Árið 2016 var fyrsta heila starfsár Reita eftir skráningu í Kauphöll Íslands, en þar var félagið skráð í apríl 2015. Reksturinn gekk vel og árið var viðburðaríkt. Á árinu gengu í gegn ein stærstu fasteignaviðskipti hér á landi þegar Reitir tóku yfir eignir af Stefni fyrir tæpa 17 milljarða króna. Þær eignir urðu hluti af eignasafni félagsins frá 1. apríl á síðasta ári. Þar fyrir utan var fjöldi nýrra leigusamninga gerður auk fjölmargra endurnýjana og viðauka. 

Tíðindamikið starfsár Reita kallaðist á við eitt mesta fréttaár, hérlendis og erlendis, um langt árabil. Kosið var til Alþingis, Íslendingar og Bandaríkjamenn kusu sér nýja forseta, Bretar afréðu að segja skilið við ESB, umfjöllun um meintar eignir í skattaskjólum setti samfélagið á annan endann og ferðamenn streymdu til landsins sem aldrei fyrr með tilheyrandi gjaldeyrisinnstreymi og áframhaldandi uppsveiflu.

 

Hagkvæmur rekstur eignasafnsins

Rekstur Reita árið 2016 var í ágætu samræmi við væntingar og útgefnar áætlanir félagsins um afkomu. Arðsemi eigin fjár var um 5,3% á árinu 2016 og arðsemi tekjuberandi eigna um 6%. Leigutekjur Reita árið 2016 námu 10.035 millj. kr. samanborið við 8.927 millj. kr. árið áður. Tekjur jukust nokkuð hraðar en verðlag, en að auki skýra nýjar eignir í safninu hluta tekjuvaxtar. Nýtingarhlutfall eignasafnsins er gott, eða um 97% af tekjuvirði.

Icelandair Hotel Reykjavik Natura. Húsnæði hótelsins er í eignasafni Reita.Icelandair hótel Reykjavík Natura. Húsnæði hótelsins er í eignasafni Reita. 

Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna nam 2.565 millj. kr. samanborið við 2.120 millj. kr. árið 2015. Hækkun fasteignagjalda skýra stærstan hluta aukningarinnar milli ára, en þau jukust um tæp 19%.

Stjórnunarkostnaður félagsins jókst milli ára og nam 545 millj. kr. samanborið við 455 millj. kr. árið áður. Meginskýringin felst í auknum launakostnaði og fjölgun stöðugilda.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, fjármagnsliði og kostnað við skráningu var 6.925 millj. kr. samanborið við 6.352 millj. kr. árið áður, að teknu tilliti til einskiptisliða vegna skráningarinnar í apríl 2015.

Hrein fjármagnsgjöld ársins 2016 námu 4.067 millj. kr. samanborið við 3.379 millj. kr. árið áður. Í árslok 2016 námu vaxtaberandi skuldir 76.223 millj. kr. samanborið við 57.158 millj. kr. í lok árs 2015.

Stjórn og starfsmenn Reita eru sátt við rekstrarniðurstöðu síðasta árs sem er lýsandi fyrir þann trausta tekjugrunn sem félagið býr að.

Hagfelldar aðstæður á fjármálamörkuðum og góð fjárfestingargeta

Reitir eru mjög vel fjármagnað félag og var hlutfall skulda af fjárfestingareignum um 60% í lok árs 2016. Félagið miðar við að halda slíku hlutfalli á bilinu 60 til 65%. Eiginfjárhlutfallið var 34,4% í lok ársins.

Mat stjórnenda er að sterkur eiginfjárgrunnur og traust eignasafn gefi félaginu áfram færi á útgáfu skuldabréfa til hagkvæmrar og öruggrar fjármögnunar á eignasafninu. Þær væntingar gengu ágætlega eftir á síðasta ári þegar Reitir seldu skuldabréf á hagkvæmum kjörum undir áður kynntum útgáfuramma félagsins. Um var að ræða viðbót við fyrirliggjandi verðtryggðan skuldabréfaflokk auk nýrrar verðtryggðrar útgáfu með styttri líftíma ásamt nýrri óverðtryggðri útgáfu. Þessi vegferð auðveldar félaginu að sækja fjármögnun á skuldabréfamarkað, jafnt til að fjármagna kaup á nýjum eignum og til að endurfjármagna eldri og óhagkvæmari lán félagsins.

Laugavegur 182 "Kauphöll Íslands". Laugavegur 182 er á meðal bygginga í eignasafni Reita.Laugavegur 182 Kauphöll Íslands. Húsnæði Kauphallarinnar er á meðal fasteigna í eignasafni Reita. 

Verðtryggðir vextir fóru lítillega lækkandi á árinu. Áhrifa þess gætti í mati á verðmæti eignasafnsins sem tekur mið af breytingum á raunvaxtastigi. Á móti vega verulegar hækkanir á fasteignagjöldum, varfærið mat á þróun markaðsleigu og reikningshaldsleg áhrif af kaupum á hinum svokölluðu Stefniseignum. Samkvæmt þeim alþjóðlegu reikningsskilastöðlum sem Reitir fylgja skal færa skattskuldbindingu vegna eignanna þrátt fyrir að verðmæti hennar sé óverulegt í viðskiptunum. Þessi áhrif, ein og sér, vega vel á annan milljarð til lækkunar á virðismati eigna félagsins, þrátt fyrir að rekstrarlegur og fjárhagslegur ávinningur af kaupunum sé til staðar. Hækkaði eignamatið af þessum sökum einungis um 347 milljónir á árinu 2016. Það má því segja að félagið fylgi varfærinni stefnu við spár um þróun eignamats. 

Félagið hefur, frá aðalfundi 2016 til ársloka, stundað endurkaup á eigin bréfum félagsins í samræmi við heimild síðasta aðalfundar félagsins. Á árinu 2016 keypti félagið eigin bréf að nafnverði 23 millj. kr. fyrir 1.960 millj. kr. Hefur félagið þá keypt til baka um 4,5% af útgefnu hlutafé á síðustu tveimur árum. Stefnt er að því að endurnýja endurkaupaáætlun um eigin bréf með það að markmiði að kaupa eigin bréf fyrir allt að 1.500 millj. kr.

Viðburðaríkt ár að baki

Í upphafi árs 2016 leigði Olíuverzlun Íslands rúmlega 4.000 fermetra iðnaðarhúsnæði í Súðarvogi. Í febrúar keyptu Reitir Álftamýri 1-5, húsnæði sem hýsir heilsumiðstöðina Lífstein, á tæpar 700 millj. kr., og Arion banki gerði leigusamning um húsnæði fyrir bankaútibú í Sunnumörk í Hveragerði.

Samfélagsleg ábyrgð var ofarlega á baugi hjá Reitum sem fyrr. Erindi - samtök um samskipti og skólamál, fékk afhent húsnæði í Spönginni í febrúar, er hýsir samskiptasetur fyrir börn og unglinga sem glíma við einelti.

Í mars á síðasta ári tók Parlogis fasteign Reita að Skútuvogi 3 á leigu og Lúr - Betri hvíld fluttist í um 900 fermetra húsnæði í eigu félagsins við Suðurlandsbraut 24.

Reitir hlutu viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum á vormánuðum síðasta árs. Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq OMX Iceland og Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands veittu viðurkenninguna.

Reitir voru stórtækir í apríl því að átta fasteignir bættust í eignasafn félagsins eins og getið var um hér að framan. Um var að ræða húsnæði Hótel Borgar, húsnæði Nýherja við Borgartún 37, húsnæði Advania við Guðrúnartún 10, Laugaveg 77, Fiskislóð 11, Skúlagötu 17, Síðumúla 16-18 og Faxafen 5. Ekki voru tekin minni skref í íslenskum stjórnmálum þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson tók við. Ákveðið að flýta þingkosningum og kjósa um haustið.

Borgartún 37 - Húsnæði Nýherja er á meðal eigna sem Reitir keyptu á árinu 2016Húsnæði Nýherja við Borgartún 37. Húsið var á meðal eigna sem bættust í safnið þann 1. apríl 2016.

Nesklúbburinn, golfklúbburinn á Seltjarnarnesi, gerði samkomulag við Reiti um afnot af um 450 fermetra húsnæði á Eiðistorgi fyrir inniaðstöðu klúbbsins.

Nýtt veitingahús, Matarkjallarinn, var opnað í kjallara hússins að Aðalstræti 2 á vormánuðum. Nýr inngangur var gerður á þetta sögufræga hús í tengslum við opnun nýja staðarins. Í sama mánuði keyptu Reitir tæplega 700 fermetra rými á þriðju hæð í norðurenda Kringlunnar. Þar eru starfræktar læknastofur.

Reitir auglýstu á miðju sumri eftir rekstraraðila hótels sem fyrirhugað er að þróa í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg 176, enn ein birtingarmynd gróskunnar í íslenskri ferðaþjónustu. Viðbrögðin voru mjög góð og unnið er að útfærslu á viðskiptasambandi við áhugaverðan rekstraraðila.

Breytingar urðu á framkvæmdastjórn Reita í júní þegar Viðskipta- og þróunarsviði var skipt upp. Kristófer Þór Pálsson tók við starfi framkvæmdastjóra Viðskiptasviðs en Friðjón Sigurðarson tók við framkvæmdastjórn nýs sviðs, Þróunarsviðs. Fleiri áhugaverðar mannabreytingar urðu á landinu því að Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn forseti lýðveldisins 25. júní.

Nágrannar okkar Bretar voru þó enn stórtækari í breytingunum því að þeir ákváðu að segja sig úr Evrópusambandinu. Hremmingum Englendinga var þó hvergi nærri lokið því að nokkrum dögum síðar vann Ísland stærsta knattspyrnusigur þjóðarinnar frá upphafi þegar liðið lagði England, 2-1 í 16 liða úrslitum EM 2016 í knattspyrnu.

Á heldur rólegri nótum opnaði ný Skechers verslun í Kringlunni og Okkar talþjálfun hóf starfsemi að Höfðabakka 9.

Fiskistofa undirritaði leigusamning um rúmlega 700 fermetra húsnæði á þriðju hæð í Borgum við Norðurslóð á Akureyri í júní og Reitir auglýstu eftir rekstraraðilum til þátttöku í Sælkerahöll í Holtagörðum.

Norðurslóð 4 á Akureyri - Fiskistofa leigði hjá Reitum að Borgum á Akureyri
Norðurslóð 4 Borgir á Akureyri. Fiskistofa er nýr leigutaki að Borgum.

Í júlí var tilkynnt um samningaviðræður við H&M og um fyrirhugaða opnun verslunar í Kringlunni á seinni hluta ársins 2017.

Under Armour verslun var opnuð á Bíógangi í Kringlunni og breyting varð á eignarhaldi Reita þegar Ríkissjóður seldi 6,38% eignarhlut í félaginu á genginu 83,30 krónur á hlut í ágústmánuði.

Í september fluttist CYREN, forystufyrirtæki á heimsvísu í þróun hugbúnaðar fyrir tölvuöryggi, í nýtt húsnæði frá Reitum á 2. hæð í Dalshrauni 3. Sendiráðið, vef- og hugbúnaðarstofa, undirritaði leigusamning við Reiti um u.þ.b. 340 fermetra húsnæði á 2. hæð að Höfðabakka 9. TripCreator tók á leigu tæplega 400 fermetra útsýnishæð að Lágmúla 9 og Apótekarinn opnaði nýtt apótek að Fitjum í Reykjanesbæ.

Bryddað var upp á skemmtilegri nýjung í samfélagslegum stuðningi Reita í októbermánuði. Keypt var málverk sem listamaðurinn Tolli málaði með leikskólabörnum og selt var til styrktar góðgerðarverkefni Kringlunnar „Af öllu hjarta" til stuðnings Bleiku slaufunnar. Jafnframt fögnuðu Reitir 5 ára stuðningi við Specialisterne, samtök sem stuðla að atvinnuþátttöku einstaklinga á einhverfurófi.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar leigði skrifstofuhúsnæði í Hafnarstræti 91 á Akureyri í október og í lok mánaðarins tóku unnendur harða rokksins gleði sína þegar Hard Rock Cafe opnaði í Lækjargötunni.

Kosningabaráttan var í algleymi á Íslandi en í októberlok gengu landsmenn til kosninga og völdu 7 flokka til að stýra málefnum þjóðarinnar.

Í nóvember hlutu Reitir viðurkenningu sem Fyrirtæki mannúðar 2016. Það var Fjölskylduhjálp Íslands sem veitti Reitum viðurkenninguna, en Reitir hafa stutt samtökin með húsnæði í Iðufelli til nokkurra ára.

Reitir keyptu félag um húsnæði verslunarinnar Vila í Kringlunni og Allianz gerði leigusamning við Reiti um leigu á u.þ.b. 400 fermetra húsnæði á 1. hæð í Dalshrauni 3. 

Í lok ársins varð ljóst að hin óvæntu úrslit hefðu orðið í forsetakosningunum í Bandaríkjunum að auðjöfurinn Donald Trump bar sigurorð af Hillary Clinton. Það truflaði þó ekki Reiti í að kaupa fasteignir sem standa við Laugaveg 66-70 og hýsa hið nútímalega Alda Hotel Reykjavík. Kaupverð var um 2.850 millj. kr. en afhending eignanna fór fram í janúar 2017.

Reitir seldu eignarhlut sinn í brunareitnum að Skeifunni 11 fyrir tæpar 600 milljónir króna.

Hagar, fyrir hönd Hagkaups, og Reitir endurnýjuðu leigusamning um rými á 1. hæð í Kringlunni en samhliða var tilkynnt um að stærstur hluti rýmisins þar sem nú er efri hæð Hagkaups færi undir nýja H&M verslun. 

Þróun á Kringlureit ofarlega á verkefnalistanum

Uppbygging á Kringlusvæði er stærsta einstaka þróunarverkefni Reita. Á árinu var stofnaður starfshópur sem skipaður er fulltrúum Reita ásamt fulltrúum borgaryfirvalda og mun hann vinna að undirbúningi og gerð nýs deiliskipulags fyrir Kringlusvæðið. Vinnan er komin vel á veg og er ráðgert að deiliskipulagsvinna hefjist um mitt þetta ár og ljúki um mitt ár 2018. Gert er ráð fyrir nokkurri fjölgun íbúða á svæðinu eða um 500 íbúðum auk tæplega 100 þúsund fermetra af nýju atvinnuhúsnæði. Samtals gæti aukning húsnæðis því verið um 150 þúsund fermetrar en á svæðinu í dag eru tæplega 100 þúsund fermetrar. Þess ber þó að geta að Reitir eru ekki eini lóðarhafinn á svæðinu.

Öflugasta fasteignafélag landsins

Eignasafn Reita samanstendur af um 140 fasteignum og er í heildina um 450 þúsund fermetrar að stærð. Innan safnsins eru stórar eignir svo sem Kringlan, Hótel Borg, Hilton Reykjavik Nordica og hótel Reykjavík Natura, Spöngin, Holtagarðar og skrifstofubyggingar við Höfðabakka 9, Kauphallarhúsið og húsnæði við Dalshraun í Hafnarfirði sem hýsir m.a. Valitor og Actavis. Aukinheldur eiga Reitir margar sögufrægar byggingar í miðbæ Reykjavíkur, má þar meðal annarra nefna Austurstræti 12 til 14 og Aðalstræti 2 og Vesturgötu 2a, falleg og vandlega uppgerð timburhús sem setja sterkan svip á miðborgina.

Austurstræti. Húsin við Austurstræti 8-10 og 12 til 14 eru á meðal fasteigna Reita.Austurstræti. Hús númer 8-10 og 12-14 eru í fasteignasafni Reita.

Á fyrri hluta ársins 2017 munu Reitir breyta uppbyggingu samstæðunnar í samræmi við nýtt skipulag sem kynnt var samhliða birtingu ársuppgjörsins. Með því er verið að breyta óhentugu skipulagi dótturfélaga sem rekja má til þess hvernig félagið byggðist upp frá því um aldamót. Nýtt skipulag samstæðunnar tekur mið af mismunandi tegundum atvinnuhúsnæðis sem félagið hefur í safni sínu, þ.e. verslun, skrifstofur, hótel, iðnaður/annað og þróun. Félagið mun taka upp starfsþáttagreiningu og munu upplýsingar um afkomu starfsþátta frá 1. janúar 2017 birtast í uppgjörum á árinu 2017. Í ársreikningi 2016 er gerð grein fyrir skiptingu fjárfestingareigna samkvæmt þessari flokkun. Að mati stjórnenda er endurskipulagningin mikilvægt skref fyrir félagið og skilar margþættum ávinningi til lengri tíma.

Árangur Reita næstu árin byggir á hagkvæmni í rekstri og viðhaldi og uppbyggingu eignasafnsins, farsælli ákvarðanatöku í fjárfestingum og faglegu samstarfi við viðskiptavini. Fjármögnun hins stóra eignasafns hefur gífurleg áhrif á afkomu Reita. Þar hefur tekist virkilega vel til. Þróun eignasafnsins miðar að því að Reitir treysti stöðu sína sem öflugasta fasteignafélag landsins. Til að sinna því verkefni hafa Reitir á að skipa reyndu starfsfólki og stjórnendum með trausta stjórn að bakhjarli.

Við hjá Reitum erum bjartsýn á rekstrarhorfur ársins 2017. Starfsfólki, stjórn, viðskiptavinum og öðrum samstarfsaðilum er þakkað gott samstarf á árinu 2016. 

 

Guðjón Auðunsson

Forstjóri

Þórarinn V. Þórarinsson

Stjórnarformaður