Sótt um Svansvottun vegna húsnæðis Umhverfisstofnunar

Reitir hafa sótt um Svansvottun vegna endurnýjunar á húsnæði Umhverfisstofnunar á Suðurlandsbraut. Reitir eru fyrsta fyrirtækið á Norðurlöndunum til að sækja um Svansvottun fyrir endurbætur á húsnæði.
Sótt um Svansvottun vegna húsnæðis Umhverfisstofnunar

 

Reitir hafa gert nýjan leigusamning við Umhverfisstofnun um skrifstofuhúsnæði við Suðurlandsbraut. Húsnæði stofnunarinnar verður endurnýjað með gagngerum hætti á næstu misserum. Reitir sem er eigandi hússins, og Umhverfisstofnun ætla að vinna allar endurbætur í samræmi við Svaninn og hafa sótt um slíka vottun á endurbæturnar.  Að verkinu koma einnig THG Arkitektar og Finnur Sveinsson, sem ráðgjafi.  

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna, kröfur Svansins tryggja að Svansmerkt vara sé betri fyrir umhverfið og heilsuna, meðal annars með því að uppfylla strangar kröfur um efnainnihald og lágmörkun á notkun hættulegra efna við þjónustu og framleiðslu vöru. Skoðaðir eru allir þættir lífsferils vörunnar þar sem efnainnihald og umhverfisáhrif hvers þáttar er metið.

 

Umhverfisstofnun, sem hefur verið starfrækt í húsnæði Reita að Suðurlandsbraut 24 síðan 2002, hefur m.a. þau hlutverk að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum auk verndunar og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Stofnunin er þegar með ISO 14001 vottun fyrir umhverfisstjórnunarkerfi og vinnur að innleiðingu Grænna skrefa í ríkisrekstri. Reitir og Umhverfisstofnun gerðu með sér grænan leigusamning í febrúar 2015.