Ársreikningur Reita 2013

Ársreikningur Reita 2013
Rekstrarhagnaður Reita var 5.869 milljónir árið 2013. Rekstrarafkoma Reita fasteignafélags hf. árið 2013 fyrir fjármagnsliði og matsbreytingu fjárfestingareigna var í takti við áætlanir. Nýting fasteigna félagsins, mæld sem hlutfall tekna, var um 96% í árslok 2013.

Rekstrarhagnaður Reita var 5.869 milljónir árið 2013. Rekstrarafkoma Reita fasteignafélags hf. árið 2013 fyrir fjármagnsliði og matsbreytingu fjárfestingareigna var í takti við áætlanir. Nýting fasteigna félagsins, mæld sem hlutfall tekna, var um 96% í árslok 2013.

Rekstrartekjur félagsins árið 2013 námu 8.168 millj. kr. samanborið við 7.887 millj. kr. árið 2012. Rekstrarhagnaður af reglulegri starfsemi (NOI) var 5.869 millj. kr. árið 2013 samanborið við 5.693 millj.kr. árið 2012. Fjármagnsgjöld námu 4.914 millj. kr. samanborið við 7.161 millj. kr. árið 2012. Eignasafn félagsins var endurmetið samkvæmt alþjóðlegum reiknings­skila­stöðlum og nemur matshækkun ársins 2013 8.696 millj. kr. samanborið við matslækkun að fjárhæð 5.904 millj. kr. árið 2012. Rekstrarhagnaður ársins 2013 eftir skatta nam 7.670 millj. kr. á móti tapi að fjárhæð 6.553 millj.kr. árið áður.

Lykiltölur úr rekstri 2013

  • Tekjur félagsins námu 8.168 millj.kr.
  • Rekstrarhagnaður (NOI) ársins var 5.869 millj.kr.
  • Hagnaður eftir skatta var 7.670 millj.kr.
  • Virði fjárfestingareigna var 97.710 millj.kr.
  • Eigið fé í árslok var 20.618 millj.kr.
  • Eiginfjárhlutfall var 20,4%.

Ársreikningur Reita var staðfestur af stjórn félagsins og forstjóra 11. apríl 2014. Árs­reikningur­inn er unninn samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS).

Áherslur 2014

Í rekstraráætlun ársins 2014 er gert ráð fyrir bættri rekstrarafkomu frá árinu 2013. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (NOI) er áætlaður rúmlega 6 milljarðar kr. og sjóðstreymi áætlað jákvætt. Forsenda áætlana er jákvæð þróun efnahags- og atvinnumála, stöðugleiki á vinnumarkaði og að gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum veikist ekki verulega.

Á árinu 2013 var unnið að undirbúningi skráningar hlutabréfa Reita í kauphöll. Stefnt var að skráningu á árinu, en þau áform gengu ekki eftir. Ástæðan er sú að ekki fékkst niðurstaða í viðræður við Seðlabanka Íslands og Hypothekenbank Frankfurt vegna lánaskuldbindinga félagsins erlendis. Seðlabankinn telur viðauka við lánasamninga við Hypothekenbank, sem gerðir voru 2009 án þess að leita fyrst eftir undanþágu bankans, kunna að hafa farið gegn ákvæðum laga um gjaldeyrismál. Málið hefur verið í rannsókn síðan í desember 2012. Vonir standa til þess að úr greiðist innan tíðar, en skjalfest efnislegt samkomulag með Reitum, Hypothekenbank og Seðlabankanum um inntak sáttar til lausnar á málinu hefur legið fyrir frá því í janúar.

Í júní 2013 var undirrituð viljayfirlýsing um kaup Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildis og Eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka um kaup á nýju hlutafé í Reitum að fjárhæð 12 milljarðar kr. og nýjum verðtryggðum skuldabréfaflokki að fjárhæð 25 milljarðar kr., útgefnum af félaginu. Á sama tíma var tekin ákvörðun um sölu á 5 milljörðum kr. af nýju hlutafé til núverandi eigenda. Jafnframt var gert samkomulag við Íslandsbanka um allt að 14 milljarða kr. lánveitingu til félagsins á umtalsvert hagstæðari kjörum en fást með núverandi fjármögnun.  Endurfjármögnunin er bundin þeirri forsendu að fyrrgreind sátt vegna skilmálabreytingar erlendra lána náist.

Stefnt er að því að skrá hlutafé félagsins á Nasdaq OMX á Íslandi seinni hluta ársins 2014. Félagið sjálft, ásamt innviðum þess, er fullbúið fyrir skráningu. Stjórnarhættir hafa verið endurskoðaðir og aðlagaðir að kröfum sem gerðar eru til skráðra félaga. Þá hafa allir helstu verkferlar verið skráðir og áhættugreining unnin.

Nánari upplýsingar veita Guðjón Auðunsson, forstjóri, í síma 575 9000 eða 660 3320 og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, í síma 575 9000 eða 669 4416.