Framsýni er lykilþáttur í rekstri Reita, en aðlögunarhæfni er forsenda framþróunar. Með skjótum viðbrögðum við breyttum aðstæðum stendur Reitir fasteignafélag sterkt nú þegar farið er að sjá til sólar. Útleiga gekk vel á árinu, stökk voru tekin í átt að sjálfbærari framtíð og þróunarverkefnum miðar vel áfram.  

Árið 2020 verður án vafa skráð í sögubækurnar. Loftslagsváin virtist ná nýjum hæðum í upphafi ársins í formi gróðurelda í Ástralíu og hitabeltisstorma í suður Atlantshafi svo fátt eitt sé nefnt. Um það leyti sem eldarnir slokknuðu kviknaði ný vá, veira sem átti eftir að skekja heimsbyggðina með miklum heilsufarslegum og efnahagslegum afleiðingum. Heimsfaraldur var skollinn á, eitthvað sem flest okkar höfðu einungis lesið um í sögubókum. Þegar óvinurinn fór ekki í manngreiningarálit né virti landamæri myndast slík samstaða að tækniframfarir sem að öllu jöfnu næðu fram að ganga á áratug tóku innan við tólf mánuði. Bóluefni hafa litið dagsins ljós og er ástæða til að horfa björtum augum fram á veginn. 

Eftir stendur spurningin um hvaða áhrif faraldurinn muni hafa á atferli, vinnuumhverfi, fyrirtækjamenningu og kauphegðun þegar litið er fram á veginn og hvernig heimfæra megi áhrifin upp á samband leigusala og leigutaka. Áhugavert var til dæmis að fylgjast með því hvernig Kringlan brást við nýjum og krefjandi aðstæðum, nánar um það í umfjöllun um Kringluna. Faraldurinn hefur sýnt að starfsfólk Reita og Kringlunnar býr yfir framsýni og aðlögunarhæfni sem mun nýtast í breyttum aðstæðum.

Lausafjárstaða styrkt

Rekstur Reita fór ekki varhluta af ástandinu á árinu 2020 frekar en margra annarra fyrirtækja í samfélaginu. Til að glíma við afleiðingar faraldursins var gripið til ýmissa ráðstafana til að efla félagið, meðal annars til að gera því kleift að koma til móts við viðskiptavini sem sumir hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli. Lausafjárstaða félagsins var styrkt með sölu á nýju hlutafé í október en seldir voru 120 milljón hlutir í forgangsréttarútboði hluthafa fyrir 5.160 m.kr. Áskriftir bárust fyrir rúmlega tvöföldu því magni sem í boði var. Lánakjör félagsins voru jafnframt bætt með útgáfu nýrra skuldabréfaflokka og stækkun eldri flokka auk þess sem nokkra eignir voru seldar út úr eignasafninu. Þessar aðgerðir styrktu félagið til að takast á við afleiðingar veirunnar, til að lækka skuldsetningarhlutföll og til að grípa áhugaverða fjárfestingamöguleika.

Eignasafnið þróað og eflt

Undir lok ársins 2020 undirrituðu Reitir kaupsamning við dótturfélag Icelandair Group hf. um kaup á fasteigninni að Nauthólsvegi 50. Um er að ræða 6.474 fermetra skrifstofuhúsnæði sem hýst hefur starfsemi Icelandair Group hf. og dótturfélaga og mun gera áfram um sinn en samhliða kaupsamningnum var gengið frá leigusamningi þar um til þriggja ára. Kaupverð fasteignarinnar er 2.250 m.kr. og áhrif kaupanna á rekstrarhagnað Reita eru um 160 m.kr. á ársgrundvelli. Fjárfestingin er til staðfestingar þess að Reitir ætla að vera virkur þátttakandi á markaði með atvinnuhúsnæði.

Í eignasafnskýrslu ársins 2020 má finna nánari upplýsingar fasteignasafn Reita.

Nauthólsvegur 50 og 52. Húsnæði Icelandair Reykjavik Natura og skrifstofubygging Icelandair.
Nauthólsvegur 50, nýjasta fjárfesting Reita, og Nauthólsvegur 52, Icelandair Hotel Reykjavík Natura.

Þrátt fyrir að félagið hafi þurft að grípa til ýmissa aðgerða, s.s. frestun leigugreiðslna, til að koma til móts við hluta viðskiptavina vegna ástandsins, þá var greiðslugeta meirihluta viðskiptavina óskert. Má þar nefna verslun með mat og lyf, hið opinbera og iðnaðar- og skrifstofumarkaðinn almennt. Að mati Reita er framtíð ferðaþjónustunnar björt og hún mun aftur verða einn undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Góður gangur var í útleigu á árinu og nýting ágæt. Undirritaður var leigusamningur við ISAVIA um 2.000 m2 húsnæði í Dalshrauni í Hafnarfirði fyrir nýjar höfuðstöðvar félagsins. Umfangsmiklum framkvæmdum lauk á Eiríksgötu þar sem um 5.000 m2 endurnýjað húsnæði var afhent Landspítala í lok ársins. Nýir leigusamningar voru gerðir m.a. í Austurstræti 12a, á Höfðabakka og á Hallveigarstíg svo nokkur dæmi séu tekin. 

Þróunarverkefni mikilvæg í verðmætasköpun til framtíðar

Í landi Blikastaða í Mosfellsbæ eiga Reitir um 15 hektara svæði þar sem fyrirhuguð er uppbygging á 90 þúsund fermetra atvinnukjarna. Náttúrugæði, sjálfbærni og samnýting er höfð að leiðarljósi við skipulag svæðisins sem verður vottað samkvæmt BREEAM Communities staðlinum. Skipulagsvinnu er að mestu lokið og unnið er með Mosfellsbæ varðandi næstu skref. 

Þróunarsvæði Reita í landi Blikastaða í Mosfellsbæ
Land Reita í landi Blikastaða við sveitarfélagamörk Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Nýr atvinnukjarni er fyrirhugaður á svæðinu. 

Fyrirhugað er að reisa nýja íbúðabyggð á Orkureit með um 440 íbúðum á um 26 þúsund fermetra lóð í eigu Reita. Lóðin er afar vel staðsett miðsvæðis, við fyrirhugaða Borgarlínu, gegnt útivistarsvæði í Laugardal og í nálægð við fjölbreytta verslun og þjónustu, m.a. í Skeifunni og Glæsibæ. Skipulag fyrir þennan reit verður einnig vottað samkvæmt BREEAM Communities og verður svæðið að líkindum hið fyrsta í Reykjavík til að hljóta slíka vottun. Skipulagsvinnu er lokið og er verkefnið í samráðsferli.

Nýtt skipulag Orkureitsins með 440 íbúðum.
Orkureiturinn, við Grensásveg milli Suðurlandsbrautar og Ármúla. Ný randbyggð með bílastæðum neðanjarðar.

Á Kringlusvæðinu er fyrirhugað að þróa öflugan borgarkjarna með alls um 1.000 íbúðum, 160 þúsund nýjum fermetrum, á um 13 hektara svæði sem eru að stóru leyti í eigu Reita. Yfirstandandi uppfærsla á aðalskipulagi Reykjavíkur rennir stoðum undir þau áform. Á sl. ári var unnið að deiliskipulagi fyrsta áfanga og er skipulagið nú í lögbundnu samráðsferli.  Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir 350-400 íbúðum og rúmlega 50 þúsund fermetra byggingarmagni.  

Áfangar í átt að sjálfbærri framtíð

Í september sl. fengu Reitir afhent leyfi fyrir fyrstu Svansvottuðu endurbætur á húsnæði á Norðurlöndunum vegna skrifstofuhúsnæðis Umhverfisstofnunar við Suðurlandsbraut 24. Reitir lærðu mikið á verkefninu og hafa í framhaldi þess lagt aukna áherslu á efnisval, endurnýtingu byggingarefna og orkunýtingu, hvort sem framkvæmdir eru vottaðar eða ekki. Eins og áður sagði var unnið að tveimur BREEAM vottuðum deiliskipulagstillögum á árinu sem einnig skila miklum lærdómi til Reita og allra sem koma að verkefnunum.

Í samfélagsskýrslu ársins 2020 má finna nánari upplýsingar um stöðu samfélags- og umhverfismála hjá Reitum. 

Lagt á vogarskálarnar í baráttunni við veiruna

Skömmu eftir að Covid-19 faraldurinn hófst höfðu Reitir samband við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landlækni og Landspítalann og buðu fram aðstoð í formi húsnæðis.  Niðurstaðan varð sú að hið svo kallaða Orkuhús við Suðurlandsbraut 34 var veitt til láns og hefur orðið kennileiti vel skipulagðrar og áhrifaríkrar skimunar og sýnatöku fyrir covid-19 veirunni um langt skeið, ásamt því að nýtast til bólusetninga. Með þessu gátu Reitir lagt verulega á vogarskálarnar í baráttunni við veiruna.

Suðurlandsbraut 34 "Orkuhúsið"
Suðurlandsbraut 34, bygging sem Reitir lánuðu til baráttu landsins gegn Covid-19 faraldrinum. 

 

Undanfarið ár hefur reynst mörgum fyrirtækjum í landinu erfitt. Sterk fasteignafélög og fjármálastofnanir með burði til að veita fyrirtækjum í vandræðum fyrirgreiðslu hafa sannað gildi sitt í samfélaginu. Bataferlið er hafið þó það muni taka tíma fyrir hagkerfið að ná fyrri styrk. Fjárhagslegur styrkur Reita er umtalsverður og félagið því í stakk búið til að vinna áfram með viðskiptavinum og öðrum hagaðilum að lausnum þar sem það á við og til að nýta tækifæri sem skapast til framþróunar og fjárfestinga.

Viðskiptavinum, fjárfestum, stjórn og starfsfólki er þakkað gott samstarf á árinu 2020.