Eignasafn Reita telur um 140 eignir á um 460 þúsund fermetrum. Virði fjárfestingar­eigna var tæplega 139 milljarðar í lok árs 2018. Eignasafnið er með sterkum kjarna og góða dreifingu eigna.

Tíu verðmætustu eignir Reita eru Kringlan, skrifstofubyggingar við Höfða­bakka 9, Guðrúnartún 10 og Vínlandsleið 12-16, versl­unar og iðnaðar­hús­næði í Holtagörðum auk hótelhúsnæðis Hotel Hilton Reykja­vik Nordica, Hótel Borgar, Icelandair Hotel Reykjavik Natura, Alda hotel Reykjavík og húsnæði Hótel Íslands við Ármúla 9.

Virði tíu verðmætustu eigna félagsins nam um 45% af heildar­virði tekjuberandi eigna og helmingur eignanna í fjölda stóð að baki um 90% af virði tekjuberandi eigna.

Eignasafnið er fjölbreytt hvort sem litið er til gerðar húsnæðis, staðsetningar eða tegundar leigutaka. Vegna fjölda og fjölbreytileika er áhætta tekjuflæðis eignasafnsins töluvert dreifð.

Fjölbreytt úrval fasteigna gerir Reitum kleift að bjóða viðskiptavinum marg­breyti­legar lausnir hvað varðar staðsetningu, tegund húsnæðis og stærð. Starfs­fólk Reita býr yfir áralangri reynslu og þekkingu þegar kemur að vali á atvinnu­húsnæði, umsjón með endurbótum og samningagerð vegna reksturs fast­eigna. Þá taka Reitir virkan þátt í aðlögun húsnæðis að þörfum viðskiptavina.

Húsnæðistegundir í eignasafni Reita

Eignasafni Reita er í megindráttum skipt í fjóra flokka; verslunarhúsnæði, skrifstofueignir, hótel, iðnaðarhúsnæði o.fl. auk þróunareigna.   

Virði tekjuberandi eigna Reita skipt eftir tegundum

Húsnæðistegundir í eignasafni Reita. Hlutfall virðis tekjuberandi eigna.

 

Leigutekjur og viðskiptavinir

Tekjur Reita á árinu 2018 námu 11.421 millj. kr. og komu frá rúmlega 500 viðskiptavinum. Að teknu tilliti til reiknaðrar leigu af óútleigðum rýmum, sem er áætluð 356 millj.kr. á árinu, var leiguverð að meðaltali um 2.143 kr. á mánuði fyrir hvern fermetra. Óverulegar breytingar hafa orðið á þróun leiguverðs síðustu mánuði. Nýtingarhlutfall eigna Reita var 97,0% á árinu 2018. Við mat á nýtingarhlutfalli áætla Reitir tapaðar tekjur af óútleigðu rými út frá áætlaðri markaðsleigu.

Um 14% leigutekna ársins 2018 komu frá Högum en þar eru að baki fjölmargir leigusamningar við átta fyrirtæki í samstæðu Haga. Um 40% af leigu­tekjum félagsins komu frá öðrum stórfyrirtækjum. Þar er um að ræða rúmlega 60 aðila. Í þeim hópi eru Flugleiðahótel (í eigu Icelandair Group hf.) stærst sem stóðu að baki 7% leigutekna tímabilsins. Rúm 13% leigutekna komu frá 28 opinberum aðilum. Um 33% leigutekna komu frá um 400 öðrum aðilum.

Samsetning leigutekna ársins 2018

   Aðilar að baki >10% leigutekna 27%
Hagar (14%) og opinberir aðilar (13%)

 Aðilar að baki 5-10% leigutekna 7%
Flugleiðahótel (7%)

 Aðilar að baki 2-5% leigutekna 14%
Keahótel, Alda hótel Reykjavík, Advania og Basko verslanir (10-11 og Iceland).

 Aðilar að baki 1-2% leigutekna 12%
Actavis, Geymslur, Húsasmiðjan, Origo, Parlogis, Samkaup, Sjóvá og Valitor

 Aðilar að baki <1% tekna 40%

Rekstraráhætta Reita er lágmörkuð með fjölbreyttu húsnæði á nokkrum svæðum auk mikils fjölda traustra leigutaka. Reitir leggja höfuðáherslu á góð tengsl við viðskiptavini sem er lykill að því að viðhalda háu nýtingarhlutfalli félagsins. Fjöldi leigusamninga er byggður á áratugalöngu samstarfi og oft á tíðum er ímynd fyrirtækis nátengd því húsnæði sem það er staðsett í. Vanskil viðskiptavina við Reiti eru óveruleg enda stærstur hluti leigutekna vegna samninga við stór og stöndug fyrirtæki og opinbera aðila.

Leigusamningar

Leigusamningar Reita eru almennt verðtryggðir, tímabundnir, óupp­segjan­legir á leigutímanum, skriflegir og byggðir á stöðluðu formi. Fáeinir samningar innihalda þrepunar­ákvæði eða veltutengingu og kauprétt. Ákvæði um forleigurétt, forkaupsrétt eða uppsagnarákvæði er að finna í mörgum samningum. Langstærstur hluti leigusamninga ber ákvæði um tengingu leigu­greiðslna við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Aðrar tengingar eru við byggingarvísitölu og gengi evru. Lítill hluti samninga er tengdur veltu leigutaka.

Á hverjum tíma er hluti samninga félagsins ótímabundinn. Ótímabundnir samningar eru byggðir á skriflegum samningum sem runnið hafa út. Um þessa samninga gilda ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 um uppsögn og önnur ákvæði og framlengjast um 6-12 mánuði í senn í samræmi við ákvæði húsaleigulaga.

Landfræðileg dreifing eignavirðis í árslok og leigutekna ársins 2018