Þrjátíu ára afmælisár Kringlunnar hefur verið ár mikilla breytinga í verslunarmiðstöðinni. Um 7.000 fermetra rými á tveimur hæðum í norðurenda Kringlunnar fékk algjöra endurnýjun og í kjölfarið voru opnaðar glæsilegar nýjar verslanir H&M, Next og Hagkaups. Nýjar verslanir í Kringlunni eru meðal annars Toys R Us, Selected, Nespresso, Nike by Air og G-Star Raw.

 

Útisvæði við inngang Kringlunnar á 2. hæð - Ársskýrsla Reita fasteignafélags 2017Inngangar í norðurenda Kringlunnar voru endurnýjaðir og nýtt útisvæði var tekið í notkun á haustmánuðum.

Viðskiptavinir Kringlunnar fögnuðu breytingum í Kringlunni en þrátt fyrir framkvæmdir og lokanir verslana meðan á þeim stóð hafa heimsóknir í Kringluna ekki verið fleiri síðan árið 2006. 

Nú stöndum við frammi fyrir frekari þróun Kringlunnar. Verslun hefur tekið miklum breytingum með fleiri valkostum, bæði í vöruúrvali og ekki síst umhverfi, bæði stafrænu og hefðbundnu. Reitir og stjórnendur Kringlunnar unnu á árinu 2017 ítarlega greiningar- og stefnumótunarvinnu með erlendu ráðgjafarfyrirtæki, sérhæft á sviði þróunar og endurnýjunar verslunarkjarna, þar sem rannsakaðir voru eiginleikar, gildi og viðhorf gesta Kringlunnar þvert á aldurshópa og félagslega stöðu.

Gestir Kringlunnar eru forvitnir og sjálfstæðir einstaklingar sem greina umhverfi sitt af krafti, með nýjungagirni og ímyndunarafl að vopni. Þeir sækjast eftir notalegu umhverfi, skemmtun og sköpunargleði þegar þeir heimsækja Kringluna. Þeir eru ólíkir gestum flestra helstu verslunarsvæða á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurstaða stefnumótunarvinnunnar er framtíðarsýn fyrir Kringluna sem endurspeglar hugarheim viðskiptavina. Áframhaldandi þróun og endurnýjun Kringlunnar mun taka mið af þessum eiginleikum þegar kemur að vali verslana, veitingahúsa og þjónustu, viðhaldi og endurnýjun á göngum Kringlunnar og í öllu markaðs- og samskiptastarfi.

Þrítugsafmæli Kringlunnar

Myndir af listamönnum og gestum á 30 ára afmæli Kringlunnar helgina 19. til 22. október 2017.

Opnun Kringlunnar árið 1987 var stórviðburður í sögu Reykjavíkur, en þegar Kringlan var opnuð jókst verslunarrými í Reykjavík um 9% með 76 verslunum og þjónustuaðilum á þremur hæðum. Á 30 ára afmælinu voru starfandi yfir 170 verslanir og þjónustuaðilar í Kringlunni. Í tilefni afmælisins var haldin 30 ára afmælishátíð í Kringlunni í október s.l. Hátíðin náði hámarki á laugardeginum þegar fjöldi gesta kom og þáði veitingar og naut carnival-stemningar þar sem trúðar, sirkúsfólk, spákonur, tónlistarfólk og ýmsir aðrir skemmtikraftar voru á ferli í Kringlunni og blönduðu geði við gesti.

Öflugur borgarkjarni í nýju borgarskipulagi

Kringlan verður öflugur borgarkjarni með blöndu af íbúðum, verslunum, skrifstofum og þjónustu, menningu og listastarfsemi

Á árinu var haldin hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Kringlusvæðisins. Alls bárust fimm hugmyndir að skipulagi svæðisins en tillaga Kanon arkitekta varð hlutskörpust. Í vinningstillögunni er unnið með einfalda reitaskiptingu sem fellur vel að hefðbundnu byggðamynstri borgarinnar og skapar sterka heild. Borgarlínustöðvar staðsettar við Miklubraut og Kringlumýrarbraut þjóna bæði íbúum, vinnustöðum á Kringlusvæðinu og nærliggjandi menntastofnunum. Hús í vinningstillögunni eru að jafnaði fimm til sjö hæðir, en hærri byggingar rísa upp úr randbyggðinni og kallast á við Hús verslunarinnar og önnur hærri hús sem fyrir eru á svæðinu. 

Tillaga Kanon arkitekta að skipulagi Kringlusvæðisins til framtíðar. Gert er ráð fyrir rólegri bílaumferð á yfirborði en bílastæðum neðanjarðar.Tillaga Kanon arkitekta að skipulagi Kringlusvæðisins til framtíðar. Gert er ráð fyrir rólegri bílaumferð á yfirborði en bílastæðum neðanjarðar.

Tillagan felur í sér sveigjanleika í landnýtingu og möguleika á hentugri áfangaskiptingu. Uppbyggingaráform á Kringlureitnum fara vel saman við hugmyndir Reykjavíkurborgar um Miklubraut í stokk og aukna byggð á núverandi veghelgunarsvæðum. Undirbúningur að uppbyggingu er þegar hafinn en Reitir og Reykjavíkurborg undirrituðu þann 17. janúar 2018 viljayfirlýsingu um uppbyggingu á reitnum. Vinna við gerð rammaskipulags er þegar hafin.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, við undirritun viljayfirlýsingar um þróun á Kringlusvæðinu. Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Borgarleikhúsinu við undirritun viljayfirlýsingar um þróun á Kringlusvæðinu.