Skipulag Orkureitsins verður BREEAM vottað

Skipulag Orkureitsins verður að líkindum fyrsta umhverfisvottaða skipulagið í Reykjavík
Skipulag Orkureitsins verður BREEAM vottað

Reitir hafa ákveðið að láta umhverfisvotta skipulag Orkureitsins samkvæmt BREEAM Communities vottunarkerfinu og hafa þegar verið tekin skref í undirbúningi þess.

BREEAM Communities vottun skipulagsins felur í sér að hugað er að sjálfbærum áherslum í skipulagsvinnunni strax í byrjun með það fyrir augum að lágmarka neikvæð áhrif byggðar á umhverfið. Þannig verði horft til fleiri þátta en alla jafnan er krafist við deiliskipulagsgerð. Um væri að ræða fyrsta umhverfisvottaða skipulagið í Reykjavík en aðeins eitt skipulagsverkefni hefur hlotið slíka vottun á Íslandi til þessa eða Urriðaholt í Garðabæ.

Það er trú Reita að með kerfisbundinni aðferðarfræði og verklagi eins og BREEAM kerfið boðar, sé tryggt að unnið verði faglega með þær áskoranir sem tengjast umræddu verkefni, m.a. hvað varðar verndun bygginga, niðurrif húsa, röskun á gróðri, blágrænar ofanvatnslausnir auk annarra þátta. Þá verður með vottuðu skipulagi einfaldara að votta byggingarnar sjálfar síðar þegar og ef ákvörðun verður tekin um slíkt.

Með BREEAM Communities vottun að leiðarljósi vilja Reitir sýna í verki metnað sinn fyrir verkefninu og góðum skipulagsvenjum. Vonir standa til að slíkar áherslur skapi verkefninu og byggðinni sem síðar verður á reitnum ákveðna sérstöðu.