Forhönnun Miklubrautar í stokk kynnt

Á málþingi Reykjavíkurborgar, Léttum á umferðinni, sem haldið var í Ráðhúsinu í morgun, kynnti Samúel T. Pétursson hjá VSÓ ráðgjöf, frumdrög og forhönnun á Miklubraut í stokk með borgarlínu á yfirborði. Verkefnið er hluti af skipulagsvinnu í tengslum við Kringlusvæðið sem Reitir vinna að í samvinnu við Reykjavíkurborg.
Forhönnun Miklubrautar í stokk kynnt

Samfélagslegur ávinningur af Miklubraut í stokk yrði margvíslegur. Til dæmis yrði umferðaröryggi bætt verulega auk þess sem tíma- og eldsneytissparnaður yrði mikill. Aðgengi gangandi, hjólandi og notenda almenningssamgangna yrði bætt verulega á yfirborðinu sem fengi á sig vistvænna yfirbragð. Flutningur meginumferðarinnar á Miklubraut neðanjarðar greiðir úr og bætir flæði umferðar sem myndi gerbreyta gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar sem eru umferðarmestu gatnamót höfuðborgarsvæðisins.

Hugmyndir um Miklabraut í stokk hafa ekki áður fengið jafn mikla rýni og skoðun og hér hefur verið ráðist í. Í greiningu VSÓ er farið yfir hönnunarforsendur mannvirkisins, öryggiskröfur, vegferil,  umferð á verktíma ásamt forhönnun gatna á yfirborði. Þá er einnig fjallað um helstu áskoranir og kostnað.

Horft norður eftir Kringlumýrarbraut
Horft norður eftir Kringlumýrarbraut, gert er ráð fyrir Borgarlínustöð til móts við Hamrahlíð með greiðu aðgengi fólks að Kringlusvæðinu og að íbúðabyggð í Hlíðunum. 

Horft austur eftir Miklubraut
Horft austur eftir Miklubraut.

Nánar

>> Kynning Samúels Torfa Péturssonar, skipulagsverkfræðings hjá VSÓ ráðgjöf, á frumhönnun Miklubrautar í stokk á Málþingi Reykjavíkurborgar, Léttum á umferðinni, þann 29. mars 2019

>> Upptaka frá málþinginu ásamt kynningum allra fyrirlesara (á vef Reykjavíkurborgar)