Guðjón Auðunsson, forstjóri:

Vel ígrundaðar fjárfestingar þar sem framsýni, áreiðanleiki og arðsemi eru í fyrirrúmi mynda uppistöðu eignasafns Reita. Framsýni er forsenda arðbærra langtímafjárfestinga í atvinnuhúsnæði sem mæta þörfum atvinnulífsins. Þannig fléttast saman hagsmunir leigutaka og arðsemi fjárfesta.

Í upphafi nýs áratugar er sjálfbærni, og þar helst umhverfis- og loftslagsmál, okkar mest aðkallandi áskorun. Öflugt og drífandi fasteignafélag á borð við Reiti getur verið í forystu í innleiðingu nýrra aðferða í skipulagi, þróun, rekstri og viðhaldi fasteigna sem taka mið af þessum aðkallandi verkefnum.

Umgjörð Kringlusvæðisins tekur á sig mynd

Á Kringlusvæðinu vinna Reitir að mótun öflugs samfélags með blöndu íbúða, verslana, þjónustu, afþreyingar og menningar. Fyrirhugað er að reisa nýja byggð með 800 til 1.000 íbúðum. Nýtt byggingarmagn er áætlað um 160 þús. fermetrar.

Svæðið allt er um 13 hektarar. Við skipulag svæðisins er lögð áhersla á að bæta tengingar þess við aðliggjandi hverfi auk þess að gera samgöngur við Kringluna greiðfærari fyrir alla ferðamáta.

Rammaskipulag svæðisins var samþykkt í borgarráði í júní 2018. Síðan þá hafa Reitir unnið markvisst að skipulagi byggðarinnar í samvinnu við Reykjavíkurborg. Gert er ráð fyrir að uppbygging verði áfangaskipt en uppbygging á norðurenda svæðisins helst í hendur við færslu meginumferðar Miklubrautar í stokk.

Að frumkvæði Reita var unnin forhönnun á Miklubraut í stokk sem kynnt var fyrir Reykjavíkurborg og Vegagerðinni í ársbyrjun 2019. Talið er að samfélagslegur ávinningur af verkefninu skapist m.a. með bættu umferðaröryggi og umhverfisgæðum, tíma- og eldsneytissparnaði og verulega bættu aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda og notenda almenningssamgangna. Flutningur meginumferðar Miklubrautar í stokk greiðir úr og bætir flæði umferðar sem myndi gerbreyta gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar sem eru umferðarmestu gatnamót höfuðborgarsvæðisins í dag.

Hugmynd að skipulagi og útliti Kringlusvæðisins
Horft austur eftir Miklubraut í stokk. Borgarlína og minni umferð á yfirborði.

Í nýjum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins kemur fram að færsla Miklabrautar í stokk er framkvæmd sem aðilar að sáttmálanum eru sammála um að flýta. Nú stendur yfir umfangsmikil breyting á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem lýtur að stefnu um þéttingu byggðar meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu og forgangsröðun uppbyggingarsvæða. Í fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu verður fjallað sérstaklega um bæði Kringlureit og Miklubraut í stokk.

Mótun öflugs samfélags á Kringlusvæðinu sem fellur snurðulaust að eldri nærliggjandi hverfum krefst samvinnu, fagmennsku og ekki síst þolinmæði. Þannig fæst besta niðurstaðan til framtíðar.

Sjálfbærar áherslur á Orkureit

Á Orkureitnum, lóð sem liggur við Grensásveg á milli Ármúla og Suðurlandsbrautar, er fyrirhugað að reisa nýja íbúðabyggð með um 450 íbúðum á um 26 þúsund fermetra lóð. Lóðin er afar vel staðsett miðsvæðis, við fyrirhugaða legu Borgarlínu, gegnt útivistarsvæði í Laugardal og í nálægð við fjölbreytta verslun og þjónustu, m.a. í Skeifunni og Glæsibæ.

Gert er ráð fyrir að lágreistar byggingar Ármúlamegin á lóðinni víki fyrir nýju 4-9 hæða borgarmiðuðu skipulagi en gamla Rafmagnsveituhúsið fær virðingarsess á lóðinni.

Um þessar mundir er verið að vinna deiliskipulag fyrir reitinn út frá BREEAM Communities vistvottunarstaðlinum og verður reiturinn líklega sá fyrsti í Reykjavík til að hljóta slíka vottun.

Staðallinn skilgreinir umhverfis-, samfélags- og efnahagsviðmið sem hverfinu er ætlað að ná. Áhersla er lögð á samnýtingu innviða þar sem við á og hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Vottunin felur í sér að hugað er að sjálfbærum áherslum í skipulagsvinnunni strax í upphafi með það fyrir augum að lágmarka neikvæð áhrif byggðar á umhverfið. Þannig er horft til fleiri þátta en allajafna er krafist við deiliskipulagsgerð.

Væntingar eru um að deiliskipulagsvinnu Orkureitsins ljúki í ár og að framkvæmdir geti hafist í ársbyrjun 2022.

Orkureiturinn, horft inn Ármúla frá Grensásvegi
Möguleg ásýnd horns Grensásvegs og Ármúla eftir uppbyggingu á Orkureitnum.

Nýr atvinnukjarni í mótun í Blikastaðalandi

Í landi Blikastaða í Mosfellsbæ eiga Reitir um 15 hektara svæði. Svæðið er við Vesturlandsveg á sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Á svæðinu er fyrirhuguð uppbygging á 80–100 þúsund fermetra atvinnukjarna. Náttúrugæði, sjálfbærni og samnýting verður höfð að leiðarljósi við skipulag svæðisins sem mun njóta góðs af nálægð við gróin íbúðahverfi og góðum tengingum við gatnakerfið og öflugar almenningssamgöngur seinna meir, enda Borgarlína fyrirhuguð gegnum svæðið.

Um mitt ár 2019 undirrituðu Reitir og Mosfellsbær viljayfirlýsingu um uppbygginguna og stendur nú yfir deiliskipulagsvinna sem tekur mið af kröfum BREEAM Communities vistvottunarstaðalsins. Þess er vænst að henni ljúki á seinni hluta ársins og að gatnagerð og framkvæmdir geti hafist árið 2022.

Möguleg ásýnd atvinnusvæðisins í landi Blikastaða.Borgarlína er fyrirhuguð gegnum atvinnusvæðið í landi Blikastaða. Skipulagshugmyndir gera ráð fyrir að hún liggi ekki við götu þar sem bílaumferð verður.

Hyatt-hótelkeðjan til Íslands í samvinnu við Reiti

Í desember 2019 var tilkynnt að alþjóðlega hótelkeðjan Hyatt Hotels Corporation og Reitir hefðu undirritað sérleyfissamning um rekstur Hyatt Centric hótels að Laugavegi 176. Fasteignin, sem um áratugaskeið hýsti starfsemi Ríkissjónvarpsins, verður endurbyggð og stækkuð þannig að hún rúmi 169 herbergi, fundarsali, veitingastað, heilsurækt og skemmtileg almenningsrými í anda Hyatt-hótelkeðjunnar. Reitir stefna að því að halda fasteigninni í eignasafni félagsins til lengri tíma en selja rekstur hótelsins til traustra rekstraraðila.

Hótelið verður fyrsta Hyatt-hótelið á Norðurlöndum en hótelkeðjan rekur nú starfsemi í yfir 850 fasteignum í um 60 löndum. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á reitnum í ársbyrjun 2021 og að hótelið verði opnað árið 2022.

400 farsæl viðskiptasambönd undirstaða stöðugs rekstrar

Þrátt fyrir nokkurn mótbyr í efnahagslífinu var rekstur Reita ágætur á árinu 2019. Stærstu verkefni ársins fólust í aðlögun núverandi húsnæðis í eignasafni Reita að breyttum þörfum langtímaviðskiptavina.

Um mitt ár 2019 fékk Landspítali afhent endurnýjað húsnæði að Skaftahlíð 24. Þar er um að ræða rúmlega 5.000 fermetra í tveimur byggingum. Skrifstofur spítalans voru áður staðsettar í annarri byggingu í eignasafni Reita, Eiríksgötu 5, en sú bygging fær senn nýtt hlutverk eftir gagngerar endurbætur sem ráðist verður í á árinu 2020.

Eiríksgata 5 - Reitir fasteignafélagEiríksgata 5 fær senn nýtt hlutverk í þágu Landspítalans.
 

Sjúkraþjálfun Íslands, sem hafði verið með aðsetur í Orkuhúsinu um árabil, opnaði á árinu nýja starfsstöð á þriðju hæð í Kringlunni. Þar fékk sjúkraþjálfunin endurnýjað húsnæði sérsniðið að sínum þörfum.

Umhverfisstofnun hefur verið í húsnæði í eigu Reita síðan 2002. Í lok ársins 2018 var endurnýjaður leigusamningur við stofnunina og í kjölfarið hefur verið unnið að gagngerri endurnýjun húsnæðisins við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Allar endurbætur á húsinu voru unnar í samræmi við kröfur Svansins sem er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Væntingar eru um að endurbæturnar hljóti Svansvottun á næstu misserum og verður það að öllum líkindum í fyrsta sinn sem endurbætur á skrifstofuhúsnæði hljóta slíka vottun hér á landi.

Þannig mætti áfram telja upp stór og smá fyrirtæki sem eiga samleið með Reitum og eru hluti af þeim tæplega 400 farsælu viðskiptasamböndum sem liggja til grundvallar starfsemi félagsins.

Sjálfbær framtíð

Samhliða ársreikningi 2019 gefa Reitir út samfélagsskýrslu sem tekur á umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum hjá félaginu. Skýrslan tekur mið af leiðbeiningum Nasdaq um birtingu upplýsinga um samfélagsábyrgð, eða svokölluðum ESG (e. environmental, social, governance) þáttum.

Á komandi árum hyggjast Reitir leggja aukna áherslu á mælingu ESG þátta, setningu markmiða og eftirfylgni með þessum þáttum í starfsemi sinni. Bygging, viðhald og rekstur húsnæðis spilar stórt hlutverk í þeirri umhverfisvá sem steðjar að heiminum og telja Reitir sig geta haft veruleg áhrif til bóta innan síns starfsumhverfis. Þrjú af sautján Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna hafa verið valin til að styðjast við í þeim efnum, þ.e. góð atvinna og hagvöxtur, sjálfbærar borgir og samfélög og síðast en ekki síst ábyrg neysla og framleiðsla.

Með þessi markmið í fararbroddi ásamt markvissum mælingum og markmiðasetningu geta Reitir í samvinnu við viðskiptavini, birgja og samfélagið verið í forystu í innleiðingu sjálfbærari starfshátta á nýjum áratug.

Viðskiptavinum, fjárfestum, stjórn og starfsfólki er þakkað gott samstarf á árinu 2019.