Kringlureitur

Öflugt samfélag með blöndu íbúða, verslana, þjónustu, afþreyingar og menningar. Bætt aðgengi frá hverfunum í kring og greiðfærari samgöngur fyrir alla.

   
Stærð svæðis: 13 hektarar
Nýtt byggingarmagn: 160 þús. m2
Fjöldi íbúða: 800 til 1000
Staða: Aðalskipulagsbreyting í vinnslu

 

Kringlureitur - rammaskipulag

Rammaskipulag fyrir Kringlusvæðið var samþykkt í Borgarráði í júní 2018. Síðan þá hafa Reitir unnið að skipulagi svæðisins í samvinnu við Reykjavíkurborg. Í fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur verður fjallað um bæði Kringlureitinn og Miklubraut í stokk í tengslum við þéttingu byggðar meðfram Borgarlínu og forgangsröðun uppbyggingarsvæða. Ennfremur hefur færsla Miklubrautar í stokk fengið jákvæða umfjöllun í nýjum samgöngusáttmála Höfuðborgarsvæðisins. 

Þróun Kringlureitsins verður áfangaskipt en möguleikar á norðurenda reitsins haldast í hendur við færslu Miklubrautar í stokk.  Að frumkvæði Reita var unnin forhönnun á stokknum sem kynnt var fyrir Reykjavíkurborg og Vegagerðinni í ársbyrjun 2019. Talið er að samfélagslegur ávinningur af verkefninu skapist m.a. með bættu umferðaröryggi og umhverfisgæðum, tíma- og eldsneytissparnaði og bættu aðgengi gangandi fyrir alla ferðamáta um gatnamótin sem nú eru hin umferðarmestu á höfuðborgarsvæðinu.

Reitir vonast til að fyrsti skipu­lags­áfangi verði samþykktur í ársbyrjun 2021. Reiknað er með að uppbygging geti hafist tveimur árum seinna en að svæðið byggist upp á 10-15 árum.

Mótun öflugs samfélags á Kringlusvæðinu sem fellur saumlaust að aðliggjandi hverfum krefst samvinnu, fagmennsku og ekki síst þolinmæði. Þannig fæst besta niðurstaðan til framtíðar.

Horft vestur eftir Miklubraut í stokk með rólegri umferð á yfirborðiHorft vestur eftir Miklubraut í stokk með rólegri umferð á yfirborðinu.
 

Orkureitur

Orkureiturinn er miðsvæðis, við fyrirhugaða borgarlínu. Þar er gert ráð fyrir að lágreistar byggingar víki fyrir nýju 4-9 hæða borgarmiðuðu skipulagi en gamla Rafmagnsveituhúsið fær virðingarsess á lóðinni.

   
Stærð svæðis: 26 þús. m2
Nýtt byggingarmagn: ~40 þús. m2
Fjöldi íbúða:  ~450
Staða: Deiliskipulagsbreyting í vinnslu

 

Orkureitur, horn Grensásvegar og Suðurlandsbrautar.

Orkureiturinn er á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar, og nær að Ármúla. Lóðin er afar vel staðsett miðsvæðis, gegnt útivistarsvæði í Laugardal og í nálægð við fjölbreytta verslun og þjónustu, m.a. í Skeifunni.

Um þessar mundir er verið að vinna deiliskipulag fyrir reitinn út frá kröfum BREEAM Communities vistvottunarstaðlsins enda standa vonir til þess að reiturinn hljóti slíka vottun. Verður hann líklega sá fyrsti í Reykjavík til að hljóta hana. Staðallinn skilgreinir umhverfis-, samfélags- og efnahagsviðmið sem hverfinu er ætlað að ná. Áhersla er lögð á samnýtingu innviða þar sem við á ásamt hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Vinna út frá staðlinum felur í sér að hugað er að sjálfbærum áherslum í skipulagsvinnunni strax í upphafi með það fyrir augum að móta áhugavert umhverfi sem er endingargott, öruggt og aðlaðandi. Þannig er horft til fleiri þátta en alla jafnan er krafist við deiliskipulagsgerð.

Væntingar eru um að deiliskipulagsvinnu reitsins ljúki í ár og að uppbygging geti hafist 2022.

Inngarður nálægt Grensásvegi, horft í átt að gamla Rafmagnsveituhúsinu.
Inngarður á Orkureitnum nálægt Grensásvegi. Ef horft er inn göngustíginn sést í gamla rafmagnsveituhúsið.

Atvinnusvæðið í Blikastaðalandi

Blikastaðaland er við Vesturlandsveg á sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Á svæðinu er fyrirhuguð uppbygging atvinnukjarna sem skipulagður verður með náttúrugæði, sjálfbærni og samnýtingu að leiðarljósi.

   
Stærð svæðis: 15 hektarar
Nýtt atvinnuhúsnæði: 80 - 100 þús. m2
Staða: Deiliskipulagsbreyting í undirbúiningi

 

Atvinnusvæði í Blikastaðalandi, horft til norðurs.Atvinnukjarninn mun njóta góðs af nálægð við gróin íbúðahverfi, góðum tengingum við gatnakerfið og öflugum almenningssamgöngum seinna meir, enda lagning Borgarlínu áætluð gegnum svæðið.

Um mitt ár 2019 undirrituðu Reitir og Mosfellsbær viljayfirlýsingu um uppbygginguna og stendur nú yfir skipulagsvinna sem tekur mið af kröfum BREEAM Communities vistvottunarstaðalsins enda markmið Reita að skipulag svæðisins hljóti slíka vottun.

Væntingar standa til þess að deiliskipulagsvinnu Blikastaðalandsins ljúki á seinnihluta 2020 og að gatnagerð og framkvæmdir geti hafist árið 2022. 

Uppbygging atvinnusvæðisins í Blikastaðalandi er langtímaverkefni sem gert er ráð fyrir að taki allt að áratug í uppbyggingu. 

Atvinnusvæðið í landi Blikastaða.Atvinnusvæðið í landi Blikastaða.

Hyatt Centric á Laugavegi 176

Hyatt Centric er keðja lífsstílshótela með skemmtilega stemningu. Húsið að Laugavegi 176 verður stækkað og endurnýjað til að hýsa hótelið.

Í desember 2019 var tilkynnt að alþjóðlega hótelkeðjan Hyatt Hotels Corporation og Reitir hefðu undirritað sérleyfissamning um rekstur Hyatt Centric hótels að Laugavegi 176. Fasteignin, sem um áratuga skeið hýsti starfsemi Ríkissjónvarpsins, verður endurbyggð og stækkuð þannig að hún rúmi 169 herbergi, fundarsali, veitingastað, heilsurækt og skemmtileg almenningsrými í anda Hyatt hótelkeðjunnar. Reitir stefna að því að halda fasteigninni í eignasafni félagsins til lengri tíma en selja rekstur hótelsins til traustra rekstraraðila. Nýja Hyatt hótelið verður hið fyrsta á Norðurlöndunum en hótelin eru nú starfrækt í yfir 850 fasteignum í um 60 löndum. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í ársbyrjun 2021 og að hótelið opni árið 2022.