Bygging Kringlunnar var framsýnt verkefni, þegar Pálmi í Hagkaup opnaði hana á sínum tíma jókst verslunarrými í borginni um 10%. Nýi miðbærinn, eins og Kringlan var stundum kölluð fyrstu árin, með gosbrunnum, pálmatrjám og 20 gráðum, var gerólíkur þeim gamla, með bárujárnshúsum, rótgróinni menningu og nýafstöðnu 200 ára afmæli með köku niður hálfa Lækjargötu.

Gosbrunnur og pálmatré í Kringlunni 1987Kringlan reyndist fanga tíðaranda og framtíðarsýn 9. áratugarins vel þegar hún opnaði, þó hefur framsýni eigenda og stjórnenda verið drifkraftur til fjölda breytinga á húsnæðinu og stækkunar þess úr 28 þúsund fermetrum í 54 þúsund fermetra á 34 ára sögu hússins. Verslunarhættir hafa líka breyst, viðskiptavinir styðjast við netið í sífellt meira mæli og heimsóknir í verslunarmiðstöð snúast æ oftar um upplifun, afþreyingu og aðsókn í þjónustu. Í þessu felast tækifæri ekki síður en áskoranir og telja margir að heimsfaraldurinn sé að flýta þessari þróun.

Framangreind breyting á verslunarháttum kom forsvarsmönnum Kringlunnar ekki í opna skjöldu heldur hefur verið unnið ötullega að því til nokkurra ára að efla stafrænu hlið Kringlunnar ásamt því að endurskipuleggja Kringlusvæðið í samvinnu við Reykjavíkurborg. Þó heimsfaraldurinn hafi verið ófyrirséður var Kringlan fljót að bregðast við þegar hegðun viðskiptavina tók umskiptum nánast yfir nóttu þegar faraldurinn skall á. Þá kom til kasta stafrænna lausna Kringlunnar.

Stafræn Kringla

Í heimsfaraldrinum fór verslun fram heima. Yfir árið 2020 dróst aðsókn í Kringluna saman en aðsókn á kringlan.is margfaldaðist. Þrátt fyrir dræma aðsókn í húsið á köflum, á meðan faraldurinn stóð sem hæst, þá jókst sala í Kringlunni á milli ára. Svo virtist sem skoðunarferðir í Kringluna hafi að hluta til færst úr raunheimum yfir í netheima en kaupferðir verið færri og hnitmiðaðri. Tilhneiging neytenda til að vilja taka fyrstu skref kaupferilsins, vöru- og verðsamanburð, með stafrænum hætti er ekki ný en er þróun sem faraldurinn hefur líklega ýtt enn frekar undir.

Árið 2018 ákvað stjórn og stjórnendur Kringlunnar að fyrstu fjögur skrefin að stafrænni Kringlu yrðu tekin; nýr vefur, kringlan.is með öflugri vöruleit; nýtt Kringluapp þar sem hægt yrði að sjá öll tilboð og viðburði í Kringlunni á einum stað; stafrænir leiðarvísar í göngugötu; og öflugra þjónustuborð með snjallri pakkaþjónustu þar sem viðskiptavinir gætu sótt vörur úr netverslunum Kringlunnar á einum stað eða fengið vörur sendar heim. Sigurjón Örn Þórsson er framkvæmdastjóri Kringlunnar, hann og hans teymi tóku þessa vinnu áfram.

Undir lok ársins 2019 var fyrsta áfanga stafrænar þróunar lokið. Skömmu seinna skall faraldurinn á og Kringlan breyttist yfir nóttu í vöruflutningamiðstöð. Afskaplega fáir gestir komu í hús. Kringlan stökk til og auglýsti vöruleitina á kringlan.is. Heimsóknir á vefinn tóku kipp, þótt fáir væru í húsinu voru fjölmargir á kringlan.is að skoða vöruframboð Kringlunnar. Vefverslun hjá kaupmönnum kom í stað hluta heimsókna í hús. Þjónustuverið kom sterkt inn í þessu ástandi. Fjárfest hafði verið í kerfi til að taka á móti pökkum frá kaupmönnum, þeir skráðir og keyrðir heim til viðskiptavina eða settir í snjallhólf þar sem viðskiptavinir geta nálgast vörurnar utan afgreiðslutíma Kringlunnar, til ellefu á kvöldin. Strax í fyrstu bylgju var ákveðið að ráðast í markaðsátak þar sem Kringlan bauð upp á fría heimkeyrslu pakka. Þessi þjónusta naut mikilla vinsælda og var Kringlan stundum með bílaflota að keyra vörur frá tíu á morgnanna til tíu á kvöldin.

Þegar leið á faraldurinn fór gestum í Kringluna að fjölga á ný. Lögð var mikil áhersla á að gera Kringluna eins örugga og hægt var. Þrif voru aukin og grímuskylda var sett á áður en hún var gerð almenn. Þegar jólin fóru að nálgast var lagt upp með að skipuleggja hefðbundna afsláttardaga með breyttum hætti til að draga úr fjölda samankomnum samtímis í Kringlunni. Aftur var gripið til frírrar heimkeyrslu sem viðskiptavinir tóku afar vel í.

Pakkasöfnun Kringlunnar hefur verið árlegur viðburður í yfir 20 ár, það er verkefni sem Kringlan hafði forgöngu um á sínum tíma og heppnaðist vel. Margir hafa nú tekið upp sambærileg verkefni og lagt þannig upp með að styðja málefnið, sem er að tryggja að börn efnaminni foreldra fái gjafir um jólin. Margir viðskiptavinir hafa skapað hefð í kringum ferð með í Kringluna fyrir jól með sínum börnum þar sem þau aðstoða við val á gjöf, pakka henni inn og setja undir tréð handa öðru barni sem fengi annars fáar eða engjar gjafir.

Söfnunin fór hægt af stað í ár. Hefðin var brotin, enda innkaupastjóri fjölskyldunnar almennt einn á ferð í Kringlunni í hnitmiðaðri innkaupaferð. Kringlan brá þá á það ráð að nýta stafræna þjónustu þar sem boðið var upp á gjafakaup í gegnum netið. Starfsfólk á vegum Kringlunnar verslaði gjafir og setti undir tréð. Boðið var upp á að velja upphæð og aldursbil ásamt kyni ef fólk vildi. Þetta tókst ótrúlega vel og Kringlan fékk aðstoð góðgerðarfélaganna sjálfra við innpökkun. Fjölmiðlar og kaupmenn í húsi urðu einnig við ákallinu. Fjölmiðlar auglýstu og verslanir lögðu mikið á árar, gáfu vörur og veittu afslætti þegar verið var að kaupa gjafir í pakkasöfnunina.

Söfnunin í ár var ein sú best heppnaða frá upphafi og það var ánægjulegt að með þessari aðferð varð aldurshópurinn 12 til 15 ára síður útundan eins og hefur stundum verið.

Afþreying, þjónusta og félagsleg tengsl

Gosbrunnar, pálmatré og 20 gráður fönguðu framtíðarsýn og tíðaranda tíunda áratugarins. Þó umgjörðin og framtíðarsýnin hafi þróast þá hefur í grunninn ekki mikið breyst. Kringlan er enn staður til að versla, upplifa mannlíf og félagsleg tengsl. Forsvarsmenn Kringlunnar telja hlutverk verslunarmiðstöðva verða í auknum mæli félagslegt, þ.e. staður þar sem fólk sækir í að koma til að versla, nýta þjónustu, njóta afþreyingar eða matar. Þessa þróun má þegar sjá m.a. með auknu þjónustuframboði í Kringlunni svo sem nýlegri 2.000 fermetra sjúkraþjálfun og líkamsræktarstöð sem opnar innan skamms. Þá hefur veitingastöðum í Kringlunni fjölgað á undanförnum árum.

Kringlureitur - rammaskipulagStórtækar breytingar eru fyrirhugaðar á Kringlusvæðinu sem miða að því að skapa öflugt samfélag íbúða, verslunar, þjónustu, menningar og listastarfsemi. Uppbyggingin er langtímaverkefni þar sem gert er ráð fyrir 160 þúsund nýjum fermetrum með 800 til 1.000 nýjum íbúðum. Lagt er upp með að breytingar verði gerðar á verslunarmiðstöðinni sem opna hana í meira mæli í átt að þessu samfélagi og bjóða það velkomið inn. Þróun svæðisins snýst um að samtvinna nýja byggð og núverandi starfsemi.  Íbúðabyggð við Kringluna verður áhugaverður kostur fyrir þau sem vilja búa miðsvæðis með aðgang að þeirri víðtæku þjónustu og afþreyingu sem finna má á Kringlusvæðinu auk þess að njóta nálægðar við miðbæinn og stór atvinnusvæði.

Gott samfélag styrkist og eflist

Styrkleiki Kringlunnar er fjölbreytni, innan hennar eru fjölbreyttari verslunarbil en eru gjarnan í verslunarmiðstöðvum. Hér geta einyrkjar byrjað smátt og flutt sig til ef vel gengur og tækifæri opnast. Fjöldi verslana hefur verið í húsinu frá upphafi eða nánast svo, má þar nefna sem dæmi Mebu, Hagkaup, Herragarðinn, Kringlukránna, Sautján og fleiri. Starfsánægja hjá Rekstrarfélagi Kringlunnar er mikil, félagið var Fyrirtæki ársins hjá VR í sínum flokki árið 2020 og starfsaldur er hár. Spurningavagn sem lagður er árlega fyrir rekstraraðila í Kringlunni mælir sömuleiðis ríka ánægju þeirra gagnvart Rekstrarfélagi Kringlunnar þegar kemur að þjónustu þeirra. 

Þó Kringlan bjóði ekki upp á bárujárnshús og enn sé langt í 200 ára afmælisköku eftir endilangri göngugötunni þá er Kringlan orðinn rótgróinn áfangastaður þar sem fólk hittist, verslar og nýtur afþreyingar. Nýja hverfinu er ætlað að fanga þetta og styrkja enn frekar.