað var um fyrirhugaða skráningu Reita í Kauphöll í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 17. janúar 2013. Eftirfarandi er úrdráttur úr fréttinni.

Enn er ekki komið á hreint hvenær Reitir fasteignafélag verður skráð á markað. Forstjóri félagsins, Guðjón Auðunsson, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann vonist til að það náist á fyrri hluta þessa árs." Við erum að ljúka nauðsynlegri endurskipulagningu á félaginu og ekki er hægt að fara í skráningarferlið fyrr en að henni lokinni. Við höfðum áður sagt að ætlunin væri að skrá Reiti á markað fyrir síðustu áramót en það gekk ekki eftir." Fram hafa komið efasemdir um að fyrirtækinu takist að skrá félagið á markað í ár, m.a. í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka í nóvember í fyrra. "Við verðum tilbúin þegar við erum tilbúin, en ég vonast til að okkur takist að skrá félagið á markað á fyrri hluta þessa árs," segir Guðjón.

Guðjón segir að ætlunin sé annars vegar að endurfjármagna skuldir félagsins þannig að skuldaskipulagið sé heilsteyptara og hins vegar að koma með nýtt hlutafé inn í Reiti. " Markmiðið er sem sagt að bæta enn frekar eiginfjárhlutfallið sem og að einfalda skuldastrúktúrinn. Þetta er hinsvegar flóknara en að segja það því Reitir eru stórt félag, með eignir upp á ríflega níutíu milljarða króna [Innskot Reita: Hér er ranglega haft eftir en eignasafnið var síðast verðmetið á tæplega 84 milljarða], og það er enginn einn lánveitandi sem getur tekið að sér þetta verk. Það þarf því að semja við marga aðila og það tekur tíma að fá þá alla að borðinu og ná saman við þá um samhæfða lána- og veðskilmála."

Hvað varðar stærð félagsins hefur Guðjón ekki áhyggjur af því að það sé of stórt fyrir íslenskan hlutabréfamarkað. "Stefnan hjá okkur er að halda félaginu saman. Það þýðir ekki að alls ekki komi til greina að selja einstakar eignir út úr Reitum, en það verður þá gert ef tilboðið er nógu gott. Ekki vegna þess að markmiðið sé að smækka efnahagsreikninginn."