Reitir byggja á arfleifð umsvifa í íslensku viðskiptalífi í gegnum mörg undanfarin ár. Vegferðin hófst með opnun Kringlunnar árið 1987, þar sem Íslendingum var afhent framsýnt verslunarhúsnæði með fjölbreyttri verslun. Þessi arfleifð mótar framtíð drífandi fasteignafélags á fertugsaldri. Leiðin til framtíðar markast af langtímahugsun sem helgast af vel ígrunduðum ákvörðunum. Þar fer stöðugleiki í rekstri, arðsemi og ávinningur hluthafa og viðskiptavina framar öðrum markmiðum. 

Unnið er að undirbúningi nokkurra stærri þróunarverkefna. Kringlureitur er metnaðarfullt verkefni þar sem skapaður verður nýr borgarkjarni með fjölbreyttu samfélagi íbúa, verslunar, þjónustu og síðast en ekki síst menningar. Reiturinn er ekki eyland í borginni, félagið vill opna svæðið aðliggjandi hverfum og auka tengingu við þau. Þannig verður Kringlan miðpunktur svæðis þar sem hægt verður að bjóða kaupmönnum bæði athafnarými í lifandi borgarhverfi og í stafrænum heimi Kringlunnar. Gestir Kringlunnar koma til með að njóta breytingarinnar með auðveldari verslun og einstaklingsmiðaðri upplifun.

Í upphafi árs 2018 undirrituðu Reitir og Reykjavíkurborg viljayfirlýsingu um framgang þessa stóra verkefnis.  Þar var gert ráð fyrir því að vinnu við rammaskipulag hins nýja hverfis yrði lokið í júní á því ári. Sú vinna stóðst tímaáætlanir í góðri samvinnu Reita og þeirra arkitekta og ráðgjafa sem að henni komu. Rammaskiplagið sýndi fram á að á Kringlureit væri hægt að koma fyrir um 160.000 fermetrum af nýbyggingum, þar af um 850 íbúðum. Inn í þetta flókna og metnaðarfulla verkefni blandast, með beinum og óbeinum hætti, fyrirætlanir um lagningu borgarlínu, bæði frá austri til vesturs og frá suðri til norðurs, og fyrirætlanir um lagningu Miklubrautar í stokk. 

Reitir og Reykjavíkurborg hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu á Orkuhússreitnum, afar mikilvægu svæði á horni Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Gert er ráð fyrir að á lóðinni verði að lágmarki 45.000 fermetrar, íbúðir verði 4-500 talsins og atvinnuhúsnæði 5-6.000 fermetrar. 

Reitir hafa í hyggju að breyta Laugavegi 176, gamla Sjónvarpshúsinu, í hótel. Hvergi hefur verið slegið af í þeim undirbúningi, en endanleg ákvörðun um þá fjárfestingu hefur ekki verið tekin enda verkefnið ennþá í mótun. Viðræður standa nú yfir um samstarf við alþjóðlega hótelkeðju um rekstur hótelsins.

Á teikniborðinu liggja drög að skipulagi og þróunaráætlun fyrir nýtt atvinnusvæði í landi Reita á Blikastöðum við Korpu í Mosfellsbæ. Væntingar eru um að svæðið muni laða til sín rýmisfreka starfsemi sem nú er farið að þrengja að á öðrum svæðum. 

Framsýni og áreiðanleiki haldast í hendur. Leiðin til framtíðar markast af sýn sem er einungis framkvæmanleg ef Reitir eru áreiðanlegir og eftirsóttur leigusali. Viðskiptavinahópur Reita samanstendur af mörgum traustustu fyrirtækjum og stofnunum landsins. Efling þessara viðskiptasambanda með vönduðum samskiptum og faglegri úrlausn mála er keppikefli Reita.

Ný viðskiptasambönd urðu til á árinu þegar Reitir keyptu Vínlandsleið ehf. fyrir u.þ.b. 5.900 millj.kr. en þar bættust í eignasafn Reita um 18.000 fermetrar af afar vönduðu húsnæði sem er að stærstu leyti í langtímaleigu til opinberra aðila. 

Í október undirrituðu Reitir samkomulag við Landspítala um leigu á húsnæði í Skaftahlíð fyrir skrifstofur spítalans og endurnýjaður var samningur um skrifstofubyggingu að Eiríksgötu 5, sem nú verður að göngudeild. Samningur þessi þýðir að ráðist verður í endurbætur og framkvæmdir í þessum tveimur eignum félagsins fyrir um allt að 1.500 millj.kr. Þannig glæða leigutakar okkar byggingarnar síbreytilegu mannlífi.

Þessa dagana fylgjast Reitir með verktökum endurnýja gamla pósthúsið í miðborg Reykjavíkur og gömlu lögreglustöðina í Pósthússtræti. Þar ætlar félagið að skapa umgjörð fyrir ný sóknarfæri í skjóli arfleifðar þessara sögufrægu húsa. 

Á síðari árum hafa Reitir hlúð vandlega að sögufrægum byggingum sínum og staðið þannig vörð um íslenskan menningararf á sama tíma og horft er til framtíðar og breyttra þarfa.

Viðskiptavinum, fjárfestum, stjórn og starfsfólki er þakkað gott samstarf á árinu 2018.