Góð afkoma Reita á fyrri árshelmingi 2014

Góð afkoma Reita á fyrri árshelmingi 2014

Afkoma Reita fasteignafélags á fyrri árshelmingi 2014 er góð og í takti við áætlanir félagsins. Leigutekjur félagsins fyrstu sex mánuði ársins námu 4.173 millj. kr. samanborið við 4.023 millj. kr. á sama tímabili árið 2013. Nýtingarhlutfall eigna félagsins batnar nokkuð milli ára og var 95,9% á fyrri árshelmingi samanborið við 95,1% á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og matsbreytingu fjárfestingareigna nam 3.044 millj. kr. samanborið við 2.948 millj. kr. árið áður. Hrein fjármagnsgjöld tímabilsins námu 2.221 millj. kr. samanborið við 2.448 millj. kr. á sama tímabili 2013. Matsbreyting fjárfestingareigna var jákvæð um 1.311 millj. kr. og er í takti við þróun á atvinnuhúsnæðismarkaði sem og verðlag. 

Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 1.672 millj. kr. samanborið við hagnað að fjárhæð 2.222 millj. kr. fyrir sama tímabil árið áður.

Í lok júní 2013 námu heildareignir félagsins 104.051 millj. kr. samanborið við 101.124 millj. kr. um áramót. Eigið fé félagsins nam 22.290 millj. kr. í lok tímabilsins og vaxtaberandi skuldir 74.961 millj. kr. Sjóðsstaða félagsins er sterk en handbært og veðsett fé nam 3.471 millj. kr. í lok árshelmingsins.

Árshlutareikningur Reita var staðfestur af stjórn félagsins og forstjóra þann 29. ágúst 2014. Árshlutareikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS).

Lykiltölur úr árshlutareikningi fyrri árshelmings

Tekjur  4.173 millj. kr.
Rekstrarhagnaður                                           3.044 millj. kr
Matsbreyting fjárfestingareigna 1.311 millj. kr.
Hagnaður eftir skatta 1.672 millj. kr.
Virði fjárfestingareigna  99.639 millj. kr.
Eigið fé 22.290 millj. kr.
Eiginfjárhlutfall 21,4%

 

Endurfjármögnun og skráning í kauphöll

Félagið hefur undirritað viðauka við lánasamninga við erlendan lánveitanda en með þeim hafa skilyrði sáttar við Seðlabanka Íslands verið uppfyllt. Unnið er að því að aflétta fyrirvörum fyrir gildistöku samninganna og er búist við að það gerist á næstu vikum. Samhliða er unnið að endurfjármögnun þeirri sem félagið hefur áður tilkynnt um sem fela í sér nær algjöra endurfjármögnun á skuldum félagsins og útgáfu á 17.000 millj. kr af nýju hlutafé. Búist er við að endurfjármögnun ljúki síðar á árinu og félagið vinni í framhaldi að því að skráningu hlutabréfa sinna í Kauphöll Íslands.

Nánari upplýsingar veita Guðjón Auðunsson forstjóri í síma 575 9000 eða 660 3320 (gudjon@reitir.is) og Einar Þorsteinsson fjármálastjóri í síma 575 9000 eða 669 4416 (einar@reitir.is).