
Á komandi vetri munu Íslenskir aðalverktakar flytja í nýtt húsnæði að Höfðabakka 9. Nýja húsnæðið er tæplega 1.700 fermetrar, það er í norðurhluta lágbyggingarinnar á svæði sem hýsir nú meðal annarra EFLU verkfræðistofu.
Íslenskir aðalverktakar hafa haft skrifstofur sínar í bogabyggingunni við Höfðabakka um árabil. Með flutningunum munu ÍAV fá mun betri aðstöðu fyrir sína starfsemi.
Byggingarnar við Höfðabakka voru byggðar fyrir Íslenska aðalverktaka á árunum 1969 til 1980 eftir teikningum feðganna Halldórs Jónssonar og Garðars Halldórssonar. Bogabyggingin hýsti upphaflega skrifstofur ÍAV auk fleiri fyrirtækja og lágbyggingin ýmiskonar iðnað. Þar voru m.a. Marel til húsa á sínum fyrstu árum og Tækniháskólinn var þar einnig um árabil, eða þar til hann sameinaðist Háskólanum í Reykjavík. Húsin og umhverfi þeirra hefur verið endurnýjað mikið á undanförnum árum. Lóðin hefur verið fegruð með gróðri og vistvænum ofanvatnslausnum. Sá hluti hússins sem ÍAV flytur í var endurnýjaður fyrir nokkrum árum í samræmi við BREEAM umhverfisvottunarstaðalinn.
Reitir hlakka til að bjóða ÍAV velkomna til starfa á nýjum stað í Höfðabakka 9.
Skiptiborð Reita er opið milli 9:00 og 16:00. Í gegnum skiptiborð er hægt að fá samband við ÍAV þjónustu allan sólarhringinn, hún getur útvegað iðnaðarmenn til skyndilegra viðbragða við neyðartilfellum.