
Reitir vænta þess að viðskipti með hlutabréf félagsins geti hafist á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland 9. apríl
Arion banki býður 13,25% hlut í almennu útboði
Stærð útboðsins nemur að lágmarki 5,5 milljörðum króna miðað við lágmarksgengi 55,5 krónur á hlut
Stjórn Reita fasteignafélags hf. hefur ákveðið að óska eftir því við Nasdaq Iceland að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði. Samhliða verður óskað eftir því að tekinn verði til viðskipta skuldabréfaflokkur sem félagið gaf út í desember síðastliðnum og seldi til fagfjárfesta. Reitir vænta þess að viðskipti geti hafist 9. apríl næstkomandi en áður en að því kemur mun fara fram almennt útboð á hlutabréfum í félaginu dagana 25.-27. mars þar sem Arion banki hf. býður til sölu 13,25% eignarhlut í félaginu. Miðað við lágmarksverð útboðsins nemur heildarstærð þess 5.550 milljónum króna og svarar það til tæplega 42 milljarða króna markaðsvirðis alls hlutafjár í Reitum. Fyrirtækjaráðgjöf fjárfestingabankasviðs Arion banka hefur umsjón með útboðinu og því ferli að fá bréf félagsins tekin til viðskipta.
Áskriftarleiðir og verðlagning í útboðinu
Tvær tilboðsbækur verða í boði fyrir fjárfesta og nemur samanlögð stærð þeirra 100.000.000 hlutum. Í tilboðsbók A verður fjárfestum boðið að skrá sig fyrir kaupum að andvirði á bilinu frá 100 þúsund krónum og upp í 10 milljónir króna. Þar verður tekið við áskriftum á verðbilinu 55,563,5 krónur á hlut en eitt endanlegt útboðsgengi í tilboðsbók A verður ákvarðað af seljanda í lok útboðs. Í tilboðsbók B verður tekið við áskriftum að andvirði yfir 10 milljónir króna. Þar verður lágmarksverð 55,5 krónur á hlut og ekkert hámarksverð tilgreint af seljanda en eitt endanlegt útboðsgengi í tilboðsbók B verður ákvarðað af seljanda í lok útboðs sem verður jafnt eða hærra útboðsgengi A.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita: Skráning Reita mun marka stór tímamót fyrir félagið og hluthafa þess sem í dag eru ríflega 200 talsins. Félagið sómir sér vel meðal fyrirtækja í kauphöll enda fjárhagslega sterkt og með traustan rekstur. Það verður einnig ánægjulegt að sjá nýjan 25 milljarða skuldabréfaflokk félagsins í kauphöll.
Kynning á félaginu
Reitir hafa birt nýja kynningu á starfsemi sinni og fyrirhuguðu útboði sem aðgengileg er á vef félagsins, reitir.is/fjarfestar. Innan skamms verða á sama stað birtar lýsingar hlutabréfa og skuldabréfa, þar sem nálgast má helstu upplýsingar um félagið og hlutabréf þess, útboðið og skuldabréfin.
Reitir sérhæfa sig í þjónustu og rekstri atvinnuhúsnæðis með áherslu á verslunarhúsnæði, skrifstofuhúsnæði og hótelbyggingar á höfuðborgarsvæðinu. Heildareignir Reita í árslok 2014 námu 102 milljörðum króna. Fasteignir í eigu félagsins eru um 130 talsins og nálægt 410 þúsund fermetrum að stærð. Meðal fasteigna Reita má nefna stærstan hluta Kringlunnar, Hilton Reykjavík Nordica, Icelandair hótel Reykjavík Natura, Kauphallarhúsið og nokkrar af perlum íslenskrar byggingarsögu í miðbæ Reykjavíkur. Stærstu leigutakar Reita eru Hagar, Flugleiðahótel, ríki og sveitarfélög samtals með tæpan helming tekna félagsins.
>>Fjárfestakynning vegna útboðs í aðdraganda skráningar
Nánari upplýsingar veita
Skiptiborð Reita er opið milli 9:00 og 16:00. Í gegnum skiptiborð er hægt að fá samband við ÍAV þjónustu allan sólarhringinn, hún getur útvegað iðnaðarmenn til skyndilegra viðbragða við neyðartilfellum.
Reitir fasteignafélag hf.
Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík
Kt. 711208-0700
Sími +354 575 9000
Almennt: reitir(hjá)reitir.is
Reikningar: bokhald(hjá)reitir.is