Sjúkraþjálfun Íslands opnar starfsstöð í Kringlunni

Sjúkraþjálfun Íslands opnar starfsstöð í Kringlunni

Sjúkraþjálfun Íslands opnar nýja starfsstöð í Kringlunni næsta haust eftir sextán ára starfsemi í Orkuhúsinu og verður því með starfsemi á þremur stöðum, í Orkuhúsinu, Spörtu og Kringlunni. Sjúkraþjálfunin hefur gert langtíma leigusaming við Reiti um húsnæði á þriðju hæð í norðurenda Kringlunnar, fyrir ofan H&M og Hagkaup.

Hæðin verður algjörlega endurnýjuð og fær sjúkraþjálfunin klæðskerasniðið rými undir sína starfsemi. Í rýminu verða rúmgóð meðferðarherbergi, bjartur æfingasalur með stórum þakglugga og sérhæfðri verslun með göngugreiningu og góðu framboði af skóm, hlífum og öðrum búnaði. Hægt er að komast að starfsstöðinni um tvo innganga. Annars vegar í gegnum Kringluna og hins vegar um vesturinngang hússins þar sem aðgengi verður bætt með nýrri lyftu.

Sjúkraþjálfarar með fjölbreytta sérhæfingu á sviði endurhæfingar og þjálfunar

Hjá Sjúkraþjálfun Íslands starfa nú um 27 sjúkraþjálfarar sem sinna allri hefðbundinni sjúkraþjálfun en hafa þó sérhæft sig m.a. í stoðkerfisvandamálum, íþróttameiðslum, sogæðameðferð og endurhæfingu eftir hnjá- og axlaraðgerðir. Sjúkraþjálfararnir eru í góðum tengslum við íslenska íþróttahreyfingu og starfa með mörgum félagsliðum og landsliðum Íslands.

Mikilvæg viðbót við fjölbreytta flóru verslunar og þjónustu á Kringlusvæðinu

„Við sjáum Kringluna og Kringlusvæðið eflast sem fjölbreyttur lifandi borgarkjarni á næstu árum. Heilsueflandi starfsemi spilar þar mikilvægt hlutverk, bæði sem þjónusta sem eftirspurn er eftir og sem kjarngóð atvinnustarfsemi inn á svæðið. Við lítum á opnun Sjúkraþjálfunar Íslands í Kringluna sem staðfestingu á því hversu líflegt og spennandi samfélag Kringlan er fyrir ýmsa atvinnustarfsemi.“ segir Sigurjón Örn Þórsson framkvæmdastjóri Kringlunnar.

Aukin þjónusta við viðskiptavini.

Við teljum þetta stórt skref í að bjóða viðskiptavinum okkar og Orkuhússins upp á enn betri þjónustu en verið hefur. Nú verðum við með starfstöðvar á þremur stöðum og með staðsetningu Kringlunnar á höfuðborgarsvæðinu, nægum bílastæðum, sérsniðnu húsnæði með stærri æfingarsal og þjónustunnar sem í boði er á Kringlusvæðinu teljum við okkur geta mætt betur þörfum viðskiptvina okkar.” segir Ólafur Þór Guðbjörnsson framkvæmdastjóri Sjúkraþjálfunar Íslands.

Á myndinni eru Ólafur Guðbjörnsson, sjúkraþjálfari MTc og framkvæmdastjóri Sjúkraþjálfunar Íslands og Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita. 

Reitir bjóða Sjúkraþjálfun Íslands velkomna til starfa í Kringlunni.