Reitir kaupa 15 ha. atvinnusvæði í landi Blikastaða

Kauptilboð Reita í um 15. ha. byggingaland fyrir atvinnuhúsnæði í landi Blikasataða hefur verið samþykkt. Áætlað er að byggingarmagn á svæðinu verði um 75 – 110 þúsund fm., en um langtímaverkefni er að ræða þar sem gert er ráð fyrir að svæðið verði fullbyggt á næstu 8-12 árum. Deiliskipulag liggur ekki fyrir.
Reitir kaupa 15 ha. atvinnusvæði í landi Blikastaða

Atvinnusvæðið úr landi Blikastaða liggur við Vesturlandsveg á sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Samþykkt hefur verið kauptilboð Reita í atvinnusvæði úr landi Blikastaða. Seljendur eru Íslandsbanki (LT lóðir ehf.) og Arion banki.

  • Áætlað byggingarmagn er um 75-110 þúsund fm.
  • Gert er ráð fyrir að svæðið verði fullbyggt á næstu 8-12 árum
  • Skortur er á atvinnuhúsnæði og lóðum fyrir atvinnuhúsnæði
  • Kaupverð er 850 milljónir kr.

 

Guðjón Auðunsson, forstjóri:

„Kaupin skapa tækifæri til frekari fjárfestinga fyrir Reiti og opna á tækifæri til að bjóða upp á fleiri valkosti til að uppfylla húsnæðisþarfir núverandi og nýrra viðskiptavina en áður hefur verið. Um er að ræða langtímaverkefni, en gert er ráð fyrir að svæðið allt verði fullbyggt á 8-12 árum. Ljóst er að heildarfjárfesting Reita á svæðinu verður veruleg á þessu tímabili en hugsanlega verður hluti landsins seldur til byggingaraðila og/eða beint til fyrirtækja“.

Lausn á fyrirséðum skorti á lóðum fyrir atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu

Stjórnendur Reita sjá fram á skort á lóðum fyrir atvinnuhúsnæði og líta til atvinnusvæðisins í landi Blikastaða sem hluta framtíðarlausnar í þeim efnum. Aukin eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði miðsvæðis virðist kalla á að léttur iðnaður og rýmisfrekur rekstur sem þar hefur verið færist utar í borgina. Í landi Blikastaða eru tækifæri til þróunar atvinnuhúsnæðis fyrir fjölbreytt fyrirtæki.

Byggingarsvæði sem nýtur greiðrar aðkomu og mikils sýnileika

Atvinnusvæðið í landi Blikastaða liggur við sveitarfélagamörk Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar.  Gert er ráð fyrir að hin nýja Borgarlína liggi við Vesturlandsveginn. Svæðið afmarkast af Vesturlandsvegi, bæjarmörkum Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, ánni Korpu og framtíðarlegu Korpúlfsstaðavegar. Svæðið hefur verið skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði / athafnasvæði í aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Í greinargerð aðalskipulagsins kemur fram að á athafnasvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir atvinnustarfsemi sem ekki hefur neikvæð eða truflandi áhrif á umhverfi sitt, s.s. léttum iðnaði, vörugeymslum, hreinlegum verkstæðum og fyrirferðarmikilli verslunarstarfsemi. Deiliskipulag liggur ekki fyrir.

Land Blikastaða er á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar

Afhending í árslok

Afhendingardagur verður sex mánuðum eftir gerð kaupsamnings sem skal ganga frá eigi síðar en þann 1. júlí nk. Kauptilboðið er með fyrirvara um að kaupandi sætti sig við endanlega afmörkun hins keypta lands og að seljendur gangi formlega frá öllum gögnum sem þarf til að eignayfirfærsla geti átt sér stað.

Um Reiti fasteignafélag

Reitir fasteignafélag hf. er íslenskt hlutafélag. Samstæða félagsins samanstendur af móðurfélaginu, Reitum fasteignafélagi hf., ásamt dótturfélögum sem öll eru 100% í eigu móðurfélagsins. Starfsemi félagsins er eignarhald, útleiga og umsýsla atvinnuhúsnæðis sem er að stærstum hluta verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir í eigu félagsins eru um 140 talsins og um 440 þúsund fermetrar að stærð. Meðal fasteigna félagsins má nefna stærstan hluta verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar, Spöngina og Holtagarða, Hótel Borg, Hilton og Natura og skrifstofubyggingar í Höfðabakka 9 ásamt húsnæði höfuðstöðva Sjóvár, Nýherja og Advania. Stærstu leigutakar Reita eru Hagar, Flugleiðahótel, ríki og sveitarfélög.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Auðunsson í síma 660 3320.