Reitir vinna að framgangi spennandi þróunarverkefna á Kringlureit, Orkuhússreit, á Blikastöðum og á öðrum reitum innan eignasafnsins. Þá stendur yfir áhugaverð og spennandi vegferð á uppbyggingu stafrænnar Kringlu. 

 

Kringlureitur

Lifandi borgarhverfi þar sem allt er innan seilingar

Kringlureitur er metnaðarfullt verkefni þar sem skapaður verður nýr borgarkjarni með fjölbreyttu samfélagi íbúa, verslunar, þjónustu og síðast en ekki síst menningar og lista. Við viljum opna svæðið aðliggjandi hverfum og tengja betur við almenningssamgöngur, þannig verður Kringlan miðpunktur svæðis þar sem hægt verður að ganga til vinnu, versla í matinn í nærumhverfinu og öðlast á ný lífsgæði sem borgarbúar hafa að stórum hluta farið á mis við.

Stærð svæðis
13 ha.
Nýtt byggingarmagn
160.000 m2
Fjöldi íbúða
 800 - 1000 talsins
Staða verkefnis
Rammaskipulag samþykkt, breyting á aðalskipulagi í undirbúningi

 

Stafræn Kringla

Verslun og umhverfi samtvinnuð stafrænni upplifun

Kringlan kynnti á árinu 2018 framtíðarsýn þar sem verslun og verslunarumhverfi samtvinnast stafrænni upplifun. Kringlan ætlar að bjóða kaupmönnum bæði rými í lifandi borgarhverfi og sýningarglugga í stafrænum heimi. Gestir Kringlunnar koma til með að njóta auðveldari verslunar og einstaklingsmiðaðrar upplifunar.Við þróun fasteigna og uppbyggingu nýrra svæða leggja Reitir áherslu á sjálfbærni við skipulag og hönnun þeirra. Lögð er áhersla á að taka þátt í að þétta byggð, styðja við nýjar samgönguleiðir með sjálfbærni og umhverfisáhrif í huga og að fasteignirnar séu hannaðar þannig að auki við lífsgæði þeirra sem nýta þær.  

Orkuhússreiturinn

Nýjar íbúðir miðsvæðis í borginni

Reitir og Reykjavíkurborg hafa í samstarfi lýst yfir vilja um uppbyggingu á Orkuhússreitnum, afar mikilvægu svæði á mótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar.  Gert er ráð fyrir að lágreist atvinnuhúsnæði sem stendur við Ármúla víki og að lóðin verði minnkuð við Suðurlandsbraut vegna fyrirhugaðra legu Borgarlínu. Stefnt er að endurskoðun deiliskipulags fyrir svæðið og hafa þrjár arkitektastofur verið fengnar til að vinna hugmyndir. 

Lóðarstærð
26.000 m2
Heildar byggingarmagn
45.000 m2
Fjöldi íbúða
4-500 talsins ( ~40.000 m2)
Atvinnuhúsnæði
5-6000 m2
Staða verkefnis
Skipulagssamkeppni stendur yfir

Endanlegt byggingamagn, útfærsla og gerð húsnæðis mun taka mið af niðurstöðu hugmyndasamkeppni um skipulag lóðarinnar. Uppbyggingin verður í samræmi við markmið og í anda húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar þannig að um 15% íbúða á lóðinni verða leiguíbúðir, íbúðir Félagsbústaða, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. 

Þegar deiliskipulagshugmynd liggur fyrir verður uppbyggingin útfærð nánar og tímasett, sem og gengið frá samkomulagi um  greiðslur, kauprétt og kvaðir. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við uppbyggingu á lóðinni geti hafist innan tveggja ára frá því nýtt deiliskipulag hefur verið samþykkt. 

 

Blikastaðir

Nýtt atvinnusvæði fyrir rýmisfreka starfsemi

Á teikniborðinu liggja drög að skipulagi atvinnusvæðis í landi Reita á Blikastöðum við Korpu í Mosfellsbæ. Væntingar eru um að svæðið muni laða til sín rýmisfreka starfsemi sem nú er staðsett miðsvæðis. Deiliskipulag fyrir Blikastaðasvæðið er nú í undirbúningi. Gert er ráð fyrir að það taki 8-10 ár fyrir svæðið að byggjast upp.

Lóðarstærð
15 ha.
Heildar byggingarmagn
 75 - 100.000 m2
Staða verkefnis
Deiliskipulag í undirbúningi 

 

Ármúli 7

Hótel Ísland stækkar

Reitir vinna að undirbúningi stækkunar Hótel Íslands um ca. 55 herbergi með því að tengja Hótel Ísland við Ármúla 7 með nýrri fjögurra hæða tengibyggingu á milli húsanna. Ef áformin ganga eftir verður hægt að hefja framkvæmdir um mitt þetta ár.

Stærð lóðar
4.500 m2
Heildarbyggingarmagn
2.850 m2(þar af 610 m2 nýbygging)
Staða verkefnis
Deiliskipulagsbreyting og hönnun

 

Laugavegur 176

Gamla sjónvarpshúsið verður nýtt hótel

Reitir eru með áform í undirbúningi um nýtt hótel við Laugaveg 176 en viðræður við alþjóðlega hótelkeðju eru langt á veg komnar. Í árslok undirrituðu Reitir samkomulag við Reykjavíkurborg um uppbygginguna og vænst er til að deiliskipulag svæðisins verði afgreitt á fyrri helmingi þessa árs.

Stærð lóðar
4.400 m2
Heildarbyggingarmagn
 8.500 m2 
Staða verkefnis
Deiliskipulag