Reitir kaupa hótel Ísland

Hótel Ísland Ármúla 9
Hótel Ísland Ármúla 9

Undirritaður hefur verið kaupsamningur milli Reita og EVA Consortium um kaup á Hótel Íslandi ehf. sem á fasteignina að Ármúla 9 í Reykjavík. Um er að ræða rúmlega 9.300 fermetra hótelbyggingu sem mun hýsa hefðbundið ferðamannahótel, sjúkrahótel og heilsutengda starfsemi. Umfangsmiklar framkvæmdir standa yfir í hluta húsnæðisins og eru verklok áætluð í júní 2015.

Áætluð heildarfjárfesting er 3.680 m.kr. og samanstendur af kaupverði einkahlutafélagsins og yfirtöku á framkvæmdakostnaði vegna yfirstandandi framkvæmda, en hluti fjárfestingarinnar fellur til á næstu 5 árum.Afhending er áformuð á fyrri hluta árs 2015 og mun húsnæðið vera í fullri útleigu frá afhendingardegi. Fjallað er um viðskiptin í Fjárfestakynningu og útgefendalýsingu vegna útboðs í aðdraganda skráningar Reita.

Guðjón Auðunsson, forstjóri: „Kaupin á Hótel Íslandi er áhugaverð fjárfesting fyrir Reiti en um er að ræða hótel sem hefur þá sérstöðu að þar er hefðbundið hótel fyrir ferðamenn en einnig sjúkra- og heilsuhótel með fyrsta flokks lækningamiðstöð í þeim hluta húsnæðisins sem áður hýsti skemmtistaðinn Broadway. Starfsemi leigutakans fer því fram á tveimur ört stækkandi mörkuðum, í ferðaþjónustu annars vegar og heilsutengdri starfsemi hins vegar“.