Reitir greiða upp lán við erlendan lánveitanda

Reitir greiða upp lán við erlendan lánveitanda

Reitir fasteignafélag hf. hefur í dag greitt lokagreiðslu tveggja lána við erlendan lánveitanda sinn, Hypothekenbank Frankfurt AG, að fjárhæð um 85 milljónir evra, jafngildi um 13 milljarða króna. Uppgreiðsla lánanna er að stærstum hluta fjármögnuð með nýju langtímaláni frá Íslandsbanka að fjárhæð 11 milljarðar króna en samningar þess efnis voru undirritaðir í höfuðstöðvum bankans þann 20. október síðastliðinn. 

Fyrsta skref nýrrar heildarendurfjármögnunar Reita lokið

Uppgreiðsla erlendu lánanna er fyrsta skrefið í heildarendurfjármögnun Reita. Í júní 2013 var undirrituð viljayfirlýsing um kaup Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildis lífeyrissjóðs og Eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka á nýju hlutafé í Reitum að fjárhæð 12 milljarðar króna og nýjum verðtryggðum skuldabréfaflokki útgefnum af félaginu að fjárhæð 25 milljarðar króna. Á sama tíma var gert samkomulag við Íslandsbanka um allt að 14 milljarða lánveitingu til félagsins. Heildarfjármögnun Íslandsbanka gagnvart Reitum verður því um 25 milljarðar þegar endurfjármögnun félagsins er lokið. Um er að ræða hagstæðari kjör en eru á núverandi fjármögnun félagsins.

Stefnt er að því nú að heildarendurfjármögnun Reita verði lokið fyrir árslok 2014. Horft er til þess að skrá hlutafé félagsins á Nasdaq OMX á Íslandi fyrrihluta ársins 2015, ef framangreindar forsendur ganga eftir.

Framkvæmd framangreinds hefur beðið úrlausnar málefna Reita og erlenda bankans en uppgreiðsla lánanna sem greidd voru upp í dag varð heimil eftir að niðurstaða fékkst í viðræður við Seðlabanka Íslands og erlenda bankans vegna lánanna. Þær viðræður höfðu tekið langan tíma, en Seðlabankinn hóf í lok ársins 2012 rannsókn á því hvort viðaukar umræddra lánasamningana hefðu brotið gegn ákvæðum laga um gjaldeyrismál. Sátt náðist í málinu í júní 2013, síðan þá hefur verið unnið að úrlausn sáttarinnar með erlenda bankanum.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita:
„Við hjá Reitum erum afar ánægð með þá niðurstöðu sem fengin er í endurfjármögnun félagsins og hlökkum til samstarfsins við Íslandsbanka. Það er mikilvægt fyrir alla hlutaðeigandi aðila, hvort sem eru eigendur, viðskiptavinir, starfsfólk eða samkeppnisaðilar, að stærsta fasteignafélag landsins sé virkur þátttakandi á markaði með atvinnuhúsnæði. Rekstur Reita hefur gengið vel undanfarin ár og mikil reynsla og þekking er til staðar hjá félaginu hvað varðar daglega starfsemi þess. Félagið sjálft og innviðir þess, er því vel undirbúið undir skráningu. Stjórnarhættir hafa farið í gegnum gagngera endurskoðun og þeir aðlagaðir eftir þörfum að kröfum sem gerðar eru til skráðra félaga. Þá hafa allir helstu verkþættir verið skráðir og áhættugreiningar unnar.“

Vilhelm Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs Íslandsbanka:
„Við erum ánægð með að hafa fengið tækifæri til að styðja enn frekar við rekstur Reita með þessari nýju lánveitingu. Þetta er mikilvægt fyrsta skref í heildarendurfjármögnun félagsins sem lýkur vonandi fyrir áramót.“

Tómas Sigurðsson, Vilhelm Þorsteinsson, Guðjón Auðunsson, Birna EinarsdóttirMyndin er tekin við undirritun lánasamningsins við Íslandsbanka þann 20. október s.l. Frá vinstri: Tómas Sigurðsson, yfirlögfræðingur Íslandsbanka; Vilhelm Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Íslandsbanka; Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.