Mímir - símenntun í Höfðabakka 9

Mímir - símenntun í Höfðabakka 9
Mímir - símenntun og Reitir fasteignafélag hafa gert grænan leigusamning um húsnæði fyrir starfsemi skólans í Höfðabakka 9. Húsnæðið er um 1750 fermetrar og verður endurinnréttað til að uppfylla kröfur starfsfólks og nemenda um nútímalega, vistvæna og hagnýta vinnuaðstöðu. Framkvæmdir eru þegar hafnar og er gert ráð fyrir að þeim ljúki 1. ágúst.

Mímir - símenntun og Reitir fasteignafélag hafa gert grænan leigusamning um húsnæði fyrir starfsemi skólans í Höfðabakka 9. Húsnæðið er um 1750 fermetrar og verður endurinnréttað til að uppfylla kröfur starfsfólks og nemenda um nútímalega, vistvæna og hagnýta vinnuaðstöðu. Framkvæmdir eru þegar hafnar og er gert ráð fyrir að þeim ljúki 1. ágúst.

Mímir flytur starfsemi sína í Höfðabakka 9 í byrjun ágúst og byrja fyrstu námskeið þá þegar. Höfðabakki býður upp á spennandi tækifæri fyrir starfsfólk og nemendur og hentar starfseminni vel. Staðsetningin er góð, auðvelt að komast til og frá staðnum hjólandi, akandi eða með almenningssamgöngum.

Hulda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis: "Starf Mímis hentar vel þeim umhverfisvænu gildum  sem Reitir hafa sett fyrir Höfðabakka 9. Mímir er hluti af íslensku skólakerfi og fagnar því að fræðslustarfsemi skuli vera á ný í Höfðabakka. Hingað getur fullorðið fólk sótt fræðslu, náms-og starfsráðgjöf og raunfærnimat."

Mímir símenntun er fræðslufyrirtæki á sviði framhaldsfræðslu og starfsmenntunar. Meginmarkmið Mímis-símenntunar er að skapa tækifæri til náms fyrir fólk með stutta formlega skólagöngu og hvetja fólk á vinnumarkaði til símenntunar og starfsþróunar.  Annað meginmarkmið er að bjóða upp á fjölbreytta kennslu í íslensku sem öðru máli og almenn tungumálanámskeið. Skipulag námsins tekur mið að þörfum vinnandi fólks og atvinnulífsins hverju sinni.  Fyrirtækið hóf starfsemi sína í janúar 2003 og er í eigu Alþýðusambands Íslands.

Heildarstærð Höfðabakka 9 er um 25.000 fermetrar. Reitir hafa á undanförnum árum umbreytt svæðinu bæði hvað varðar útlit lóðarinnar og innviði en húsnæðið hefur verið endurnýjað í takt við vistvæn gildi. Fyrirtæki til húsa við Höfðabakka 9 eru m.a. Creditinfo, Sjúkráþjálfunin Styrkur, EFLA verkfræðistofa, Opin kerfi, ÍAV og Sálfræðingar Höfðabakka.