Leiðarljós í húsnæði frá Reitum

Suðurlandsbraut 24
Suðurlandsbraut 24

Reitir hafa gert samning við Leiðarljós, stuðningsmiðstöð fyrir fjölskyldur barna með sjaldgæfa og alvarlega langvinna sjúkdóma, um 300 fermetra rými á þriðju hæð að Suðurlandsbraut 24.

Samstarf Leiðarljóss og Reita er ekki nýtt en Reitir veittu samtökunum rausnarlegan stuðning árið 2012, í formi húsnæðis við Austurströnd á Seltjarnarnesi, í tenglsum við söfnunina Á allra vörum. Stuðningsmiðstöðin var þar um þonokkuð skeið en fékk síðan aðstöðu í húsnæði Rauða krossins.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita: „Það var mikil ánægja fyrir Reiti að geta stutt við samtökin á sínum tíma og hafa fengið tækifæri til að fylgjast með því góða starfi sem þar fer fram. Er það því sérlegt gleðiefni að stuðningsmiðstöðin skyldi hafa fengið fastara land undir fót og hafi nú bæst í hóp viðskiptavina Reita.“

Stuðningsmiðstöðin verður rekin í húsnæðinu að Suðurlandsbraut 24 ásamt Fjölskyldumiðstöð Rauða kross á Íslandi. Starf Fjölskyldumiðstöðvar Rauða krossins miðar að því að aðstoða og styðja barnafjölskyldur í vanda. 

Leiðarljós
Á Íslandi eru í kringum 75 börn með alvarlega og sjaldgæfa sjúkdóma sem þurfa umönnnun allan sólarhringinn auk mjög sérhæfðrar heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu.  Verkefni stuðningsmiðstöðvarinnar felst í því að veita foreldrum og aðstandendum barnanna stuðning við umönnun og hjúkrun. Auk þess að veita upplýsingar og ráðgjöf um þjónustu sem hægt er að fá.

Reitir fasteignafélag
Reitir er þjónustufyrirtæki á sviði útleigu atvinnuhúsnæðis. Reitir hafa yfir að ráða fjölbreyttu fasteignasafni sem samanstendur af um 130 fasteignum. Fjölbreytt úrval fasteigna gerir Reitum kleift að bjóða upp á margar lausnir fyrir viðskiptavini hvað varðar staðsetningu, tegund húsnæðis og stærð. Innan fasteignasafns Reita má finna verslunarhúsnæði í helstu verslunarmiðstöðvum landsins, fjölbreytt skrifstofuhúsnæði og margskonar lager- og iðnaðarhúsnæði. Meðal þekktra fasteigna má nefna Kringluna, Hótel Hilton, Kauphallarhúsið, Holtagarða og nokkrar af perlum íslenskrar byggingarsögu í miðbæ Reykjavíkur.