Bókasafn opnar í Spönginni

Bókasafn opnar í Spönginni

Í gær, laugardaginn 6. desember, opnaði nýtt útibú Borgarbókasafns í Spönginni í Grafarvogi. Bókasafnið hafði áður aðsetur í um 700 fermetra rými í kjallara Grafarvogskirkju en nýja safnið er 1300 fermetrar. Aðgengi að bókasafninu í Spönginni er mjög gott, þar eru næg bílastæði og strætisvagnar 6, 18, 24 og 26 stoppa allir við Spöngina þar sem finna má fjölda verslana veitingastaða, þjónustuaðila auk heilsugæslu, félagsmiðstöð og Borgarholtsskóla.

Góð aðstaða er í nýja safninu fyrir börn og unglinga og nægt rými til að setjast niður  í ró og næði, glugga í bækur og tímarit eða læra.  Á nýju ári verður boðið upp á fjölbreytta menningarstarfsemi fyrir alla aldurshópa og má þar nefna leshringi fyrir börn og fullorðna, prjónakaffi, fjölskyldustundir fyrir foreldra með lítil börn, föndursmiðjur, fræðsluerindi, stuttmyndadaga og ýmis konar listsýningar.

Bókasafnið var opnað við hátíðlega athöfn þar sem Stúlknakór Reykjavíkur í Grafarvogskirkju söng jólalög undir stjórn Margrétar Pálmadóttur, Einar Már Guðmundsson, skáld og Grafarvogsbúi, flutti hugvekju auk þess sem Sirkus Íslands lék listir sínar. Við opnunina opnaði einnig sýningin Frystikista í fjörunni með verkum eftir Gunnhildi Þórðardóttur.

Reitir bjóða Borgarbókasafnið velkomið til starfa í Spönginni.

Borgarbókasfn Spönginni

Borgarbókasfn Spönginni

Borgarbókasfn Spönginni

Myndirnar tók Baldvin Berndsen.