Samfélagið á Kringlureitnum

Uppbygging á Kringlusvæðinu er stærsta einstaka þróunarverkefni Reita. Stofnaður hefur verið starfshópur skipaður fulltrúum Reita ásamt fulltrúum borgaryfirvalda sem undirbýr deiliskipulagsbreytingar sem munu ná yfir allt Kringlusvæðið en ráðgert er að fara í skipulagssamkeppni fyrir reitinn á næstunni. 

Gert er ráð fyrir nokkurri fjölgun íbúða á svæðinu eða um 500 íbúðum auk tæplega 100 þúsund fermetra af nýju atvinnuhúsnæði. Samtals gæti aukning húsnæðis því verið um 150 þúsund fermetrar en á svæðinu í dag eru tæplega 100 þúsund fermetrar. Þess ber þó að geta að Reitir eiga ekki allar byggingarheimildir á svæðinu.

Uppbygging Kringlunnar er langtímaverkefni sem snýst ekki eingöngu um að stækka verslunarmiðstöðina sem slíka, heldur snýst það um að þróa samfélag, með öllu því sem því tilheyrir.

Myndband sem sýnir mögulega útfærslu framtíðarþróunar á Kringlureit

Hótelþróun í gamla sjónvarpshúsinu á Laugavegi

Reitir áforma að breyta gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg 176 í nýtísku hótel. Skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar hafa ákveðið að setja reitinn í skipulagssamkeppni ásamt nærliggjandi reitum, þ.á.m. hinum svokallaða Heklureit. Stefnt er að því að niðurstöður úr samkeppninni liggi fyrir um miðjan júní. Þá má ætla að heimilt verði að vinna deiliskipulag sem grundvallast á verðlaunatillögu úr samkeppninni og í kjölfarið af skipulagsbreytingu geta framkvæmdir hafist.

Auglýst var eftir rekstraraðilum síðasta haust, og var mikill áhugi á meðal hótelrekstraraðila. Gert er ráð fyrir stækkun byggingarinnar og að hún verði um 6.700 m2 að stærð. Herbergjafjöldi verður um 120-160 auk verslunar- og þjónusturýma á jarðhæð. Samningaviðræður standa yfir við alþjóðlegan rekstraraðila og stefnt er að undirritun leigusamnings um miðjan júní nk., ef allar forsendur ganga eftir.

Myndband sem sýnir mögulega útfærslu nýrrar hótelbyggingar við Laugaveg 176

Vöruhúsaþróun við Skútuvog 8

Við Skútuvog 8 stendur 2.000 m2 vöruhús í eigu Reita á um 16.500 fm lóð sem nú hýsir starfsemi Vöku. Ráðgert er að fjarlægja núverandi hús og byggja á lóðinni nýtt 8.000 til 10.000 m2 hágæðavöruhús. Deiliskipulag lóðarinnar liggur fyrir og er áætlað að framkvæmdir geti hafist um mitt ár 2019. Í byrjun mars auglýstu Reitir eftir áhugasömum fyrirtækjum til að hefja þar starfsemi en stefnan er að hanna húsið og undirbúa framkvæmdir í samráði við væntanlegan leigutaka. 

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er heimilt að byggja 8.200 m2 að grunnfleti og 11.200 m2 með milligólfum. Fyrst og fremst er horft til þess að á lóðinni rísi nútímalegt vöruhús enda er staðsetning lóðar afar góð með tilliti til vörudreifingar. Önnur starfsemi kemur einnig til greina en í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir rýmisfrekri verslun, heildsölu, þjónustu og léttum iðnaði.

Lóðin er afar vel staðsett ef horft er til vörudreifingar en stutt er í hafnarsvæði bæði hjá Eimskipum og Samskipum en einnig er lóðin vel staðsett með tilliti til nýs íbúðarhverfis, Vogabyggðar.

Horft er til þess að hanna og þróa húsið í samstarfi við væntanlegan leigutaka en til greina kemur að semja við tvo eða fleiri aðila um starfsemi í húsinu. Leigutökum gefst því kostur að fá sérhannað húsnæði utan um starfsemi viðkomandi.

Myndband sem sýnir mögulega útfærslu og stærð nýbyggingar við Skútuvog 8