Hyatt og Reitir gera samkomulag um opnun fyrsta Hyatt hótelsins á Norðurlöndum

Alþjóðlega hótelkeðjan Hyatt Hotels Corporation og Reitir fasteignafélag hafa undirritað sérleyfissamning um rekstur Hyatt Centric hótels að Laugavegi 176.
Hyatt og Reitir gera samkomulag um opnun fyrsta Hyatt hótelsins á Norðurlöndum
  • Hótelið verður staðsett á Laugavegi 176 í gamla sjónvarpshúsinu
  • 169 herbergi, veitingastaður, bar, fundarsalir og bílastæði fyrir gesti
  • Um er að ræða fyrsta Hyatt hótelið á Norðurlöndum
  • Gert er ráð fyrir að hótelið opni árið 2022

 

Alþjóðlega hótelkeðjan Hyatt Hotels Corporation og Reitir fasteignafélag hafa undirritað sérleyfissamning um rekstur Hyatt Centric hótels að Laugavegi 176. Fasteignin, sem um áratuga skeið hýsti starfsemi Ríkissjónvarpsins, verður endurbyggð og stækkuð þannig að hún rúmi 169 herbergi, fundarsali, veitingastað, heilsurækt og skemmtileg almenningsrými í anda Hyatt hótelkeðjunnar. Reitir stefna að því að halda eigninni í eignasafni félagsins til lengri tíma en selja rekstur hótelsins til traustra rekstraraðila.

Hyatt Centric vörumerkið flokkast sem lífsstílshótel þar sem áhersla er lögð á að skapa skemmtilega stemningu. Um er að ræða fyrsta hótelið á Norðurlöndunum sem opnar undir vörumerki Hyatt keðjunnar og sjöunda Hyatt Centric hótelið í Evrópu, en það vörumerki hefur notið mikilla vinsælda frá því það var fyrst kynnt. Hyatt Centric leggur áherslu á hátt þjónustustig, vandað efnisval, fallega hönnun og nútímaleg herbergi í háum gæðaflokki.

Peter Norman, framkvæmdastjóri þróunar hjá Hyatt:
 „Síðastliðið ár höfum við lagt mikla vinnu í að kynna okkur Norræna markaðinn og að kynnast  þróunaraðilanum og fasteignaeigandanum á Íslandi. Innkoma okkar á markaðinn með Hyatt Centric Reykjavík er því mikilvægur áfangi fyrir okkur. Opnunin ber ekki eingöngu vitni um hinn mikla vöxt Hyatt þegar kemur að gæðahótelum í Evrópu heldur styður hún einnig áform okkar um að hasla okkur völl á mörkuðum þar sem svæðisbundnir aðilar ráða ríkjum“.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita:
 „Það er mjög ánægjulegt að geta tilkynnt um opnun fyrsta Hyatt hótelsins á Íslandi. Vörumerkið er rótgróið og þekkt um allan heim og við sjáum mikil tækifæri fólgin í því að opna hótel í samstarfi við slíkan aðila. Hyatt býr yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu þegar kemur að hótelþróun og rekstri sem við munum njóta góðs af í þessu verkefni sem Reitir hafa ákveðið að ýta úr vör. Hótelkeðja af þessari stærðargráðu hefur getu til þess að vekja athygli á Íslandi sem ferðamannastað og auka þannig eftirspurn ferðamanna til landsins. Koma Hyatt mun því í heild hafa jákvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu og hótelmarkaðinn í Reykjavík“.

Um Hyatt Hotels Corporation
Hyatt Hotels Corporation er leiðandi alþjóðleg hótelkeðja með höfuðstöðvar í Chicago í Bandaríkjunum. Vörumerki keðjunnar eru 20 talsins, öll í háum gæðaflokki. Þann 30. júní 2019 kom hótelkeðjan að rekstri 875 hótela í yfir sextíu löndum í sex heimsálfum. Nánari upplýsingar um Hyatt Hotels Corporation má finna á www.hyatt.com.

Um Reiti fasteignafélag
Reitir fasteignafélag hf. er íslenskt hlutafélag skráð á aðalmarkað Nasdaq Iceland kauphallarinnar. Starfsemi félagsins felst í eignarhaldi, útleigu og umsýslu atvinnuhúsnæðis sem er að stærstum hluta verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir í eigu félagsins eru um 140 talsins, um 460 þúsund fermetrar að stærð. Nánari upplýsingar um Reiti má finna á www.reitir.is.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, í síma 575 9000 eða 660 3320.