
Í dag, 9. apríl, hófust viðskipti með hlutabréf Reita á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Skráning Reita er fyrsta skráningin á Aðalmarkað Nasdaq Iceland á þessu ári.
Skráning Reita á Aðalmarkað Nasdaq Iceland veitir fjárfestum áhugavert fjárfestingartækifæri í stærsta fasteignafélagi landsins, sagði Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita. Efnahagsreikningur félagsins er sterkur og við njótum góðra kjara á lánsfjármögnun. Auk þess höfum við skýra arðgreiðslustefnu. Við bjóðum nýja hluthafa velkomna og hlökkum til að vinna með þeim sem og nýjum fjárfestum í framtíðinni.
Við bjóðum Reiti hjartanlega velkomna á Aðalmarkaðinn, sagði Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. Skráning Reita er góður áfangi í uppbyggingu hlutabréfamarkaðarins og styrkir til muna fasteignageirann á honum. Við óskum Reitum, starfsfólki félagsins og hluthöfum farsældar á markaði.
Reitir fasteignafélag er stærsta þjónustufyrirtæki landsins á sviði útleigu á atvinnuhúsnæði. Félagið leggur áherslu á skrifstofuhúsnæði, verslunarhúsnæði og hótelbyggingar á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir í eigu félagsins eru um 130 talsins og nálægt 410 þúsund fermetrum að stærð. Meðal fasteigna Reita má nefna stærstan hluta Kringlunnar, Hilton Reykjavík Nordica, Icelandair hótel Reykjavík Natura, Kauphallarhúsið og nokkrar af perlum íslenskrar byggingarsögu í miðbæ Reykjavíkur. Stærstu leigutakar Reita eru Hagar, Flugleiðahótel, ríki og sveitarfélög samtals með tæpan helming tekna félagsins.
Skiptiborð Reita er opið milli 9:00 og 16:00. Í gegnum skiptiborð er hægt að fá samband við ÍAV þjónustu allan sólarhringinn, hún getur útvegað iðnaðarmenn til skyndilegra viðbragða við neyðartilfellum.