Landspítalinn og Reitir undirrituðu í dag, 25. október 2018, langtímaleigusamning um skrifstofuhúsnæði að Skaftahlíð 24. Um er að ræða tvær byggingar sem hýstu áður 365 miðla og eru samtals um fimm þúsund fermetrar að stærð. Framkvæmdir sem miða að því að aðlaga húsnæðið að þörfum skrifstofa Landspítala hefjast strax Samhliða þessu var undirritaður nýr leigusamningur um núverandi húsnæði aðalskrifstofu Landspítala við Eiríksgötu 5, en því húsnæði verður breytt í göngudeild.
Byggingarnar við Skaftahlíð 24 hafa báðar hýst 365 miðla á undanförnum árum. Syðra húsið sem snýr að Miklubraut er þó líklega þekktast fyrir starfsemi Tónabæjar sem var þar á árunum 1968 til 2000. En byggingin sem stendur norðar á lóðinni hýsti lengi skrifstofur IBM á Íslandi (nú Origo).
Húsið við Eiríksgötu 5, Eiríksstaðir, var reist af Stórstúku Íslands á árunum 1964-1968. Húsið var kallað Templarahöllin, þar voru haldin vinsæl böll og bingó. Árið 1999 var húsinu breytt og það stækkað. Húsið hefur hýst starfsemi á vegum Landspítala til margra ára.
Reitir fasteignafélag er stærsta þjónustufyrirtæki landsins á sviði útleigu á atvinnuhúsnæði. Starfsemin felst í eignarhaldi og útleigu atvinnuhúsnæðis sem er að stærstum hluta verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir félagsins eru um 140 talsins, um 465 þúsund fermetrar að stærð. Meðal fasteigna má nefna stærstan hluta verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar, Spöngina, Hótel Borg, Hilton og skrifstofubyggingar í Höfðabakka 9 ásamt húsnæði höfuðstöðva Sjóvár, Origo og Advania. Stærstu leigutakar Reita eru Hagar, Flugleiðahótel, ríki og sveitarfélög. Reitir fögnuðu 30 ára starfsemi á árinu 2017.
Skiptiborð Reita er opið milli 9:00 og 16:00. Í gegnum skiptiborð er hægt að fá samband við ÍAV þjónustu allan sólarhringinn, hún getur útvegað iðnaðarmenn til skyndilegra viðbragða við neyðartilfellum.
Reitir fasteignafélag hf.
Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík
Kt. 711208-0700
Sími +354 575 9000
Almennt: reitir(hjá)reitir.is
Reikningar: bokhald(hjá)reitir.is